Ein fyrsta minning mín af læknisheimsókn nær aftur til upphaf táningsáranna. Móðir mín hafði áhyggjur af því hve föl og veikluleg ég væri. Læknirinn stakk upp á að senda mig í ljósabekk – enda var skaðsemi þeirra ekki þekkt á þeim tíma og ekkert verið að skoða hvort litlaus húðin gæti helgast af miklum tíðarblæðingum. Ljósabekkjaferðirnar urðu að vana og þau sem komin eru á minn aldur þekkja fórnarkostnaðinn. Því við söfnum sólskemmdum, líkt og við söfnum frímerkjum eða fötum.
Áhugavert er að á meðan við á norðurhjara veraldar sækjumst eftir að gera húð okkar brúnni, stækkar markaðurinn fyrir hvíttunarkrem í Asíu þar sem finna má hátt í fimm milljarða jarðarbúa. Þar er hvítur húðlitur enn tengdur velmegun og hærri samfélagsstöðu, þar sem verkamenn vinna utandyra á meðan þeir ríkari dvelja mest megnis innandyra. Sérfræðingar kenna einnig þrælahaldi og öðru um aðdáun á hvíta húðlitnum.
Við leggjum þó mis mikið á okkur til að breyta húðlitnum. Um daginn þegar ég var að skruna á Instagram hnaut ég um auglýsingu þar sem íslensk kona lofaði hástert skjótfengna brúnku sína sem hélst allt árið um kring. Með fylgdi sjálfa af konunni þar sem brúni liturinn var fangaður gegnum ljóssíu. Þú gast sent henni persónleg skilaboð til að kaupa brúnku-nefúða á tíu þúsund krónur, en tekið var fram einn til tveir ljósatímar virkjuðu brúnkuferlið.
Húðnördinn í mér sat ekki á sér og hóf strax að kanna hvort augun væru að nema það sem hann grunaði. Í gegnum tíðina hefur þetta efni poppað reglulega upp í okkar vestræna heimi hvar eftirspurn eftir skótfenginni brúnku er hve mest. Athygli vekur að þessar vörur eru yfirleitt lofaðar og seldar af einstaklingum á samfélagsmiðlum, en einnig á líkamsræktarstöðvum og heilsulindum. Það er nefnilega rík ástæða fyrir því að þessi svokölluðu barbí-brúnkulyf fást ekki á hinum almenna markaði.
Áður en lengra skal haldið er vert að spyrja sig hvernig úði í nef töfrar fram brúnan húðlit?
Melanotan II heitir virka efnið í barbí-brúnkulyfinu. Einnig er til Melanotan I sem er lyf til að meðhöndla sjaldgæfan arfgengan sjúkdóm og er einungis gefið undir læknishöndum. Melanotan II er framleitt í efnaverksmiðju og líkir eftir virkni melanocortin hormóna, en það eru náttúruleg hormón sem taka þátt í ýmissi líkamsstarfsemi, m.a. er varða orkubúskap, ónæmiskerfi, kyngetu og starfsemi hjarta- og æðakerfis. Eitt af þessum hormónum sem Melanotan II líkir eftir er sortfrumuörvandi hormón (alpha-melanocyte-stimulating hormón, α-MSH) sem er ábyrgt fyrir framleiðslu melaníns, sem gerir húðina brúna. Hormón þetta dugar þó ekki eitt og sér, heldur þurfa útfjólubláir geislar að skína á húðina til að kveikja á brúnkuferlinu. Því er oft mælt með að fólk skelli sér líka í sólbað eða ljósabekk, sem eykur verulega hættuna á húðkrabbameini. Í eyrum sumra kann Melanotan II að hljóma sem saklaust þar sem það líkir eftir okkar eigin hormóni, en það er ástæða fyrir því að það er ólöglegt í öllum 50 fylkjum Bandaríkjanna, Norðurlöndunum, Bretlandi, Ástralíu og Nýja-Sjálandi, svo dæmi séu nefnd. Vegna víðtækra áhrifa var Melanotan II rannsakað sem mögulegt lyf við getuleysi kvenna og risvandamálum karla, en klínískri þróun hætt árið 2003. Óprófuð og ólöggild barbí-brúnkulyf koma þó reglulega í sölu á internetinu og ósjaldan með sviksamlegum hætti.
