Jæja, þá er komið að erfiðasta hlutanum en það er að deila með ykkur tölunum sem að komu útúr mælingunum í gær. Ég vil hafa þetta alveg upp á borðinu til að svindla ekki og þá verða sigrarnir enn stærri þegar að þeir gerast.
Við fórum í mælingu í gær hjá Lilju og hittum Mörtu ásamt ljósmyndaranum en mælingarnar voru teknar upp og einnig fórum við í viðtal. Ég mikla það reyndar ekki fyrir mér að þetta hafi verið tekið upp enda lítið feimin við það og vonandi verður þetta til að hjálpa fleirum í minni stöðu við að koma sér í gang og gera þetta rétt.
Ég er sem sagt 91.5 kg og í 35% fitu. Ég verð samt að segja, þó að tölurnar séu ekki þær bestu, þá er vigtin að sýna mér nýja tölu sem að ég hef ekki séð í þónokkurn langan tíma. Ég hef verið frekar stöðnuð í vigt í rúmt ár og verið í kringum 93 kg en síðustu tvær vikur hafa hvatt mann til að taka aðeins til og ég tala ekki um að vera að bæta hreyfingu við. Þannig að ég er strax farin að vinna á markmiðinu mínu og litlir sigrar eru ekkert minni en stóru sigrarnir.
Við ræddum um matarræði en mitt matarræði hefur ekki verið upp á sitt besta. Ég á yfirleitt eitthvað fljótlegt til, þ.e.s.a. ef að ég borða yfir höfuð en ég á það alveg til að sleppa heilum máltíðum þar sem að ég finn mér ekki tíma... eða réttara sagt, gef mér ekki tíma. Kolvetni er minn helsti veikleiki, pasta, brauð, drykkjanlegt kolvetni.. þetta er eitthvað sem að ég veit upp á mig sökina síðustu árin. Ég hef aldrei verið mikill sælgætisgrís en góður matur er eitthvað sem að heillar mig meira. Gos er varla til í mínum orðaforða enda hætti ég að drekka kók og pepsi árið 2001 og hef ekki snert það síðan, þar af leiðandi er gos ekki vandamál. Ég get alveg keypt mér smá gos og látið það svo vera í marga mánuði. Ég drekk helst vatn og reyni að drekka nóg af því en mætti drekka meira.
Það sem að mér finnst mjög gott við þessa breytingu eru ekki bara tímarnir hjá Lilju hedur viðtölin við Mörtu en þar þarf maður að vera hreinskilinn, gagnvart þeim og sjálfum sér og þar liggja mörg vandmál, eins og að fela þær upplýsingar sem að maður lætur ofaní sig og það fær mann líka til að skoða allt betur.
Ég vil helst ekki þurfa að taka nein bætiefni, því að mitt markmið er að reyna að gera þetta á sem einfaldastan hátt. Að taka matarræðið í gegn og steypa sér í hreyfingu. Ég nefnilega þekki sjálfa mig og hef tekið átök eða breytingar áður, þar sem ég tók prótein og fleiri aðstoðar efni en svo um leið og átakinu lýkur, þá er það back to normality og það er greinilega ekki að virka fyrir mig. Fyrir utan það, þá finnst mér fæðurbótaefni oft mjög dýr og nú segja margir, já en þetta er gott og kemur í staðinn fyrir annan mat. Málið er að ég vil frekar mat en fæðurbótaefni og það er minn vegur.
Ég veit nefnilega um marga sem vilja ekki fæðurbótaefni eða hafa ekki efni á því. Fólk er með fjölskyldur og þó að þau séu að taka inn fæðurbótaefni, þá er ekki þar með sagt að allir í fjölskyldunni séu á því og þar af leiðandi er þetta orðinn aukakostnaður við innkaup.
Í dag er laugardagur og engin rækt skráð. Ég var að spá í að skella mér í spinning en hef ákveðið í staðinn að klæða mig í líkamsræktarfötin og taka góða hreingerningu hérna heima en það má ekki gleyma því að það getur verið ágætis hreyfing að ryksuga og skúra og gera það sem þarf. Bara að skella á góðri tónlist og dansa og syngja með.
Þá er þetta allt orðið opinbert og ég er klár í slaginn. Ég þigg allar upplýsingar um uppskriftir að þægilegu og hollu fæði og skemmtilegum hreyfingum sem að maður getur innleitt í lífið án þess að borga hönd og hálfan fót fyrir.
Let´s do this!