c

Pistlar:

27. apríl 2016 kl. 15:03

Kristín Linda (kristinlinda.blog.is)

Ert þú vaxandi?

13015237_859444654163837_6638495928579634696_nEinu sinni var allt nýtt í lífi okkar. Við lærðum að borða, tala, ganga og svo að klæða okkur, lesa og skrifa. Síðan lærðum við mörg að hjóla, keyra bíl og elda mat svo eitthvað sé nefnt.

Vaxandi einstaklingur er alltaf að læra og þroskast, alla ævina út í gegn.

Bæta við sig einhverju nýju, auka færni sína, þekkingu og visku. Það að læra og bæta sig eflir okkur á allan hátt, viðheldur sjálfsmynd okkar, virkni og getu. Höfum hugfast að það er algjörlega fánýt og úrelt hugmynd að dæma sjálfan sig eða afsaka með orðunum, ég er bara svona. Við erum ekki dæmd til að vera áfram einhverskonar, við erum breytileg. Ekki leyfa þér að festast í of litlum lífshring, staðna í vananum, dæma þig til að lifa takmörkuðu einhæfu lífi. Vera bundinn við að vera áfram sá sem þú varst í gær eða fyrra.

Gefðu þér gjöf lífsins, að vera virkur og vaxandi maður.

Gerðu það með því að viðhalda opnum huga, kjarki og krafti til að njóta bæði þess sem er nú og þess nýja. Með því að velja þér skapandi viðhorf lifandi huga sem er tilbúin til að verða, prófa, skoða, læra, taka eftir og skynja ný tækifæri. Við erum síbreytilegar lífverur og eigum öll möguleika á að breytast og bæta okkur með því að tileinka okkur eitthvað nýtt. Verða öðruvísi í sumar en við vorum síðasta sumar. Hugsa öðruvísi, nota önnur orð, hegða okkur á annan hátt, stýra tíma okkar á annan hátt og njóta lífsins á nýjan veg. Við getum tileinkað okkur nýtt á ótrúlega mörgum sviðum lífsins, alveg frá því smæsta til þess stærsta. Vani er þægilegur að vissu marki en hann er líka stöðnun. Ef við erum stöðnuð þá valda óhjákvæmilegar breytingar sem tímans hjól færir okkur, ótta og öryggisleysi. Af því að við höfum enga æfingu í því nýja og trúum ekki á eigin getu í breytingum. Þá er betra að vera lifandi, síbreytilegur einstaklingur í vexti og vita að það nýja er tækifæri. Best er að hafa oft upplifað að maður sjálfur ráði við nýjar stöður, leiði og upplifanir og virkilega njóti þroskaleiðarinnar.

Tileinkum okkur vaxtarsjálf og sönnum fyrir okkur að við getum höndlað það nýja og notið þess, þá vitum við að við erum fleyg og til í áskoranir og ævintýri lífsins.

Gætum þess allar stundir, já á hverjum degi, í hverri viku og hverjum mánuði að efla okkur og styrkja með því að gera eitthvað nýtt. Læra eitthvað, æfa okkur í einhverju, prófa eitthvað! Það getur verið krefjandi en einmitt þess vegna er það eflandi og skemmtilegt.

Við getum öll meira en við ætlum - þú líka!

Kristín Linda

Kristín Linda

Kristín Linda er sálfræðingur og starfar sjálfstætt á eigin sálfræðistofu Huglind á Höfðabakka 9 í Reykjavík - www.huglind.is. Hún er einnig ritstjóri tímaritsins Húsfreyjunnar sem er gefið út af Kvenfélagasambandi Íslands. Kristínu Lindu finnst heillandi að hjálpa fólki að bæta líf sitt, líðan og heilsu og nýtir til þess sálfræðilega þekkingu sína, reynslu og jákvæða lífssýn.

Meira