c

Pistlar:

5. júní 2019 kl. 12:35

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Hvað er að ná árangri?

Þessa dagana eru á samfélagsmiðlum allskonar auglýsingar frá hinum og þessum aðilum um það hvernig við förum að því að ná árangri í lífinu og hvað sé árangur, og ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta allt komið út í svolitlar öfgar.

Samkvæmt þessum auglýsingum þá þarft þú að mennta þig endalaust og botnlaust því að þú þarft alltaf að bæta við nýrri og nýrri þekkingu og nýjar aðferðir verða til (líklega vegna þess að menntastofnanir þurfa að bera sig eins og önnur fyrirtæki) og svo er alveg á hreinu að ef þú vaknar ekki 2 tímum fyrr á morgnana og ferð í ræktina, borðar réttu fæðuna, lest síðan eina bók á viku að lágmarki þá bara einfaldlega nærð þú engum árangri í lífinu samkvæmt þessum auglýsingum. - Þetta varð til þess að ég staldraði við og hugsaði, hvað er það eiginlega að ná árangri? og við hvað miðum við árangur?

Eru það þeir sem hafa hæstu launin, forstjóratitlana, flottu húsin, dýru bílana og hæstu húsnæðislánin og frægustu vinina sem hafa náð árangri?

Eða eru það þeir sem hraða sér á hamsturhjólinu alla daga uppgefnir á því að reyna að halda sér ungum og ferskum og vinna frá sér allt vit til þess eins að ná hærra í árangursþrepinu? Eða eru það þeir sem eru með streitustuðullinn í hámarki og börnin í kvíðakasti yfir öllum hraðanum sem er í dag sem ná mestum árangri í lífinu?

Ekki geri ég mér alveg grein fyrir því hversu langt við eigum að ganga þegar kemur að því að ná veraldlegum árangri og stundum finnst mér að við séum jafnvel farin að gera óraunhæfar kröfur á yngstu kynslóðina hvað það varðar.

Börnin okkar virðast þurfa að ná árangri í því sem þau fást við í tómstundunum og oft fara helgarnar sem ætlaðar eru til hvíldar í allskonar keppnir og æfingar hjá þeim og því afar lítill tími er fyrir hvíld og leikgleðina sem ætti aldrei að vera árangurstengd heldur fólgin í samskiptum og því að kynnast fjölskyldu sinni og vinum aðeins betur á breiðum leikgleðigrunni.

Minnir svolítið á brandarann sem ég las um daginn sem hljómaði eitthvað á þennan veg: "Internetið lá niðri í kvöld svo að ég varð að eyða tímanum með fjölskyldunni - þau virtust vera ágætis fólk"

Er það orðinn mælikvarðinn á árangri að þú þurfir að eltast við stöðuga framsækni og veraldlegan árangur? svo mikið að allt það sem raunverulega virðist skipta okkur máli þegar litið er inn að hjartarótunum sé í raun farið að mæta svo miklum afgangi að fjölskyldur og einstaklingar eru að liðast í sundur vegna þessa álags?

Erum við sem samfélag að sætta okkur við að streitan verði svo mikil að það þurfi að finna leiðir til að minnka það með því að bæta við vinnudaginn og fara í hugleiðsluna og jógað til að ekki sé farið í kulnun eða lagst í veikindi?

Ég veit svo sem ekkert hvað öðrum finnst árangur vera og líklega er það afar misjafn mælikvarði á milli manna, en í mínum huga er árangurinn falinn í því að vakna á hverjum morgni og takast á við lífið alveg sama hverju það hendir í þig ásamt því að lifa lífinu í samræmi við gildin sem við hvert og eitt höfum og erum sátt við.

Það er töluvert gaman að spyrja fólk að því hvað það myndi gera ef það ætti aðeins ár eftir ólifað og ég geri töluvert af því að spyrja þeirrar spurningar.

Í flestum tilfellum fæ ég þau svör að gaman væri að ferðast um og skoða heiminn, selja allt dótið sitt og njóta bara þessa árs í gleði og hamingju ásamt þakklæti fyrir hvern dag sem vaknað er upp til, og ef ég bæti svo við spurningunni, hvað værirðu að gera ef þú ættir bara einn dag eftir ólifaðan verða svörin aðeins öðruvísi.

Merkilegt nokk þá hef ég aldrei fengið þau svör við þessum spurningum að fólk vildi nýta þetta ár í það að mennta sig meira, vinna meira, ná í stöðuhækkanir, verðlaun né neitt af því sem við teljum vera að ná árangri í lífinu. Frekar hið gagnstæða, að hætta að vinna, láta drauma sína eða ævintýri rætast og sækja allt það sem heimurinn hefur upp á að bjóða í upplifunum.

