Við sleppum víst fæst við það að fá áföll í lífinu þó misjafnt sé hver þau eru og hversu mörg, en eitt er þó víst að ekkert okkar sleppur alveg við þau.
Um daginn missti ég mömmu mína eftir nokkurra mánaða hetjubaráttu hennar við alvarleg veikindi. Það var eitt af nokkrum verkefnum sem ég hef fengið til að glíma við á skömmum tíma og líklega einnig það sárasta.
Sorgarferli mitt og fjölskyldu minnar hófst um leið og við fengum þær fréttir að mamma ætti einungis fáa mánuði eftir ólifaða og það sorgarferli mun líklega taka sinn eigin tíma til heilunar.
Að eiga vini og fjölskyldu sem koma í heimsókn, hringja, finna uppá einhverju skemmtilegu að gera og létta manni lífið á alla vegu er bráðhollt og í raun nauðsynlegt hverri manneskju að eiga sem stendur í tilfinningalegum stórræðum. Í erfiðleikunum kemst maður líka yfirleitt að því hverjir eru til staðar þrátt fyrir að gleðin gisti ekki hús manns og á þannig stundum er einnig yndislegt að finna allan þann samhug og hjálpsemi sem einkennir fjölskyldu og vini.
Það sem gerist í svona sorgarferli er svo ótal margt þannig að þegar ég hef verið spurð að því hvað ég segi þá svara ég gjarnan "ég segi bara allskonar", því að það er bara þannig sem ég upplifi þetta.
Fyrst eftir að við fengum þessi tíðindi varð þessi hugsun eitthvað svo óraunveruleg og erfitt að halda utan um hana, og líklega hugsaði ég þetta bara sem enn eitt verkefnið til að tækla. Ekki grunaði mig þó hversu margar hugsanir og allskonar tilfinningar færu að bærast um innra með mér.
Hugsunin um að gera þennan stutta tíma eins ánægjulegan og hægt væri væri varð allsráðandi þannig að lítill tími gafst til að skoða sínar tilfinningalegu hliðar þó svo að við værum sem betur fer öll óhrædd við að tala um það sem framundan var.
Ekki hefði ég heldur getað staðið af mér þetta erfiða verkefni án þess að fegurð fjölskyldubandanna og vináttunnar hefði verið til staðar, og merkilegt hvað sýndur kærleikur getur gefið manni mikinn styrk. Það voru svo margir sem komu til aðstoðar með margvíslegum hætti og sáu til þess að ég og börnin mín upplifiðum okkur langt frá því að vera ein. Fegurð kærleiksríkra hjartna verður að ljúfri og þakklátri minningu eftir svona upplifun.
Eftir jarðarförina sem var svo falleg og einlæg í söng og tali skall áfallið yfir mig og ég fór hreinlega alveg á hvolf tilfinningalega.
Það gerðist þegar mér fannst ekkert sjálfsagðara en að hringja til mömmu svona til að segja henni hversu gaman hefði verið að hitta ættingjana í erfidrykkjunni! þar uppgötvaði ég að mitt síðasta símtal við mömmu var orðinn blákaldur veruleiki og ég gerði mér grein fyrir því að ég átti aldrei eftir að heyra röddina hennar aftur.
Það var eins og steinn hefði verið settur á brjóst mér og raunveruleikinn helltist yfir mig.
Ég gerði mér einnig grein fyrir því á þeirri stundu að ákveðinn partur af mér og mínu lífi hafði horfið og verður aldrei endurvakinn.
Óraunveruleikinn, dofinn, söknuðurinn og raunveruleiki eigin dauðleika varð mér einhvernvegin svo ógnar ljós á þessari stundu og lífið tók á sig annan lit.
Það er eitthvað svo mikið tabú í okkar þjóðfélagi að tala um og viðurkenna staðreynd dauðans sem er þó það eina sem við vitum fyrir víst að við eigum fyrir höndum í þessu lífi. En þarna gerði ég mér skíra grein fyrir því að lífið er svo ógnar stutt og viðkvæmt og að í raun getum við ekki leyft okkur að sóa einni einustu mínútu í eitthvað sem skiptir okkur ekki máli og við eigum að tala oftar um dauðann og merkingu hans fyrir líf okkar.
Þessi viðkvæmi vefur lífsins er svo vanmetinn hjá okkur oft á tíðum og við höldum alltaf að við höfum nægan tíma til að sinna og umgangast þá sem okkur eru kærir. En þarna fann ég fyrir öllum mínútunum sem ég hefði getað varið með mömmu en gerði ekki - og ég fylltist eftirsjá.
Það sem mig langar helst að skilja eftir með þessu tilfinningapári mínu er þó aðallega sú staðreynd að sorgin tekur á sig allskonar myndir. Myndir eins og tómleika, eftirsjá, kvíða, reiði, vonbrigði, söknuð, minningar, breytt líf, þakklæti og svo margt og margt. Og það eina sem við getum gert er að horfast í augu við allar þær tilfinningar sem kvikna og skoða þær síðan með mildum augum kærleikans til okkar sjálfra og þeirra sem farnir eru - og takast svo á við lífið einn dag í einu.
Notum tímann vel sem okkur er gefinn elskurnar og sóum honum ekki í einskisverða hluti sem engu máli skipta þegar litið er á stóru myndina og lífið í heild sinni.
Ég hef a.m.k tekið þá ákvörðun fyrir mig að elska lífið sem aldrei fyrr og vera þakklát fyrir hvern dag sem ég fæ að njóta þeirra sem í mínum kærleikshring eru.
Og eins skrítið og það nú er þá er ég þakklát dauðanum á vissan hátt fyrir að gefa mér áminninguna og hvatninguna sem felst í því að vita hversu tíminn er stuttur og einnig er hann svo ógnarfljótur að líða - og svo þakka ég honum fyrir að gera mér ljósa grein fyrir verðmæti mínútnanna sem er ómetanlegt og verður ekki í krónum talið.
Þannig að nú stefni ég sem aldrei fyrr á það að gera lífið að ævintýri að svo miklu leiti sem mér er fært, og ég ætla að leyfa mér að elska þá sem mér eru kærir sem aldrei fyrr, og strá glimmeri og gleði í kringum mig eins og snjódrífu hvar sem ég kem.
Því að lífið er núna.
xoxo
Ykkar Linda