c

Pistlar:

3. nóvember 2019 kl. 15:18

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Þegar kvíðinn heltekur okkur

Um daginn fann ég aftur fyrir gamalli tilfinningu sem ég er nú kannski ekki allt of sátt við að finna fyrir, og hún hreinlega lamaði mig um tíma. Ef ég hefði ekki kunnað aðferðirnar sem hægt er að grípa til í þeim aðstæðum þá er hreinlega ekkert víst að ég væri komin á betri stað, og kannski bara verri ef eitthvað væri.

Þess vegna ákvað ég að deila með ykkur aðferðum þeim sem ég nota sjálf í þessum aðstæðum, því að ég veit að það eru svo margir sem finna fyrir þessari leiðindatilfinningu og vita ekki hvernig þeir geta losnað undan henni.

Það var orðið ansi langt síðan að þessi lamandi tilfinning hafði hertekið mig (ég er ekki að tala um þessa venjulegu kvíðahnúta eða streituhnúta sem við fáum við ákveðin tækifæri eins og við það að fara á svið eða út fyrir þægindarammann) þannig að ég þurfti smá tíma til að ná í skottið á sjálfri mér og nýta þær aðferðir sem ég þó kann, en það náðist. 

En hér kemur aðferð ala Linda við að tækla kvíðann sinn.

Fyrst er mjög nauðsynlegt að athuga hvort að við erum í fight and flight stellingum þegar kvíðinn hellist yfir. Erum við td með kreppta hnefa, tær, hertan maga, axlir upp að haus og fleira sem sem segir okkur að við séum í flóttastellingum. Byrjum svo á því að losa um magavöðvann og réttum úr fingrum og tám, setjum axlir niður og drögum djúpt andann. 

Næst er að samþykkja tilfinninguna (getur verið erfitt) því að hún er bara ein af öllum þeim tilfinningum sem við getum upplifað og er hvorki betri né verri en allar hinar þannig séð, fer allt eftir því hvaða merkingu við gefum henni. Ég hef hinsvegar valið að segja þegar ég finn fyrir henni "aha, þarna ertu greyið mitt- þú mátt alveg koma en ég ætla að láta þig fara og setja aðra skemmtilegri tilfinningu inn í staðinn" - því að ég trúi því að allt sem við förum í mótþróa gegn eða stöndum á móti hefur tilhneigingu til að vaxa og dafna jafnt og það góða sem við einbeitum okkur að.

Síðan eru aðferðir sem ég nota eins og þær að skoða tilfinninguna vel og leika mér aðeins með hana áður en ég hreinlega fer inn í hana og stroka hana út með ímynduðu stóru strokleðri (lol - veit að þetta hljómar kjánalega - en virkar þó) 

Svo getum við tekið okkur niður í smá norm með því að taka athyglina frá tilfinningunni eins og með því að telja allt sem er í herberginu sem við erum stödd í og velja okkur liti sem við ætlum að telja, virkar oft til að ná stjórn í aðstæðunum. 

Hugsun mína þarf ég einnig að taka í gegn þegar ég er á þessum stað og skoða hvað það er  sem er að valda kvíðanum mínum ef ég þá næ því að gera það (þarna þarf stundum aðstoð fagaðila). Það geta verið ýmsar ástæður fyrir kvíðanum og stundum kemur hann vegna ofurálags eins og var í mínu tilfelli og þá er oft erfitt að hertaka hugsanir sínar, en þó er það hægt (það er allt hægt ef við viljum það).

Svo er gott að skoða hvað gengur vel í lífinu, hvað er ég þakklát fyrir, hvað er það versta sem gæti gerst og hvað er það besta sem gæti gerst. Hverju breyti ég með áhyggjum mínum eða þarf ég bara að sætta mig við að ég fái engu breytt, og svo er að hugsa í lausnum en ekki að dvelja í ómöguleikavíddunum. 

Að einfalda lífið er einnig gott að gera þegar staðan er þessi og fækka skylduverkum og álagspunktum ef hægt er. 

Hreyfing, svefn, hugleiðsla og holl fæða er einnig nauðsynlegur partur af því að ná sér á strik og gönguferðir eru möst að mínu mati. Eins þarf þarmaflóran að fá að vera í lagi og bætiefnainntaka góð. Svo er auðvitað nauðsynlegt að láta dekra sig með nuddi eða öðrum heilandi aðferðum með reglulegu millibili og helst sem oftast.

Að hitta fólk, og að vera í návist þeirra sem ég elska er einnig stór þáttur í vellíðan minni. Og fyrir mig er það algjörlega nauðsynlegt að gleðjast, hlæja og gera það sem er skemmtilegt því að það gefur mér orku. 

Ég veit vel að þegar við erum á stað kvíðans er erfitt að hitta fólk og það er svo sannarlega ekki það sem við viljum helst þegar okkur líður sem verst af kvíðanum, því að okkur þykir best á þessum stundum að draga okkur frá og sitja sem fastast ein úti í horni með okkar vondu skaðandi hugsanir.

Það er hinsvegar alveg bannað!

Fjölskyldan og vinirnir skilja alveg ef ég þarf að fara út í horn vegna vanlíðunar og vilja bara vera til staðar fyrir mig, og fólk hefur meiri skilning á kvíða en við gerum okkur oft grein fyrir.

Kvíða sem við ráðum illa við ætti alltaf að meðhöndla, og það er til fullt af hjálparlyfjum sem geta hjálpað á meðan verið er að ná tökum á ástandinu eða þar til að stjórn á hugsununum, tilfinningunum og framkvæmdum næst.

Og þegar öllu er á botninn hvolft þá eru það hugsanir okkar sem helst viðhalda ástandinu þannig að það er mjög nauðsynlegt að komast frá þeim hugsunum sem skaða okkur og setja inn aðrar og betri eða þær sem þjóna vellíðan okkar í lífinu.

Ég vona að þetta pár mitt hjálpi einhverjum til að sjá að kvíða er hægt að hafa hemil á ef réttum aðferðum er beitt eins og með allar aðrar tilfinningar sem við upplifum. En það er engin drive through lausn til - þetta er ferli sem þarf sinn heilunartíma.

Ég bendi þó á að lokum að þú ættir ekki að hika við að leita þér aðstoðar hjá fagfólki ef þessi blessaða leiðindatilfinning hertekur líf þitt og talaðu endilega við lækninn þinn, hann er fyrsti aðilinn sem getur aðstoðað þig og bent þér á farsælar leiðir til endurreisnar og betri líðanar. 

Og eins og ávallt er ég einungis einni tímapöntun í burtu ef þú telur að ég geti aðstoðað þig á þinni lífsins leið.

xoxo

Ykkar Linda 

Linda Baldvinsdóttir

Markjálfi/Samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði.

linda@manngildi.is

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira