Við sjálf erum þau sem berjum okkur mest vegna mistaka okkar á lífsleiðinni og við berum sár okkar með þeim hætti að við erum sífellt að neita okkur um það besta hvað varðar framkomu gagnvart okkur, neitum okkur um verðmæti og velgengni, og setjum okkur jafnvel í ævilangt fangelsi fyrir það eitt að hafa ekki kunnað betur eða vitað betur í aðstæðum lífsins og brugðist þar af leiðandi rangt við.
Ég áttaði mig á því fyrir ekki svo löngu síðan að ég sjálf hef reynt að bæta fyrir mistök mín með meðvirkni og með því að finnast ég ekki eiga neinn rétt á að vera í forgangi eða að njóta velgengni á ýmsum sviðum lífsins.
En nú eru sko sem betur fer komnir aðrir tímar.
Ég áttaði mig loksins og fór að sjá að þetta gengi ekki svona, ég hefði bara ekki nokkurn rétt á því að berja mig stöðuglega fyrir mistök sem voru aldrei gerð hvort sem er af ásetningi heldur var það lífið sjálft sem gerðist eins og gengur og gerist með tilheyrandi reynsluleysi mínu og skort á þekkingu í aðstæðum - En þegar ég loksins vaknaði var ég búin að afplána lengri dóm frá sjálfri mér en þeir sem setið hafa í fangelsi fyrir morð og nauðgun hér á landi hafa gert!
Fangelsið sem ég setti mig í vegna dómhörku minnar í eigin garð varð mér dýrkeypt og jafnvel enn þann dag í dag stend ég sjálfa mig að því að draga mig í hlé vegna þess að ég á ekki rétt á einu eða neinu þar sem ég er líklega sú eina sem hef gert mistök í lífinu og á þar af leiðandi ekki skilið það besta!
En skoðum hversu miklum skaða þessar barsmíðar mínar, niðurtal og fangelsisdómur hefur haft á mig í gegnum tíðina.
Meðvirknin og samviskubitið nagaði mig og kvaldi og ég var alltaf hrædd um að gera ranga hluti og gerði þar af leiðandi fáar kröfur fyrir mig, dró ekki línu í sandinn fyrir mig en dró mig frekar í hlé í fórnarlambið. Svo stóð ég upp og fór að gera sjálfsagðar kröfur fyrir mig sem ég reyndi að standa við og setja niður hælana með tilheyrandi erfiðleikum sem flestir þeir þekkja sem byrja að setja mörk fyrir sitt eigið líf og tilvist.
Þegar við setjum okkur í fangelsi með þessum hætti fylgja því ýmsar aukaverkanir eins og t.d þær að ég talaði ekki til mín með fallegum hætti, sótti ekki það sem ég hefði viljað sækja vegna þess að ég var aldrei nægjanlega frambærileg og flott og ég leyfði framkomu við mig sem með engum hætti var mér samboðin - en það eru liðnir tímar og ég hef í dag náð langt frá þessum stað sem betur fer.
Í dag stend ég með mér þó að stundum sé enn of langt í þolinmæðisþræðinum hjá mér og í dag hugsa ég um mig með sama hætti og ef ég væri að gæta að afleggjurunum mínum sem skipta mig öllu máli.
Ég sýni sjálfri mér sama kærleika og ég vil að þessum dýrmætu einstaklingum mínum sé sýndur og veit að ég á skilið að fá fallega virðingaverða framkomu og svo sannarlega á ég rétt á því að sækja það sem ég hef áhuga á að sækja hverju sinni.
Ég vel einnig það fallega og góða inn í mitt líf, eiginleika eins og einlægni, góðmennsku, traust, kærleika og allt það sem prýða má falleg samskipti manna á milli.
Ég vel einnig að vanda mig í samskiptum við aðra og mun alltaf ganga frá samskiptum sem ætluð eru til þess að setja mig eða mína niður. Þetta er val mitt fyrir mitt líf og ég vona svo sannarlega að þú sem þetta pár lest takir þetta til þín því að þú átt bara það besta skilið í lífinu einfaldlega vegna þess að þú ert manneskja sem ert að gera þitt besta í þeim aðstæðum sem þú ert í núna.
