c

Pistlar:

18. nóvember 2019 kl. 16:29

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Hefurðu heyrt um froskinn sem breyttist í prins?

Ég sá mynd sem Hugleikur Dagsson hafði teiknað af konu sem stóð yfir manni sem lá í götunni útúrdrukkinn með sprautunálar og flöskur allt í kring um sig, og yfir honum stóð kona í hvítum kirtli sem sagði, "Ég get bjargað honum"

Því miður er það þannig að bæði konur og menn eru oft að eiga við manneskjur sem vonlaust er að muni breytast og láti af sinni eyðileggjandi framkomu en einhverra hluta vegna erum við sum að gefa þeim séns eftir séns á því að breyta sér, líklega er þetta eitthvað skylt Stokkhólmsheilkenninu fræga þar sem við virðumst geta endalaust afsakað skaðandi framkomu og fundið það góða við manneskjur sem sýna af sér mannvonsku, lygar, ofbeldi og svo margt annað sem almennilegt fólk einfaldlega gerir bara ekki.

Í stað þess að standa vörð um okkur sjálf erum við að standa vörð um fullorðna einstaklinga sem svo sannarlega velja í flestum tilfellum að vera eins og þeir eru (nema þar sem alvarlegir geðbrestir valda þessu), því að það er nú svo merkilegt að við sem fullorðnir einstaklingar veljum framkomu okkar og framkvæmdir.

Við afsökum okkur þó með ýmsum hætti eins og með uppeldisaðstæðum til að fegra okkar framkomu en þó er það nú samt einu sinni þannig að við erum að velja öllum stundum - frá morgni til kvölds erum við að velja hugsanir okkar, framkomu og framkvæmdir og höfum í raun enga afsökun nema þá að við séum haldin einhverjum sjúkdómum eins og ég áður sagði sem ræna okkur valfrelsinu.

En nú ætla ég að tala aðeins um okkur konur (en líklega á þetta ekki síður við um menn).

Við konur virðumst ekkert hafa vitkast í gegnum aldirnar og engin furða að til séu ævintýri sem tala um froska sem breytast í prinsa, því að það er það sem við höldum oft að gerist, eða það að froskurinn sem kemur illa fram og sinnir okkur ekki geti breyst við það eitt að koma með fyrirgefningabeiðni númer? hmmm

Ekkert er þó fjarri lagi ef ég tala um fullorðna menn sem hafa haft nokkuð marga áratugi til að lagfæra sig og læra að koma vel fram, og það eru bara alls ekki miklar líkur á því að menn skipti um ham á fullorðinsárunum ef svo má segja. Þeir geta agað sig og breytt venjum, en þú breytir persónuleikanum sjálfum ekki svo glatt né gildunum sem liggja að baki honum.

Wayne Dyer orðar þetta svo skemmtilega þegar hann sagði "þegar þú kreistir appelsínu þá er appelsínusafinn það eina sem kemur frá henni og það er bara ekki nokkur leið að fá neitt annað vegna þess að það er sá safi sem býr innra með henni".

Eins er það með okkur mannfólkið þegar á okkur reynir eða þegar við stöndum frammi fyrir verkefnum lífsins (erum kreist) þá kemur í ljós hvað býr innra með okkur og því miður í flestum þeim tilfellum þar sem við konur erum að gefa froskunum sénsa á því að laga sig erum við búnar að sjá þeirra innri safa oft og mörgum sinnum - en trúum enn að við getum fengið eitthvað annað frá þeim. 

Eins og ég sagði áðan þá minnir þetta helst á Stokkhólmsheilkennið fræga eða þar sem fórnarlambið fer að finna afsakanir fyrir gerandann (Eftir mannrán) og jafnvel bregst illa við þeim sem vilja þeim vel og segja sannleikann um hversu illa sé verið að koma fram við viðkomandi.

En kannski er þetta svona bullandi meðvirkni eða þjóðfélagslegt uppeldi kvenna, hver veit. Það eina sem ég veit er að fólk er eins og það er og við getum ekki breytt einum eða neinum nema okkur sjálfum í ÖLLUM tilfellum svo hættum í Guðsbænum að reyna það því það tekur frá okkur orku, styrk, sjálfsvirði, sjálfstraust og styttir líf okkar og lífsgæði.

Froskarnir breytast einfaldlega sjaldan í prinsa - við getum gleymt því! Það er aðeins í ævintýrunum sem það gerist, og mér þykir leitt að segja ykkur það - en prinsar í froskalíki,Súpermannslíki eða hvað það nú heitir allt saman eru bara til í ævintýrunum en ekki hinum raunverulega heimi og þeir munu bara verða eins og þeir voru skapaðir líkt og við hin - svo gleymdu því að þinn froskur eigi eftir að breytast í prinsinn á hvíta hestinum, það mun líklega bara alls ekki gerast! (Og svo eru ekki til hvítir hestar, bara gráir) Eini sénsinn á breytingu er sá að froskurinn sé búinn að koma auga á sína bresti fyrir alvöru, taki fullkomlega ábyrgð á þeim, fái sér síðan aðstoð við að lagfæra þá og það tekur sko langan tíma og æfingu!

Heilinn okkar er orðinn fullmótaður að mestu og við búin að aðskilja okkur frá uppeldisaðilum svona flest í kringum 25 ára aldurinn, og þá erum við einnig búin að velja okkur lífsveg okkar á svo margan hátt. Einnig erum við búin að byggja upp heimsmynd okkar á svo stóran hátt, mynd sem við framkvæmum svo útfrá (gildi og markmið). Vanlíðan okkar í lífinu er svo líklega að flestu leiti sprottin út frá brotum á þeirri heimsmynd því að við viljum halda í hana óbrotna með öllum þeim ráðum sem við kunnum. Þess vegna er svo erfitt fyrir einhvern að koma og segja okkur að okkar mynd sé kannski bjöguð og skökk þegar við reynum af fremsta megni að láta sem hún sé heil og flekklaus.

En hvað sem öllum heimsmyndum viðvíkur þá skulum við hafa í huga að eina heimsmyndin og eina hegðunarmynstrið sem við getum lagað og breytt er okkar eigið í öllum tilfellum.

Svo förum inn í samböndin okkar með þá fullvissu að það er aðeins í ævintýrunum sem froskarnir breytast í prinsa við koss frá okkur, og veljum bara vel þá sem við tökum með inn í líf okkar og heimsmynd.

þar til næst elskurnar.

xoxo Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

einstaklings og parasamtöl

Markþjálfi, samskiptaráðgjafi, TRM áfallafræði 1 og 2.

linda@manngildi.is

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira