c

Pistlar:

21. nóvember 2016 kl. 23:21

K Svava (ksvava.blog.is)

Nýjar freistingar mæta á svæðið

Þá styttist í jólin, það er nú tími til að borða góðan mat, drekka jólaöl, smákökur, konfekt og ýmislegt góðgæti.  Ég kæmist eflaust í gegnum jólin án þess að borða smákökur og konfekt en góður matur og jólaöl, það er minn veikleiki yfir jólin eins og bjórinn yfir sumarið.  Sérstaklega jólaölið, hvernig er hægt að komast í gegnum mánuðinn án þess að sturta nokkrum lítrum af þessuM dásamlega drykk?  Ég þarf bara að innleiða allt sem að ég er búin að læra af minni lífstílsbreytingu með Smartlandi og Lilju, róa mig aðeins í græðginni og læra að drekka þetta í sopa tali en ekki að þamba eina dós í tveimur sopum.. þetta er bara of gott til að sleppa.  Enda lofaði ég sjálfri mér að hætta ekki neinu, heldur að læra að lifa með hlutunum og nú þarf maður að breyta hugarfarinu og muna að þó að jólin séu að koma að það þarf ekki að eyðileggja allt með því að leyfa sér of mikið yfir hátíðarnar, heldur frekar að trappa sig niður og njóta þegar maður leyfir sér.  Ég viðurkenni nú samt alveg að það hafa þónokkrar dósir verið drukknar af jólaöli en ég er samt að reyna að halda aðeins aftur af mér og hugsa þetta frekar sem einstakar upplifanir frekar en eitthvað sem að ég hef aðgang að yfir alla jólahátíðina.  Svo er það auðvitað líka jólabjórinn en það eru bara til 40 tegundir í ríkinu og mig langar auðvitað að prófa þá alla, þó að ég láti það eftir að prófa nokkra, þá kannski legg ég ekki í þá alla núna.

Annars styttist í annan enda á þessarri lífstílsbreytingu, þó langt frá því að vera hætt, nú er bara komið að því að gera þetta á eigin spýtur og ég væri ekki komin þetta langt ef að ég fengi ekki gígantískan stuðning frá öllum í kringum mig.  Ég veit í raun ekki hvar ég væri stödd í dag ef að þessi lífstílsbreyting hefði ekki komið til, það skipti mig rosalega miklu máli að læra að gera breytingar og setja þær inn í minn upptekna lífsstíl.  Ég er að gera mitt besta en gæti það ekki án aðstoðar, sérstaklega frá lífsstílsstelpunum, Mörtu og Lilju, þær eru auðvitað klappstýrur nr 1 hjá mér og eru að ganga í gegnum þetta á sama tíma en ég. Á þónokkrum öðrum mikið að þakka og langar að nefna nokkra hérna.  Skólahópurinn minn, Team Steam, þau hafa gefið svo mikið eftir þegar að ég þarf að breyta og færa skóla hittinga fyrir lærdóm, það er ekkert lítið sem að þau hafa látið bjóða sér svo að ég gæti tekið þátt í þessu.  Fjöllin mín, klettarnir mínir fjórir, Sigga, Agnes, Stella og Anna Soffía, ef að ég gæti ekki hringt og vælt og pústað, þá væri ég eflaust löngu sprungin og þakka ég þeim vel fyrir stuðninginn.  Fjölskyldan og aðrir vinir hafa fylgt mér eftir í þessu og sent mér baráttukveðjur og bjór stuðninga, ég met það svo innilega.  Ég á gott fólk í kringum mig og þau hafa hjálpað mér að komast af stað og með þeim get ég haldið þessu til þrauta.

Annars er bara að reyna að keyra þetta áfram næstu vikur, er á tólf tíma vöktum, sex daga þessa vikuna, einn frídagur sem að fer í skólanám og heimilisþrif.  Næsta vika verður keyrð í lærdóm og ræktina með viðkomu í vinnunni.  Síðasta skólahelgin þar næstu helgi, þannig að það sér aðeins fyrir endann á þessu brjálæði hjá mér.  Smá jólafrí þó að ég sé að vinna öll jólin en ég næ að njóta frídaganna inn á milli og fagna um áramótin.

Það eru farin 5 kg, 22 cm og 4% í fitu, ég get ekki verið óánægð með það þó að ég hefði viljað geta betur og veit að ég hefði getað gert töluvert betur ef tíminn hefði gefist, ég tek því sem að ég fæ og verð að læra að vera ánægð með litlu sigrana því að þeir leiða til betri árangurs.

Nú skal bara haldið áfram og svo... jú haldið áfram.

K Svava

K Svava

Létt geggjuð háskólamær í fullri vinnu sem ætlar að taka nýjan lífstíl í nefið! Meira