En hvers vegna er ég að tjá mig um þetta og opna á viðkvæman stað í hjarta mér?
Jú líklega vegna þess að ég sé þennan óskilyrta fangelsisdóm nánast á hverjum degi hjá samferðamönnum mínum, eða það að þeir berja á sér fyrir “mistökin” sem þeir burðast með.
Ég sé flotta einstaklinga með skaðaða sjálfsmynd vegna þessara sömu mistaka og ég sé þá neita sér um almennilegt og gott líf vegna þeirra, og þeir keppa stöðuglega að því að reyna að uppfylla og bæta fyrir syndir sínar við allt og alla.
En heyrið mig til enda elskurnar því að það er svo ótrúlega dýrmætt að gera þessi “mistök” og öðlast þá reynslu sem við fáum við úrvinnsluna á þeim, því að þau eru í raun þessi x-factor sem hefur gert okkur að því sem við erum í dag, og ég á enn eftir að hitta manneskju sem segist vilja losna undan reynslunni sem hún hefur öðlast á leiðinni og verða aftur að þeim aðila sem hún var fyrir jafnvel mjög sárar og birtar reynslur en hver veit – kannski á ég eftir að hitta þá persónu engu að síður.
Ég man eftir því að hafa spurt góðan vin hér í denn hvers vegna í ósköpunum svona ágætis manneskja eins og ég fengi öll þessi erfiðu málefni og verkefni inn í mitt líf í stað rósrauðra ævintýra að hætti rauðra og rómantískra bókmennta sem ég hélt svo sannarlega hér áður fyrr að væru eins og lífið sjálft (það ætti að banna þessar rauðu ástarseríur :) ) og hann vinur minn átti fá svör önnur en þau að þetta hlyti að nýtast öðrum á lífsleiðinni til góðs -sem reyndar hefur komið á daginn og ég segi gjarnan að ég hafi verið í háskóla lífsins sem hafi verið erfiðari en allt nám sem ég hef verið í á lífsleiðinni.
Ég uppgötvaði fyrst lærdóminn sem verkefnin og mistökin mín gáfu mér Í störfum með þeim einstaklingum sem til mín leituðu. Þar hef ég aldrei fundið fyrir fordómum eða hneykslun gagnvart þeim sem setið hafa á móti mér og hef getað mætt öllum á jöfnum grunni og stað skilnings, og reyndar aðeins fundið í hjarta mér að mig langi til að sjá þessa einstaklinga vaxa og dafna. Að sjá aðeins það besta í fólki (og okkur sjálfum) og finna löngun til að reisa fólk við á lífsgöngu þeirra er að mínu mati mjög gott að eiga í hjarta sér og kannski það dýrmætasta sem lífið hefur gefið mér fyrir utan börnin mín, barnabörn og góða vini.
Svo stöldrum aðeins við elskurnar, leitum inn á við og athugum hvort að það geti hugsanlega verið að við séum búin að setja okkur í fangelsi samviskubitsins og séum búin að dæma okkur til ævilangrar betrunar þar, og ef svo er finnum þá leið til að stytta þá vist eins og hægt er með öllum tiltækum ráðum.
Við erum líklega okkar verstu dómarar og dómur okkar stundum án vonar um náðun. Og afleiðing dómsins er einungis til þess fallinn að við munum eiga erfitt með að finna það góða fagra og fullkomna fyrir okkar líf og þeirra sem okkur þykir vænst um og svo missum við út svo stórt brot af ævintýri lífsins með því að leyfa okkur ekki að njóta þess besta í fullu frelsi.
Förum nú fram á náðun, opnum rimlana og göngum inn í lífið og frelsið elskurnar.
Og eins og ætíð er ég bara einni tímapöntun í burtu ef þú þarfnast aðstoðar minnar við þín lífsins verkefni.
„Mér hefur ekki mistekist, ég fann bara 10.000 leiðir sem virkuðu ekki.“ -Thomas Edison
„Stærstu mistök lífsins eru að hætta að gera tilraunir til sigurs.“ -Napoleon Hill
Xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
TRM áfallafræði, LET samskiptafræði og Markþjálfun.