Ég eins og flestir upplifi sorgartímabil í mínu lífi. En það er misjafnt hver sorgarefni mín eða okkar allra eru, listinn er langur og missir maka, barns, foreldra, vina eða lífs sem við áttum, vinnu sem við misstum eða hlutverka sem við höfðum í lífinu og svo fr.
Á þessum tímabilum lífs okkar finnum við fyrir tilfinningum sem við oft á tíðum skiljum varla til fulls og finnst óraunverulegar.
það er svo merkilegt að um daginn upplifði ég ekki ósvipaðar tilfinningar þegar barnabörnin mín fæddust og þær tilfinningar sem fylgja þegar ég hef misst ættingja eða vini. Undarlegt - eða kannski fann ég bara þessa skrítnu tilfinningu sem fylgir því að horfa á náttúruna í öllu sínu veldi og vita að bæði lífið og dauðinn lýtur lögmálum hennar.
Eins og ég sagði hér að framan þá hef ég misst með margskonar hætti á minni lífsleið, foreldri, ömmur og afa, áhrifavalda, vini, líf sem ég hélt að ég ætti öruggt og fleira og fleira, en sorgarferlið í öllum þessum aðstæðum er líklega ekkert svo ósvipað þegar allt kemur til alls.
Við misreiknum okkur stundum og höldum að það sé hægt að flokka sorgina niður í mismunandi erfiða sorgarflokka og svo ég nefni eitthvert dæmi til að útskýra mál mitt þá er oft talið erfiðara að missa maka en að ganga í gegnum hjónaskilnað en því fer fjarri skilst mér á þeim sem gengið hafa í gegnum hvoru tveggja.
Annað ferlið er viðurkennt sorgarferli og stuðningur er veittur á ýmsan hátt en hitt er einungis viðurkennt sem millibilsástand á milli þess að finna annan maka og við ættum bara að hafa það gaman á meðan við erum að finna annan aðila.
Við íslendingar eigum nokkur ágætis orðatiltæki sem lýsa þessu viðhorfi vel eða máltæki á við "alltaf má fá annað skip og annað föruneyti" og "það er nóg af fiskum í sjónum" eru alþekkt, en þetta fáum við hin einhleypu oft að heyra og engum dettur í hug að það fylgi slitum á samböndum/hjónaböndum sorgarferli sem tekur sinn tíma að vinna úr og líf sem þarf að byggja upp að nýju.
Með þessum skrifum mínum ætla ég ekki að gera lítið úr makamissi eða segja að allir sem slíta samböndum séu á sama stað í sorg sinni og sá sem missir, en stundum er það þannig og breytingin á lífinu oft með svipuðum hætti.
En það er svo skrítið með sorgarferlið hvar sem ég ber niður hvað mig varðar a.m.k. þegar dauðann ber að garði að það eru yfirleitt þær kærleiksríku stundir sem uppúr standa þegar á allt er litið og þá er eins og hann mái út alla misklíð og særindi og eftir standa góðu og gefandi stundirnar sem ég átti með viðkomandi.
Þetta segir mér í raun að kærleikurinn sigri alltaf að lokum og að hann sé kannski það eina sem skiptir máli þegar öllu er á botninn hvolft. Það segir mér einnig að hann sé aflið sem sigrar heiminn en ekki hatrið eins og segir í Eurovision texta íslenska framlagsins í ár.
Mikið vildi ég að mér hefði auðnast að sýna kærleika minn í meiri mæli og efla þær stundir sem ég hefði getað átt með þeim sem skiptu mig máli þegar ég hafði tíma til þess, þennan dýrmæta tíma sem við vanmetum svo oft og höldum að við eigum óþrjótandi byrgðir af en reynast svo eftir allt vera afar fátæklegar mínútur í tímans hafi.
Hversu auðveldari væri aðskilnaður líklega af öllu tagi ef við værum viss um að við hefðum alltaf gert okkar besta til að sýna og gefa af okkur allt það sem best væri að finna innst í brjósti okkar og að okkur hefði verið svarað á sama hátt?
Af minni reynslu segi ég hiklaust að það hefur breytt öllu fyrir mig í aðskilnaði og missi að vita að ég gerði mitt til að reynast vel og að gefa það sem ég átti í hjarta mér.
En sorgin þessi eilífðar dans lífsins við gleðina heldur áfram og mun halda áfram að gefa okkur verkefnin og þá skiptir öllu að viðurkenna staðreynd dansins fyrir það fyrsta, njóta síðan gleðinnar þegar hún gefst. Takast síðan á við sorgina og vinna úr henni á eins fallegan og gefandi hátt og við erum fær um hverju sinni.
En þau ráð sem hafa gagnast mér best þegar gleðin hverfur á bak við skýin og sorgin bankar uppá eru eftirfarandi:
1 - Viðurkenndu staðreyndina og leyfðu þér að finna til allra tilfinninga,(það má), og tárin bera með sér lækningahormón sem linar og líknar.
2 - Leyfðu þér að finna allar litlu gleðistundirnar í lífinu þrátt fyrir sorgina og mundu að hláturinn og það að njóta er einnig læknandi afl.
3 - Styrktu böndin við þá sem þér þykir vænt um og þá sem lyfta þér upp.
4 - Ræddu um sorg þína við þá sem þú treystir fyrir tilfinningum þínum.
5 - Haltu í vonina um að einnig þetta samverki þér til góðs að lokum.
6 - Skapaðu ögrandi uppbyggjandi aðstæður inn í líf þitt,aðstæður sem þér hefði aldrei dottið í hug að þú gætir afrekað að framkvæma.
7 - Leitaðu að tengingu þinni við Guð eða þinn æðri mátt og lifðu innan frá og út, því að það má ekki gleyma andlegu hliðinni því að þar er kjarni okkar.
8 - Láttu aðra njóta góðs af lærdómnum sem reynslan gaf þér og styrktu þann sem þarfnast þín í glímunni við lífsins verkefni.
9 - Haltu áfram og stattu upp í hvert sinn sem þér finnst þú ekki getað staðið upp og lifðu einn dag í einu þar til þú lifnar á ný.
10- Mundu svo að þakka fyrir reynsluna, minningarnar og gleðina sem þú ert að gráta eða eins og segir í spámanninum eftir Kalihl Gibran -
"Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá huga þinn og þú munt sjá, að þú grætur vegna þess, sem var gleði þín"
Þar til næst elskurnar munið að kærleikurinn og samstaðan er aflið sem sigrar allt,
xoxo
ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Markþjálfi/Samskiptaþjálfi/TRM áfallafræði
linda@manngildi.is