c

Pistlar:

27. október 2009 kl. 12:35

Jóna Á. Gísladóttir (jonaa.blog.is)

Hlutir endurheimtir og börn öguð

Ég er heppin. Svo endalaust heppin. En auðvitað hlýtur heppnin að renna sitt skeið á endanum.

Í gærmorgun uppgötvaði ég að blessað Visa kortið mitt var ekki þar sem það á að vera, þ.e.a.s. í veskinu mínu. Eftir að hafa brotið heilann í nokkra stund komst ég að þeirri niðurstöðu að ég hefði síðast notað það í Krónunni á laugardaginn. Svo ég hringdi. Og jú, viti menn, kortið var þar.

Ég veit ekki hversu oft ég hef gleymt alls konar hlutum, misverðmætum af vísu, hist og her um borgina. Alltaf fæ ég þá aftur.

Seðlaveskið mitt dagar oft upp í hillu í einhverri fataversluninni þar sem ég gleymi mér við að skoða boli, buxur eða annan fatnað.  Legg frá mér veskið og rölti mína leið, sæl og glöð. Geng svo að veskinu aftur hálftíma seinna innan um tuskurnar. Meira að segja í útlöndum þar sem manni er ráðlagt að ríghalda í allt sem heitir veski eða töskur því þjófar séu á hverju götuhorni hef ég upplifað nákvæmlega þetta.

Ég hef aldrei gleymt barni en einu sinni gerði ég tilraun til þess. Á pósthúsi. Rölti út með Þann Einhverfa í barnastólnum og skyldi Gelgjuna eftir á öskrunum yfir tyggjókúlu í sjálfsala sem móður hennar hugnaðist ekki að kaupa fyrir hana.

Ég ætlaði nú svo sem ekki langt. Bara út í bíl að spenna Þann Einhverfa fastan. Hann var þá þegar orðinn vel þungur og engin leið fyrir mig að bera hann út í annarri hendi og kippa kolvitlausum 3ja ára krakka undir hinn handlegginn.

En það varð uppi fótur og fit á pósthúsinu. Ein af kellunum kom hlaupandi út á eftir mér og spurði með miklum þjósti hvort ég ætlaði bara að skilja krakkaskrattann eftir. Hún virtist dauðhrædd um að þurfa að taka orminn með sér heim að loknum vinnudegi. Hefur sennilega alvarlega íhugað að hringja á barnaverndarnefnd.

Ég varð öskureið. Þarna var ég að nota mínar eigin aðferðir við að aga þessa 3ja ára og var ekki par glöð yfir þessari afskiptasemi.

það má fylgja sögunni að það tók tvö skipti að koma Gelgjunni í skilning um að svona hagaði mér sér ekki í búðum (eða pósthúsum). Hitt skiptið sem ég skyldi hana eftir gargandi, var í Byko. Á milli rekka lá hún í gólfinu og frekjaðist. Ég lét eins og ég kannaðist ekkert við þetta barn, heldur dröslaðist um með fjandans barnastólinn, lauk mínum erindum, fór á kassa og greiddi. Ég sá útundan mér að fólk gaf brjálaða barninu hornauga, en mér var nokkuð sama.

Aldrei síðan hefur stúlkutetrið að tarna vælt um nokkurn skapaðan hlut í búðum. Reyndar þolir hún ekki búðir.... I wonder why

Jóna Á. Gísladóttir

Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Meira