Hinsvegar er alveg merkilegt að ég fæ sama svarið við seinni spurningunni frá flestum sem ég hef spurt þeirrar spurningar og það svar er; Ég væri að verja þessum sólarhring í að gleðjast með þeim sem ég elska, umfaðma þá og segja þeim hversu mikils virði þeir eru mér og hversu mikið ég á eftir að sakna þeirra.

Undarlegt þegar tillit er tekið til þess að í dag eiga flestir erfitt með að finna tíma til þess að heimsækja og annast þá sem skipta þá mestu máli og velja gjarnan aðra skemmtun en þá að verja tímanum með þeim sem standa þeim hjarta næst.

Ég er algjörlega sek eins og hinir hvað þetta varðar, en þó hef ég endurskoðað líf mitt síðustu árin og fundið að einmitt það að eiga fjölskyldu, börn og barnabörn ásamt vinum er mér mikilvægara en allt heimsins prjál, og að veraldlegir hlutir skipta svo agnar litlu máli í stóru hamingjumyndinni.

Ég svíf þó ekki um á bleiku skýi þar sem við þurfum ekki gjaldmiðilinn okkar og vinnuna, og auðvitað veit ég að við þurfum víst öll að eiga einhvern samastað og mat til að borða.

Við þurfum samt ekki að keppast við að eiga allan heiminn, allar hönnunarvörurnar, merkjadótið og hvað þetta heitir nú allt saman sem við verðum svo að mikið að eiga. 

Fyrir mér í dag er árangur minn í lífinu eitthvað allt annað en þetta veraldavafstur.

Árangur í mínum huga er td sá að eiga maka, börn og vini sem koma fallega fram við mig og þá sem mér eru kærir, og að hafa við hlið mér kærleiksríka aðila sem annast mig á erfiðum köflum lífsins og að eiga börn og barnabörn sem verða að góðum umhyggjusömum manneskjum. Það væri minn yfirfyllti verðlaunabikar.

Ég veit að þetta hljómar eins og klisja fyrir marga,en ég held að ég hafi kannski fundið sterkast fyrir þessu mikilvægi núna að undanförnu þegar ég horfi á eldri dóttur mína og hennar mann taka að sér að annast í kærleika veika móður mína inni á sínu heimili vegna skorts á úrræðum í heilbrigðiskerfi okkar,en þetta gera þau á sama tíma og þau eru að sinna rúmlega tveggja mánaða gömlu barni sínu og hefja sitt fjölskyldulíf. 

Ég horfi á dóttur mína sinna ömmu sinni á alveg einstakan máta og dekra við hana með því að  lita augabrúnirnar, blása hárið, sjá til þess að hún fái góðan mat, taki lyfin sín og svo nuddar hún síðan á henni fæturna á kvöldin fyrir svefninn upp úr dýrindis olíum og ég sé hvernig móðir mín dafnar í þessu umhverfi og atlæti þrátt fyrir vitneskjuna um að eiga ekki svo marga daga tryggða eftir hér á hótel jörð.

Þetta fyrir mér er að ná árangri í lífinu þó að líklega fái hún dóttir mín engar medalíur né forstjóralaun fyrir þetta kærleiksverk, og líklega ætlast hún heldur ekki til þess að fá neitt annað en ánægjuna sem að fæst við að gefa kærleika sinn og umhyggju.

Það er í mínum huga að hafa náð árangri í lífinu því að það að hafa tilfinningalega greind er að mínu mati mun líklegri til árangurs fyrir heiminn í dag en sú greindarvísitala sem venjulega er mæld og ég held að hún muni skila mannlífinu sem heild meiri árangri en þeim sem við keppum svo stórlega að í dag. 

Þannig að ég er líklega að segja með þessu pári mínu að árangur ætti að vera mældur með öðrum hætti en við gerum í dag, hvernig við önnumst hvert annað og hversu mikla umhyggju, ástúð og samkennd við höfum að gefa. Lítum til móður jarðar þar sem allt snýst um að gefa og þiggja þar leggst allt á eitt, eða það að vinna saman að því að endurreisa og næra, græða og byggja upp heildinni til handa.

Árangurinn fæst nefnilega ekki endilega einungis með útbólgnum bankabókum, steinsteypu, titlum og frægð heldur með samstöðu og samkennd.

Metum fegurð lífsins elskurnar og lifum eins og við ættum bara einn dag eftir ólifaðan til viðbótar og segjum bara og gerum það sem við vildum gera á þeim degi - alla daga.

xoxo

Ykkar Linda

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira