Mamma
Í dag er Mæðradagurinn og af því tilefni langar mig að skrifa nokkrar línur eða óð um okkur sem berum þennan titil "Mamma".
Ég á móður sem gaf mér lífið og fyrir það er ég henni alveg afskaplega þakklát. Ég veit sjálf hversu erfitt móðurhlutverkið er og hversu vanþakklátt það getur einnig verið og skil í raun ekki hvers vegna við leggjum allt þetta erfiði á okkur – en segi af öllu hjarta takk mamma fyrir að gefa mér þessa dýrmætu gjöf lífsins og fyrir að vera þú með öllum þínum kostum og öllum þínum göllum.
Þegar ég hugsa um hlutverk mömmu í mínu lífi þá koma upp skemmtileg minningabrot sem munu líklega ylja mér um hjartaræturnar svo lengi sem ég lifi.
Minningar eins og þær að hún varð áhyggjufull í hvert skipti sem ég kom of seint heim eða var ekki í sjónlínunni. Það var mér til mikils ama á þessum tíma og lítinn skilning hafði ég á þessu áður en ég sjálf varð móðir.
Mamma sem ég var afar háð þegar ég var barn og unglingur, semsagt óttaleg mömmustelpa sem kúrði með í sófanum fyrir framan sjónvarpið og svaf uppí rúmi hjá fram eftir öllum aldri.
Mamma sem kenndi mér mikilvægi gestrisninnar þar sem allir voru velkomnir og engum var vísað á bug sem átti bágt. Ömmur mínar hafði hún heima hjá okkur þar til ég var orðin nokkuð stálpuð og vinir mínir voru ávallt meira en velkomnir. Fyrir þessa ómetanlegu kennslu í samkennd og umhyggju er ég og verð ávallt auðmjúklega þakklát.
Mamma sem gat spjallað við mig um alla heima og geima og ég man eftir stundum eins og þeim þegar við settumst niður til að hlusta á gömlu 78 og 45 snúninga plöturnar sem hún átti í fórum sínum, og ég fékk að heyra sögur eða minningar sem tilheyrðu hverju laginu á fætur öðru. Lögin hennar Connie Francis eins og "Lipstick on your collar" og "Frankie",öll lögin hans Tom Jones sem ég hef lúmskan grun um að hún hafi verið smá skotin í, Elvis og "Blue Hawai", Barbara Streisant með lagið sitt "People", Simon og Garfunkel og þeirra "Bridge over troubled water" og hennar uppáhald sem var "the Boxer". Fleiri og fleiri góðir tónar ómuðu um heimilið og sköpuðu dásamlegar minningar og tónlistarsmekk sem mótaði mig og ég bý enn að.
Mamma eldaði alltaf í hádeginu á Sunnudögum og það var yndislegt að vakna við lyktina af steikinni í ofninum og heyra í messunni í útvarpinu þó að matarlystin og viljinn til að fara á fætur væri nú ekki beysinn oft á tíðum hjá mér á unglingsárunum og mamma líklega ekki alltaf sátt við það.
Samband mæðgna þó gefandi sé getur verið snúið oft á tíðum og líklega er hvergi meiri fjölbreytni að finna í tilfinningaskala og samskiptum.
Í sjálfstæðisbaráttu ungra stúlkna og leit þeirra að eigin stefnum í lífinu finna þær mæðrum sínum oft allt til foráttu en enga elska þær þó meira og engum treysta þær betur fyrir afkvæmum sínum og lífi en einmitt þeim. Skemmtilegir kontrastar sem þetta mamma/dóttir/(sonur) býður uppá.
Ég er sjálf fyrir löngu síðan orðin móðir þriggja barna sem ég er afar stolt af og hugsa oft um undrandi og hálf ringluð – hvað gerði ég svona rétt? – merkilegt hvað hefur orðið úr þeim miðað við hversu mörg axasköft ég gerði í uppeldi þeirra! (þau hljóta að vera svona afskaplega vel gefin).
Dætur mínar eru einnig báðar orðnar mæður þannig að þessar þrjár kynslóðir kvenna sem gáfu börnum líf, mamma, ég og dæturnar tvær eigum semsagt þessa dýrmætu reynslu og titil sameiginlegan eða það að vera "Móðir". Ég dáist í dag að því hversu góðar kærleiksríkar og umhyggjusamar mæður þær eru og hjarta mitt fyllist stolti þegar ég sé allt það fallega sem þær geyma í brjósti sér.
Lífið er að mínu mati ein dýrmætasta gjöf sem við getum gefið þrátt fyrir erfiðleika ferðalagsins sem sú gjöf býður stundum uppá og ekki hefði ég viljað sjálf verða af þeim verkefnum sem mótuðu mig og gerðu mig að þeirri sem ég er í dag og er sátt við, og ég veit að allir fá sín verkefni til mótunar og betrunar.
Við mæður erum líklega flestar tilbúnar að vaða eld og brennistein fyrir börnin okkar sem jú auðvitað eru stórkostlegustu mannverur sem hafa gist þessa jörð og við höfum stöðugar áhyggjur af velferð þeirra, heilsu og hamingju.
Stoltið sem við finnum við fyrsta bros, hjal og aðrar framfarir ungviðisins gera andvökunæturnar, fæðingahríðirnar og allt annað að hjómi einu og hjarta okkar brestur af kærleika í hvert sinn sem við lítum í saklaus augu þeirra og sjáum kraftaverk lífsins speglast þar.
Þegar þau svo óhjákvæmilega lenda í erfiðleikum á ferð sinni um lífið finnum við til í hjarta okkar og vildum svo mikið getað bjargað þeim frá öllu lífsins böli og finnum okkur svo vanmáttugar og litlar þegar þau ganga í gegnum dimmu dalina.
Gleðin hinsvegar sem flæðir um æðar okkar þegar vel gengur hjá þeim og alsælan sem við finnum þegar þau vaxa úr grasi og allt gengur vel hjá þeim eru þau verðlaun sem við vonumst líklega allar eftir að öðlast og fáum sem betur fer margar að upplifa.
Eitt get ég sagt með sanni sagt, ég er svo afar þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri á því að bera þennan titil "mamma" og er afar stolt af honum og ekki síður að þeim titli að fá síðan að verða "amma" sem eru aðal verðlaunin mín að mér finnst.
En að lokum. Ég elska mömmu mína og hefði ekki viljað eiga neina aðra mömmu, og segi enn og aftur - takk mamma fyrir allar fórnirnar, gleðina, kennsluna og allt hitt.
Móðurhlutverkið í mínum huga ber hinn sanna djúpa kærleika og einingu sem ekkert fær grandað, og við heiðrum það á þessum degi mæðra.
Innilega til hamingju með daginn þið dásamlegu mæður Íslands, heill sé ykkur sem lífið gefa.
Xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Markþjálfi/Samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði.
linda@manngildi.is