Hliðarverkana er sjaldnast getið. Ójafn húðlitur og aukin blettamyndun er nokkuð algengt. Þá geta aukaverkanir falið í sér bólumyndun, sýkingar, óeðlilegan kinnroða, ógleði, uppköst, lystarleysi, kviðverki og langvarandi sársaukafulla standpínu hjá körlum. Lífshættulegum einkennum hefur verið lýst, svo sem brjóstverkur, andnauð, rákvöðvaleysing, nýrnabilun og heilakvilli með sjóntruflunum, krampa, höfuðverk og breyttri vitsmunagetu. Þá hefur tilfellum sortuæxla verið getið, sem hafa myndast tiltölulega fljótt eftir fyrstu notkun. Engar rannsóknir eru til um áhrif efnisins til lengri tíma.
Þar sem eftirlit er ekkert, þá er ómögulegt að vita hvað leynist í þeim. Stikk-prufur hafa þó sýnt að barbí-brúnkulyf geta verið menguð af öðrum skaðlegum efnum, sem berast í blóðrásina ásamt melanotan II.
Vegna alvarlegra aukaverkana berst Ástralía hart gegn notkunar þessara efna með því að beita háum sektum á alla sem selja eða kynna vöruna á samfélagsmiðlum. Meðal annars hefur lyfjaeftirlit (TGA) þar í landi fengið TikTok og aðra samfélagsmiðla í samstarf við sig til að banna hashtags tengt lyfinu og fjarlægja myndbönd sem lýsa notkun þess. Þá eiga einstaklingar í hættu á að vera sektaðir um 80 milljónir króna og fyrirtæki 400 milljónir, verði þau uppvís að selja eða kynna vöruna.
Fyrir þau sem sækjast eftir brúnum húðlit eru sérfræðingar sammála um að brúnkukrem séu hættuminnsta leiðin, þar sem þau verka einungis á ysta lag húðarinnar og eru að litlu leyti tekin upp í blóðrásina. Auk þess má styðja við fallegan og heilbrigðan húðlit með ákveðinni næringu. Þótt ekki þykir sannað er fræðilega séð hægt að stuðla að melanín framleiðslu með náttúrulegum hætti. Sumar rannsóknir sýna að andoxunarefni styðji við melanín framleiðslu, og þar á meðal vítamín A, C og E. Dökkgrænt grænmeti, litríkir ávextir, ber, baunir, korn, fræ og hnetur eru rík af þessum næringarefnum, nema vítamín A færðu t.d. með lifur og lýsi. Þótt næringarríkt fæði sé nauðsynlegt fyrir heilbrigði húðar dugar það ekki eitt og sér til að verja hana fyrir útfjólublárri geilsun. Til að komast hjá því að safna sólskemmdum þarf að tileinka sér sólarhóf. Barbí brúnkan getur verið freistandi fyrir suma, en líklega ekki þess virði að tapa heilsunni. Þá mættum við upphefja meira hvítan húðlit sem er mörgum okkar svo náttúrulegur.
Heimildir:
https://www.tga.gov.au/news/news/beware-barbie-drug-dangers-using-melanotan
https://dermnetnz.org/topics/melanotan-ii
https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/23121206/
https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/31953620/
https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/24355990/
https://academic.oup.com/bjd/article-abstract/164/6/1403/6644309?redirectedFrom=fulltext&login=false
https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/22724573/
https://onlinelibrary.wiley.com/doi/abs/10.1002/mnfr.201500822
https://onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1155/2014/860479
https://pubs.rsc.org/en/content/articlelanding/2014/fo/c4fo00280f/unauth#!divAbstract