Mig langar aðeins að draga fram aðal áhyggjuefni flestra sem að vilja taka lífstílinn sinn í gegn og það er tímaleysi. Ég þekki það vandamál allt of vel og hefur það oft verið mín afsökun til að koma mér frá þessu en tíminn er ekki vandamálið, það er alltaf hægt að finna tíma en það þarf að vera tími sem að hentar þér vel svo að allt gangi upp.
Núna er ég að upplifa það að tímaleysi er að hrjá mig og það veldur mér vandræðum. Ég hef nefnt það áður að ég er í fullri vinnu og MBA námi og svo að vinna í að breyta lífsstílnum mínum en eftir fjórar vikur, þá sé ég að dagskráin mín, eins og hún er í dag, er alls ekki að henta og reyndar að bægja mér frá því að vilja halda þessu út. Mitt vandamál er það að þegar ég hef tekið mig á og farið í ræktina, þá hef ég alltaf farið á morgnana því að það hentar mér.. ekki það skemmtilegasta í heimi að vakna kl 5:30 en þá er ræktin frá og vinnudagurinn gengur sinn gang og svo get ég gert það sem að ég þarf að gera, hvort sem að það sé eitthvað verkefni eða bara fara heim og sjá um heimilið.
Tímarnir sem að við skvísurnar förum í eru allir kl 17:30, hentar mörgum vel en alls ekki mér. Ég er búin að vinna milli 16 og 17, svo er það umferðin.. já já, róleg.. er ekki að búa til fleiri afsakanir, heldur að útskýra. Ég er alltaf stressuð í eftirmiðdaginn útaf tíma.. að komast úr vinnu í ræktina og svo er það skólinn... það er ekki alltaf skóli á kvöldin en það eru mörg verkefni sem að þarf að vinna úr og þetta eru hópaverkefni og minn hópur ákvað að hittast strax eftir vinnu svo að við séum ekki alltaf langt fram á kvöld en eftir að ræktin bættist inn í, þá get ég aldrei mætt fyrr en um kl 19. Hópurinn minn hefur sýnt mér mikinn skiling og met ég það mikils en samviskubitið er farið að naga mig í allar áttir. Ég er stressuð í bílnum að reyna að komast á milli staða, ég er með samviskubit að mæta ekki á sama tíma og hópurinn minn, ég er með samviskubit að reyna að komast fyrr úr vinnu til að losna við umferð, ég er með samviskubit í ræktinni ef að ég þarf að beila útaf öðrum verkefnum. Þessi tími bara hentar mér alls ekki.
Þá er nú gott að vera með skilningsríkan þjálfara sem að sér þetta ekki sem vandamál heldur kemur með lausnir. Ég talaði sem sagt við Lilju og sagði henni hreint út sagt að ef að ég væri ekki í þessum lífsstíl opinberlega og bara á eigin vegum, þá væri ég eflaust hætt útaf þessum tímum, morgnarnir henta mér betur. Hún fann þá út það ráð að taka viku og viku í senn, þegar ég kemst, áhyggjulaus, í tíma kl 17:30 þá er það frábært og þá daga sem að ég kemst alls ekki vegna vinnu eða skóla, þá fer ég í morguntíma eða hitti hana á morgnana. Þetta gaf mér strax von um að þetta getur virkað en það þarf bara að henta.
Pointið mitt með þessu er að ef að þú ert í tímaleysi, þá þarftu að finna tíma sem að hentar þér og þínum lífsstíl. Tímarnir kl 17:30 henta bara ekki mínum lífstíl og ég vil ekki þurfa að vera með samviskubit yfir að gefa ekki 100% í það sem að ég hef tekið mér fyrir hendur og því held ég þessu til þrauta.. auðvitað en meira hannað fyrir mig og því sem að hentar mér. Það verður leiðinlegt að komast ekki í alla tíma með stelpunum enda frábært að æfa með þeim og frábær hópur en þetta er lífsstílsbreytingin mín og ég verð að hafa mig í fyrsta sæti og hugsa hvað hentar mér best.
Fyrir utan þessar pælingar þá gengur nokkuð vel, matarræðið er að lagast og það er mikill stuðningur í kringum mig. Var í skólanum um daginn og við vorum að vinna verkefni í tveimur hópum, annar hópurinn mætti með súkkulaði bita kökur sem var auðvitað frábærlega vel boðið en ég þáði ekki. Við tókum smá pásu og þegar við komum öll saman aftur, þá var búið að setja vínber inn í herbergið og var beðist afsökunar á tillitsleysinu gagnvart opinberu lífstíls bjórdrykkju stelpunni (broskall)
Freistingarnar eru auðvitað allstaðar og það er mín hugsun að betra er að leyfa sér smá frekar en að detta í það á einum degi, það virkar nefnilega aldrei. Í dag voru kökur í skólanum og einn nemandinn átti afmæli, kökurnar freistuðu mín lítið, litu vel út jú en freistingin var lítil og á meðan allir gúffuðu í sig kökur, þá japplaði ég á vínberjum og viti menn, ég var bara virkilega sátt við sjálfa mig og engin eftirsjá en ég var samt búin að ákveða það að ef að ég vildi virkilega köku, þá væri skynsamlegra að fá sér smá smakk frekar en að bíða svo eftir nammi deginum og gera þetta á öfgafullan hátt.
Við verðum jú öll að muna, að lífsstílsbreyting er langtímahlaup en ekki spretthlaup og það þarf að taka ákvarðanir á hverjum degi, stundum eru þær góðar og stundum slæmar en því færri sem þær slæmu verða, því nær verður maður sínu markmiði og þá er maður á betri leið í átt að góðu og heilsusamlegu lífi.