c

Pistlar:

30. nóvember 2018 kl. 10:44

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Ég á engin orð!

Ég hef oft velt því fyrir mér á síðasta áratug hvers vegna karlmenn virðast margir hverjir vera haldnir ótrúlega andstyggilegri kvenfyrirlitningu og hatri.

Það er með ólíkindum hvernig menn, giftir jafnt sem ógiftir voga sér að skrifa, tala eða koma fram við konur eins og þær séu kynlífstæki til notkunar og án tilfinninga og siðferðis eða eins og nýjustu dæmin sýna af okkar háttvirta alþingi þessa dagana. Og ég bara spyr, hvernig hægt er að tala svona um konur sem þeir starfa við hliðina á og er þetta siðferðið sem þeir vilja boða þjóðinni? 

En því miður þrátt fyrir hneykslunarraddir samfélagsins núna vegna þingmannanna þá er það þó þannig að ég persónulega get sagt fyrir mig að þetta er ekki nýtt fyrirbæri hvað varðar marga íslenska karlmenn í mínum augum. 

Bara á síðastliðnum mánuðum er ég búin að fá bréf með grófu kynferðisáreiti frá vel virtum karlmanni á höfuðborgarsvæðinu (giftum by the way) annar ógiftur maður gaf mér tilboð um að koma í heimsókn þar sem nýbúið væri að skipta á rúmum (hef aldrei hitt eða spjallað við þann mann í síma) og svo þriðja atvikið þar sem boðið var ítrekað mjög smart uppá örhittinga heima hjá mér! Allt saman virtir og þjóðfélagslega flottir menn sem ég hefði ekki trúað að gætu komið svona fram við bláókunna manneskju.

Og þetta er ekkert nýtt fyrirbrigði, ég og mínar einhleypu vinkonur eru orðnar svo vanar svona áreiti að það er eiginlega orðið subbulegt hvað við erum orðnar dauðar fyrir þessari kvenfyrirlitningu og ljótu framkomu, svo dauðar að við tökum varla eftir henni. 

Að nota orð um konur eins og háttvirtir þingmenn gerðu gagnvart kvenþingmanni er óásættanlegt að öllu leiti sama hvort menn voru undir áhrifum áfengis eða ekki. Ég hef reyndar aldrei séð að það sé hægt að afsaka ljóta framkomu eða hegðun með því að þefa af brennivínstappa en íslendingar eru yfirleitt mjög fljótir að afsaka og fyrirgefa hlutina ef alkahól eða önnur hugbreytandi efni hafa komið við sögu.  

Ég á nokkra erlenda karlmannsvini sem ég spjalla stundum við og velti því fyrir mér hvers vegna þeir sýni mér kurteisi og fallega framkomu á meðan landar mínir virðast vera búnir að gleyma öllu því sem áður prýddi menn, og ég velti því fyrir mér hvort uppeldi þeirra sé að einhverju leiti annað hér en erlendis. 

Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að það er töluverð alhæfing um íslenska karlmenn í mínum skrifum núna og ég verð líklega kölluð karlahatari í kjölfarið en auðvitað veit ég að það eru til góðir og kurteisir menn hér heima, ég þekki meira að segja nokkra -en það ber bara meira á þessum ösnum sem voga sér að niðurlægja  og hlutgera konur með þessum hætti alveg eins og hefur verið með vandræðaunglingana okkar í gegnum tíðina, þeir góðu gjalda fyrir þá óþekku og uppreisnagjörnu. 

En ég bara spyr mig hvar fórum við svona herfilega út af sporinu hvað varðar virðingu karlmanna fyrir konum? Hvenær hættu karlmenn að líta á konur sem dýrmætar og virðingaverðar þeir eiga jú allir mömmu sem gaf þeim líf? og hvað er þetta með kvenhatrið sem býr í framkomu karla þegar um andlegt og líkamlegt ofbeldi er að ræða, hvaðan kemur það? Hvenær ætlum við að finna gömlu göturnar aftur þar sem karlmenn umgengust konur með ákveðinni virðingu og vernd? 

Ég veit um ófá dæmi þess að karlmenn brjóta konur sínar niður með framkomu, ljótum eða meiðandi orðum, ástleysi, framhjáhöldum, klámfíkn, nándarleysi, stjórnun, drottnun, barsmíðum og listinn heldur bara áfram, en allt er þetta þó byggt á því sama, eða kvenhatri og kvenfyrirlitningu.

Jæja ég bara varð að fá að blása svolítið núna og bið þá góðu menn sem ekkert eiga af þessu afsökunar á alhæfingum mínum og konunum í lífum þeirra óska ég innilega til hamingju með þá, og jú ég hef kynnst nokkrum mönnum sem falla alls ekki undir þennan hatt minn og eiga vináttu mína og virðingu, en því miður eru þeir allt of margir sem nota orð um konur eins og húrrandi klikkuð kunta, hún er fokking tryllt, getur ekki neitt og kann ekki neitt - við þekkjum það flestar að hafa orðið fyrir einhverjum svipuðum ummælum og kynferðislegum tilburðum og í raun er þetta bara samfélagslega samþykkt framkoma gagnvart konum og það finnst mér skelfilegt þar sem ég á nú unglings ömmustelpur sem nú þegar hafa orðið fyrir barðinu á óskemmtilegum tilburðum eldri karlmanna.

Ætla að enda þennan blástur pistil minn á því að fara fram á það að þeir sem við borgum laun fyrir að vera til fyrirmyndar á okkar háa Alþingi valdi stöðu sinni, og nú ef þeir treysta sér ekki til þess þá vil ég biðja þá vinsamlega að víkja frá öllum opinberum störfum sem krefjast virðingar og fallegrar framkomu við alla menn - og konur.

xoxo

Ykkar Linda

Og ég er eins og venjulega bara einni tímapöntun í burtu frá þér ef þú þarft á aðstoð minni að halda við lífsins verkefni.

Linda Baldvinsdóttir

TRM áfallafræði, LET samskiptafræði, Markþjálfun

linda@manngildi.is

   

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira