c

Pistlar:

7. janúar 2019 kl. 16:14

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Gerum þetta að ári kærleikans

Jæja elskurnar nú erum við komin af stað inn í nýtt ár sem vonandi verður okkur öllum til heilla og hamingju hvar sem við búum og hvað sem við erum að fást við.

Svona tímamót eru okkur svo nauðsynleg vegna tækifæranna sem við fáum á því að skapa eitthvað nýtt og betra, taka til í okkar ranni og halda á beinu brautina í þeim skilningi orðsins sem hentar okkur.

Að ákveða hvað það er sem við ætlum að taka með okkur inn í nýtt ár og hvað það er sem við ætlum að skilja eftir í því gamla er einnig svo nauðsynlegt til að við getum nýtt þetta nýja tækifæri til fulls og sköpunargáfu okkar til hins ýtrasta.

Því miður er það allt of oft sem við söfnum í pokann okkar allskonar miserfiðum tilfinningum og atburðum á hverju ári og einhvernvegin er það þannig að okkur finnst við þurfa að taka sumt af því með okkur inn í nýtt ár. Ég segi hinsvegar og meina það að það er betra að staldra aðeins við og skoða hvað af þessu sem við losum okkur ekki við um áramótin er að þjóna okkar lífi. Hvað er það í pokanum okkar sem veitir okkur gleði,hamingju, velsæld og virðingu, tökum það með okkurinn í nýja árið, en tökum úr honum það sem veldur okkur vanlíðan, særindum, móðgun og öðrum vondum tilfinningum.

Ef ekki er hægt að taka þær vondu með góðu móti úr pokanum og gleyma þeim þá er kannski ráð að fá fagaðila til að vinna úr þeim með þér því að það er bara lítið smart að burðast með þennan dökka poka ár eftir ár á bakinu og fátt sem er eins þreytandi.

Nú og ef þú spyrðir mig hvað það væri sem ég teldi að heimurinn þarfnaðist mest að fá frá okkur inn í framtíðina og árið nýja þá væri svar mitt einfalt.

Svar mitt væri að ef við gætum dreift í kringum okkur velvild og kærleika, vinsemd, samkennd og öðrum mannlegum kærleikstilfinningum sem ég veit að við eigum nóg af í hjarta okkar, þá yrði lífið og heimurinn allur öðruvísi en hann er í dag. Og ef við hugsuðum aðeins meira um að aðstoða hvert annað í lífsins ólgusjó þá liði okkur betur í eigin skinni og það gæfi okkur líklega meira en margt annað sem við sækjumst svo gjarnan eftir.

Ég er einnig sammála söngkonunni GAGA um að Óvinur heimsins sé sundrungin og hatrið sem myndast vegna þess að allir litlu hóparnir (Þjóðfélög og þjóðarbrot) halda að þeir séu með stóra sannleikann og réttu menninguna, rétta húðlitinn, réttu starfstitlana og réttu umgjörðina í lífinu, en sem í raunveruleikanum er einungis mismunandi sjónarhorn okkar á heiminn.

Og þegar við kynnumst hinum hópunum sem við áttum að hata eða setja niður þá breytist gjarnan þetta sjónarhorn sem betur fer og við upplifum flest að við erum eins í grunninn og leitum að því sama hvar í veröldinni sem við búum, en það sem við leitum helst að er kærleikur, eining við aðra menn og hamingja í hjarta okkar vegna starfa okkar og framlags til lífsins og samferðamanna okkar.

Ég hvet okkur öll til þess á nýja árinu að horfa á okkur jarðarbúa sem eina heild, láta af óvild og hatri, sækjast í að aðstoða náungann við að eiga fallegt og gjöfult líf til anda sálar og líkama. Að það verði líf sem veitir manninum reisn, virðingu og samþykki á jafningjagrunni, og eins og einhver sagði: ef þú treystir þér ekki til þess að veita vinsemd og kærleika ákveddu þá að meiða náunga þinn að minnsta kosti ekki.

Ég hef þá trú að ef við gætum einungis breytt stefnu okkar aðeins meira í átt að því að sjá það góða í mönnum og samfélögum þeirra þá yrði viðsnúningur hjá okkur og við gætum jafnvel fundið fyrir þakklæti fyrir þessa mismunandi sýn mannkynsins á þessa veröld okkar og allt sem henni tilheyrir.

Og svo tala ég nú ekki um ef við gætum látið af fordómum okkar, leitað inn á við og fundið þar sátt við allt sem er,  þá yrði lífið líklega dásemdardalur fyrir okkur sem heild trúi ég.

Svo gerum þetta ár að ári gleði, þakklætis, fyrirgefningar, kærleika og velvildar elskurnar og sjáum svo hverju það gæti skilað okkur til framtíðarinnar – því að hvert sáðkorn sem sáð er núna mun skila sér í einhverju formi fyrr eða síðar og þau góðu bæta heiminn og líf okkar allra.

Og eins og ávallt er ég aðeins einni tímapöntun í burtu ef þú þarft á minni aðstoð að halda til að gera þetta ár að glimmerári!

Gleðilegt ár 2019!

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

TRM áfallafræði, LET samskiptafræði og Markþjálfun.

Linda@manngildi.is

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira