Aristotle sagði að það væri til lítils að mennta hugann ef menntun hjartans fylgdi ekki með í kaupunum og það er það sem við þurfum að hafa í huga nú þegar skólastarf hefst að nýju.
Heilinn okkar er ótrúlegt verkfæri og getur geymt fáránlega mikið gagnamagn - margt sem hægt er að setja inn á þann harða disk. En ef við kennum börnunum okkar ekki að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum og að sýna samhug eða góðvild þá er þessi gagnasöfnun kannski ekki mikils virði að mínu mati.
Það hefur verið sýnt fram á það í hinum ýmsu rannsóknum að þeir sem hafa stundað félagslífið og lifað lífinu samhliða námi reynast oft betri starfskraftar en þeir sem helgað hafa náminu allan tímann sinn þegar út í lífið sjálft er komið, og segja fræðimenn að það sé vegna þess að þessir aðilar hafi oft hærri félags og tilfinningagreind en hinir sem gáfu sér ekki tíma til að eiga samneyti við samnemendur sína.
Þetta finnast mér lógískar niðurstöður því að þau málefni sem við glímum helst við í dag tengjast samskiptum, ýmist skorti á þeim eða velvilja og ábyrgð.
Ég veit að það eru margir sem kvíða því að fara í skólann að hausti og því miður allt of margir sem fá að finna illilega fyrir þeim sem léleg samskipti kunna og stunda.
Við heyrum allt of margar sögur af einelti og ljótum leikjum sem særa og gera lífið leitt hjá þeim sem eru ekki nægjanlega sterkir til að standa upp og segja nei við slíkri framkomu og það eigum við ekki að þola í okkar upplýsta nútímasamfélagi.
En hvernig stendur á því að við menntum börnin okkar ekki í því að koma vel fram við aðra? Hvernig stendur á því að lítil börn geta verið svo grimm að það ógnar öðrum börnum og tilvist þeirra?
Hvar eru fögin sem kenna samkennd, kærleika og virðingu fyrir náunganum og sjálfum sér?
Ég verð a.m.k lítið vör við það á stundatöflu barnabarnanna minna að þessi fög séu kennd og fullyrði að ekki voru þau á dagskrá þegar börnin mín voru í skóla.
Og nú veit ég að margir segja að það sé foreldranna að kenna þessa framkomu og að skólinn eigi ekki að þurfa að standa í slíku, en ég segi hiklaust að það þarf heilt þorp til að ala barn upp svo að vel sé, og þar þarf skólakerfið svo sannarlega að koma að ásamt öllum þeim sem eru áhrifavaldar í lífi einstaklingsins sem ala á upp.
Ég reikna svo sannarlega með því að flestir foreldrar geri sitt besta til að kenna börnum sínum góða siði og framkomu og trúi því staðfastlega að það geri kennarar á öllum skólastigum einnig, en betur má ef duga skal þegar litið er á fjölda þeirra sem flosna upp úr skóla eða líður illa þar alla daga, ár eftir ár.
Við lifum á öld samskiptamiðla þar sem samskiptin eru oft ekki upp á marga fiska(þekki það sjálf frá fullorðnum aðilum)og mikil þörf er á að setja inn fög sem hafa það eitt að tilgangi að auka heilbrigð og góð samskipti, kenna samkennd (já það er hægt að kenna hana) og auka þekkingu á tilfinningum og stjórn á þeim.
Einnig er nauðsynlegt að kenna þeim að þekkja mismunandi blæbrigði raddar og andlits því að líkamstilburðir og röddin eru oft sterkari áhrifaþættir en orðin sjálf.
Að virða skoðanir annarra og viðurkenna þeirra menningu, trú og líf er einnig eitthvað sem mætti kenna í þeim tímum og það að allir hafa sinn hátt á. Enginn einn sannleikur er til, heldur höfum við öll brot af sannleika í höndum okkar - semsagt "Margar leiðir liggja til Rómar".
Að sinna þeim sem minna mega sín ætti að mínu mati einnig að vera kennt og sinna vel því að á því byggist þekking á samkennd og umönnun.
Í skóla einum í Bandaríkjunum er samkennd kennd með þeim hætti að morðið á Dr. Marteini Luther King er tekið fyrir og skoðað hvernig aðstendum hans og vinum hafi liðið þegar þeir fengu fréttirnar af láti hans. Spáð er í svipbrigði þeirra og börnin látin setja sig í spor allra sem að komu og þeim uppálagt að reyna að upplifa mismundandi tilfinningar þeirra.
Eins eru sumir skólar með það á stundatöflu sinni að börnin fari í reglulegar hjálparferðir til heimilislausra og barna sem liggja á spítulum m.a.
Og eins ogn ég nefndi í byrjun þá sagði Aristoteles að það væri til einskis að kenna þurrar staðreyndir og veraldlega hluti ef það gleymist að mennta hjartað.
Svo verum dugleg að hvetja þau börn sem í kringum okkur eru núna á nýbyrjuðu skólaári í því að taka ekki þátt í ljótum leikjum gegn öðrum börnum og hvetjum þau til að taka upp á arma sína þá sem höllum fæti standa í kringum þá.
Þar til næst elskurnar
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Markþjálfi/samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði 1 og 2
linda@manngildi.is