Sá Einhverfi er kampakátur þessa dagana. Það er búið að vera yndislegt að ''setja upp jólin'' með honum síðustu vikur. Ég veit ekki hvort ljómar meira, jólatréið, sem stendur nú þegar í fullum skrúða í stofunni, eða augun í Þeim Einhverfa.
Hann vaknar á nóttunni til að gúffa í sig litlum gotterís-bitum sem jólasveinarnir skilja eftir í skónum hans en er alveg laus við áhyggjur eins og til dæmis að velta því fyrir sér hvernig jólasveinninn komist inn til hans. Sem er eins gott, því gluggarnir á herberginu hans hafa verið harðlokaðir undanfarið í rokinu og kuldanum.
Og talandi um veðrið.. Ég myndi nú frekar kjósa logn og að sjá hvítum flyksum kyngja niður í bjarmanum frá jólaljósunum sem loga svo fallega við næstum hvert hús. En því miður er hætt við að eitthvað af ljómanum í augum drengsins myndi slokkna við slíka sjón. Og ég myndi sennilega elska hann aðeins minna... NEI NEI NEI EKKI SNJÓR EKKI FROST (Argh Ian, heldurðu að ég ráði því?).
En frostið böggar hann ekki núna. Ekki á meðan það er ekki sjáanlegt á jörðinni. Frostið í vindinum bítur ekki á hann og veldur honum ekki hugarangri. Já, hann er skrítin skrúfa hann sonur minn. Skrítin og skemmtileg skrúfa.
Ég hef merkt kyrfilega inn á vikuplanið hans að skógjöfum sé lokið þann tuttugastaogfimmta. En samt sem áður á ég von á því að vakna upp um miðja nótt aðfaranótt jóladags við dreng sem lætur í sér heyra af vandlætingu yfir svikulum jólasveinum (eða móður) þegar hann mun vakna upp við tóman skó.
En það er seinna-tíma-vandamál. Núna hlakka ég til að upplifa jólin í gegnum börnin mín.
Gelgjan hefur pantað stöðu pakkastjóra á aðfangadagskvöld og ég veit henni mun farast starfið vel úr hendi. Eins og allt annað sem hún gerir. Hún hefur allt sitt líf haft þann heiður að setja engilinn á topp trésins en vék af fúsum og frjálsum vilja fyrir litla bróður þetta árið.
Ég er búin að skemmta mér vel yfir þessari mynd. Það er engu líkara en Gelgjan haldi 10 kílóum þyngri bróður sínum á lofti. En það rétta er að Sá Einhverfi stendur upp á stól og ''stóra'' systir styður við hann.
Undir tréinu er heill hellingur af jólapökkum sem Sá Einhverfi hjálpaði mér við að pakka inn og skrifa á til-og-frá kortin. Eitt slíkt kort skrifaði hann á án eftirlits. Til Ian frá Ian stendur á því. Og þannig myndi hann helst vilja hafa þau öll.