c

Pistlar:

31. október 2016 kl. 17:03

K Svava (ksvava.blog.is)

Ímynd

Það er alltaf gaman að fá hrós og hrósin hrannast inn núna, hvort sem að fólk sé í raun og veru að sjá einhvern mun eða bara af því að það veit að maður er að gera eitthvað í sínum málum.  Já, það er alltaf gaman að fá hrós en ég velti því stundum fyrir mér.. þegar einhver kemur til mín og segir að ég líti rosalega vel út núna, greinilega búin að vera að taka vel á því... leit ég þá svona illa út áður?  Lít ég betur út núna af því að ég er að missa nokkur kg eða hvað felst í þessu hrósi?  Sumir segja að ég líti út fyrir að vera hamingjusamari.. jú það má vel vera en ég er útkeyrð vegna vinnu og skóla, myndi halda að það fylgi því smá baugar og þreyta en ég virðist samt líta betur út núna en fyrir nokkrum kg síðan.

Ég er ekki að segja að fólk megi ekki deila því með mér að ég líti betur út, ég fór bara að velta fyrir mér ímyndinni sem fylgir svona breytingum.  Eftir að hafa hlustað á Anítu þá velti ég því fyrir mér hvort að með því að ganga í gegnum svona lífstílsbreytingu, er það af því að maður vill betri heilsu eða er það af því að maður er að falla inn í ímyndina sem að er samþykkt af þjóðfélaginu.  Vera ekki of feit, vera ekki of löt, vera ekki of hitt eða þetta?

Það fer algjörlega eftir því hver er að hrósa mér, hvernig ég lít á hrósið.  Ef að mínir nánustu vinir eða fjölskylda hrósa mér, þá tek ég því sem hóli enda vita þau mínar aðstæður og hvað ég er að leggja á mig.  Ókunnugt fólk, það sér efluast bara þybbna stelpu sem hefur ákveðið að taka loksins á sínum málum, er það hrós?

Ég hef rokkað í þyngd frá því að ég átti stelpuna mína fyrir 18 árum síðan, ég hef átt mína fitu tíma og verið í grennri kanntinum.  Ég hef sjaldnast látið aðra hafa áhrif á mig, mér er nokkuð sama hvað fólki finnst um mig, það mega allir hafa sína skoðun og það snertir mig lítið ef að einhver hefur einhverja skoðun um mig, þannig að ef einhver er að hrósa mér sem þybbnri stelpu að taka á sínum málum, þá er það bara gott og blessað.

Vinir mínir sem hafa þekkt mig í fjöldamörg ár, hafa ávallt sagt mér að ég sé flott eins og ég er, hvort sem að ég er á fitu skeiði eða grennra skeiði, þau líka þekkja mig og tengja minn vellíðan og mína breytingu við persónu mína.  Mér þykir vænt um að fá slík hrós og ég veit að þau munu hrósa mér hvort sem að ég haldi þetta út eða ekki.

Já, þessar vangaveltur mínar, sem að eru nánast útum allt, eiga að snúast um, af hverju skiptir ímynd svona miklu máli?  Og ég vil bara taka það fram að ég er í þessarri breytingu til að læra, bæði á sjálfa mig og hvað lætur mér líða betur og vera heilbrigðari.  Ég er ekki endilega að þessu til að missa hellings kg og enda í stærð 0.

Ég tek öllum þeim hrósum sem að berast, þær eru hvatning en endilega hafið það í huga, næst þegar þið eruð að hrósa einhverjum, á hverju byggist hrósið og er það einlægt?  Það þurfa ekki allir að vera í sama kassanum og við eigum að fagna fjölbreytileikanum.

Þannig að verum dugleg að hrósa óháð okkar hugsunum og skoðanir og munið að fólk lítur ekki betur út af því að það er að detta inn í samþykktar ímyndir, það geta verið svo margar ástæður að baki.

Ef að ég meika engan sense, þá afsaka ég mig með 72 stunda vinnu í síðustu viku, lærdómi og  bjórleysi.

Gleðilegan halló vín dag.

K Svava

K Svava

Létt geggjuð háskólamær í fullri vinnu sem ætlar að taka nýjan lífstíl í nefið! Meira