c

Pistlar:

28. desember 2009 kl. 13:04

Jóna Á. Gísladóttir (jonaa.blog.is)

Mamma veðurgyðja

Ég er mætt til vinnu. Afskaplega syfjuð enda hefur sólarhringurinn hjá fjölskyldunni farið svolítið á annan endann í fríinu.

Jólin voru ljúf í faðmi fjölskyldunnar. Engin jólaboð. Bara við á náttfötunum, horfandi á imbann eða með bók í hönd... og konfektkassann á lærunum (í fleiri en einni merkingu).

Góðir göngutúrar með Vidda Vitleysing slógu á át-samviskubitið, sem reyndar var með minna móti þessi jólin.

Sá Einhverfi reynir sífellt að semja við foreldrana um veðurfarið í Reykjavík. Á 2. í jólum stalst hann út á pall með vatnskönnu til að bræða frostið. Hann gerir auðvitað illt verra og móðirin er í lífshættu  á glerhálum pallinum þegar hún stelst út í bílskúr til að smóka sig.

Rigning á morgun mamma, sagði hann.

Nei Ian, veistu ég held ekki, sagði ég. Það verður örugglega snjór og kalt.

Þá fríkaði barnið út. Orðið ''snjór'' kveikir á einhverjum óhemjutökkum hjá honum.

Eftir langar og strangar samningaviðræður sættumst við á að þann 3. í jólum yrði ''kalt, ský og sól''.

Það gekk nokkurn veginn eftir. En í morgun byrjaði að snjóa algjörlega miskunnarlaust. Ég hringdi í Vesturhlíð til að athuga hvernig aumingja litli snjófælni drengurinn minn hefði það.

Það er skemmst frá því að segja að hann lagðist undir feld í morgun til íhugunar. Sundferð var þó nógu freistandi til að hann varð hreyfanlegur. Ég sé hann fyrir mér í heita pottinum, gólandi formælingar á eigin tungumáli upp til himins.

Kannski eru þær formælingar ætlaðar mér. Allavega virðist hann ekki efast um það eitt andartak að móðir hans sé hin eina sanna veðurgyðja.

Jóna Á. Gísladóttir

Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Meira