c

Pistlar:

29. desember 2009 kl. 15:28

Jóna Á. Gísladóttir (jonaa.blog.is)

Cargo til Kína

Á tímabili hættum við að telja niður í tannburstun á kvöldin fyrir Þann Einhverfa. Mér þótti þetta í raun ýta undir þráhyggjuna hans þar sem ekki var séns að sleppa með að segja: Bursta eftir 10 mínútur og segja svo næst: bursta eftir 5 mínútur.

Nei, það varð að telja rétt niður og svo gleymdum við okkur auðvitað inn á milli og talning fyrir 10 mínútur gat tekið allt að 40 mínútur.

Ég nennti þessu alls ekki lengur og ákvað að strákurinn væri orðinn alltof stór til að við stæðum í svona hringavitleysu.

Við tók hræðilegasta tímabil sem við höfum átt í fara-að-sofa rútínunni. Grátur, hótanir og handalögmál varð næstum því daglegt brauð. Þessu fylgdi skelfilegur vanlíðan og samviskubit yfir því að langa til, allavega annað hvert kvöld, að pakka barninu sínu ofan í ferðatösku, merkja hana ''to whom it may concern'' og senda til Xiamen í Kína.

Það var ekki fyrr en nýlega sem ég áttaði mig á þessari tengingu, þ.e. að háttatíminn varð svona erfiður eftir að við hættum að telja niður. En þá byrjaði ég líka að telja aftur. Af fullum krafti og af mikilli gleði og ástríðu. Tel bara eins og ég eigi lífið að leysa. Og ástandið hefur skánað til muna.

Sá Einhverfi reynir að vísu oft að teygja lopann.

Ian, fjórar mínútur

Nei mamma, bara sex mínútur

Og í stráknum, sem mér finnst alltaf vera litla barnið, er að fæðast unglingur og töffari.

Í gærkvöldi kvað við alveg nýjan tón

Jæja Ian, bursta eftir tíu mínútur

Mamma, gleymdu því....

Jóna Á. Gísladóttir

Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Meira