c

Pistlar:

13. október 2009 kl. 0:09

Jóna Á. Gísladóttir (jonaa.blog.is)

Ristað brauð með smjöri

Sá Einhverfi var að rista sér brauð. Sem er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi. Hann er orðinn ótrúlega duglegur og auðvitað hvergi eins sjálfbjarga eins og í eldhúsinu, enda er það sem leynist þar í skápunum hans aðal áhugamál. Hann skellti tveimur brauðsneiðum í ristina og þegar þær poppuðu upp smurði hann svo ríflega með smjöri að ég sá þann kost vænstan að blanda mér í málið. Því var ekki tekið þegjandi en ég fékk að ráða. Var ekki alveg á því að barnið fengi sér smjör með brauði í staðin fyrir brauð með smjöri.

Sá Einhverfi tók fram tvo diska og setti eina brauðsneið á hvorn disk. Ég fórnaði höndum; átti þetta nú að verða nýjasta áráttan? Að nota marga diska fyrir hverja máltíð. Yrði næsta heita máltíð þannig að hver kartafla og hver kjötbita fengi sinn einkadisk.

Ég sameinaði brauðsneiðarnar á disk en um leið og ég sneri mér við var hann búinn að ná í hinn diskinn aftur. Svo gekk hann inn í stofu þar sem Gelgjan systir hans lá eins og klessa í stól og horfði á sjónvarpið. Hann lagði diskinn fyrir framan hana þegjandi og hljóðalaust, áður en hann sneri sér að því að innbyrða brauðsneiðina sem hann ætlaði sjálfum sér.

Þó að Gelgjunni byði við smjör magninu (þrátt fyrir inngrip móður á smurningu) klappaði hún saman höndunum og þakkaði bróður sínum afskaplega vel fyrir. Meðvituð um að hugtakið: að deila, eða að hugsa fyrst um aðra, er langt frá því að vera sjálfsagt þegar kemur að einhverfum einstaklingi.

Mamman var náttúrlega í awwwwwwwwwwww-gírnum.. út af báðum börnunum.

Jóna Á. Gísladóttir

Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Meira