Í dag er mikið rætt um ofbeldi og mætti stundum halda af umræðunni að konur yrðu einar fyrir því að vera beittar ofbeldi. Mig langar hinsvegar að benda á að það er töluverður hópur karla sem verður fyrir ofbeldi af hálfu maka síns og í raun er ekki minna um það að þeir lendi í því en ofbeldið gegn konum.
Það má þó segja að karlmennirnir geti valdið meiri skaða með ofbeldi sínu en konur a.m.k ef ofbeldið er orðið líkamlegt, en sá sálræni skaði sem konur valda er oft ekkert minni þrátt fyrir minni líkamlega krafta.
Við konur beitum bara svolítið öðrum aðferðum en karlmenn svona yfirleitt eða svo virðist það í fyrstu vera. Mjög algengt er að við konur beitum stjórnsemi, fýlustjórnun og kynlífssvelti til að halda mönnunum á þeim stað sem við viljum hafa þá sem er mjög alvarleg gerð andlegs ofbeldis, og því miður hef ég heyrt og séð mörg dæmi um þetta.
Tilkynningar til ofbeldisdeildar Breska innanríkisráðuneytisins sýndu að karlar verða svo sannarlega fyrir heimilisofbeldi og tilkynntu „6% kvenna og 4% karla heimilisofbeldi í Bretlandi á einu ári sem jafngildir u.þ.b einni milljón kvenna og 600.000 karla.
Merkilegt þótti mér að þegar ég googlaði til að finna upplýsingar fyrir þessa grein og vildi fá upplýsingar um ofbeldi gegn karlmönnum þá komu nánast eingöngu upp greinar um ofbeldi gegn konum sem kannski segir okkur svolítið um það hversu falið þetta ofbeldi gegn körlum er í raun.
En hverjar eru svo aðal aðferðir kvenna þegar kemur að því að beita maka sinn ofbeldi?
Vissulega eru einkennin mjög svipuð þeim sem konur upplifa í sínum ofbeldissamböndum og því geta konur svo sannarlega kannast við eftirfarandi atriði ekkert síður en mennirnir.
1. Tilfinningalegt ofbeldi eða stjórnun. Öllu ofbeldi fylgir líklega andlegt ofbeldi af einhverjum toga sama hvort við erum að tala um ofurstjórnun, líkamlegt eða kynferðislegt ofbeldi. Og merkilegt nokk þá er oft erfiðara að eiga við andlegt ofbeldi en líkamlegt þar sem fjölbreytileikinn í aðferðafræðinni er ótrúlega fjölbreyttur þar.
2. Útásetningar eru algengar:
· Að móðga eða niðurlægja maka sinn heima við eða á almannafæri og gera lítið úr honum er algengt.
· Stöðugar ásakar um að hann hann standi sig ekki og að ekkert gagn sé að honum eru algengar.
3.Stjórnun á fjármálunum:
· Heldur fjárhagslegum upplýsingum frá maka sínum og fer á bakvið hann þar.
· Tekur fjárhagslegar ákvarðanir sem hafa áhrif á hann án þess að spyrja eða segja honum frá því.
4. Einangrar maka sinn og takmarkar frelsi hans:
· Stýrir sambandi maka síns við vini og fjölskyldu og fer sjaldan eða aldrei þar sem eitthvað er um að vera í hans fjölskyldu eða vinahópi og einangrar hann frá sínu fólki þar sem það er nú gjörsamlega óalandi og óferjandi. (Þetta hef ég því miður séð víða)
5. Meðhöndlar makann eins og þjón: þar sem makinn þarf að uppfylla fyrst og síðast skyldur við makann og þá sem tengjast honum og vera eins og þeytispjald út um allt til að geðjast nú húsbóndanum (húsbændur og hjú).
6. Njósnastarfsemin:
· Fylgist með símhringingum hans og tölvunotkun og samskiptum þar.
· Stýrir aðgangi og þátttöku hans í samtökum og hópum og fer gjarnan í fýlu og hefur ákveðið að allt annað hefði átt að gera þann dag sem honum dettur í hug að hitta vini sína eða ef eitthvað er um að vera í fjölskyldu hans.
Í heilbrigðum samböndum er annað samskiptamynstur í gangi og það mynstur snýst um að byggja upp og lifa lífinu í samhljómi eða það:
Að tilheyra:
Þú gefur maka þínum hlutdeild í lífi þínu og þið eigið ykkar leyndarmál og tjáningamynstur sem enginn annar á með ykkur.
Tilfinningar:
Þú finnur fyrir öruggri og sterkri samstöðu sem gefur þér leyfi til að segja félaga þínum
hvernig þér líður í raun - óháð því hvort að þú sért á þínum versta stað eða þínum besta stað.
Virðing og hlustun:
Þér er sýnd virðing og þú sýnir virðingu á móti. Þið hlustið á hvort annað jafnvel þegar þið
hafið skiptar skoðanir á umræðuefninu og ykkur langar að finna lausnir sem henta ykkur báðum.
Ágreiningur:
Ykkur getur greint á um ýmsa hluti en talað engu að síður af virðingu við hvort annað og leyfið ykkur að vera sammála um að það að vera ósammála.
Nánd og Kynlíf:
Þið getið bæði verið heiðarleg um tilfinningar ykkar og tjáið frjálst ástúð ykkar í daglegu lífi og eins í kynlífi. Hvorugt ykkar upplifir að þau þurfi að gera eitthvað sem þau vilja ekki gera.
Traust:
Þið treystið hvort öðru. Þar sem traust er til staðar líður öllum vel, en ef traustið er brotið þá er voðinn vís og langan tíma getur tekið að byggja upp traust sem einu sinni hefur verið brotið.
Tími:
Þið gefið hvort öðru pláss og rými og þið viðhaldið ástarblossanum með ýmsum hætti en tíminn sem þið verjið saman og búið til ykkar framtíðarplön er mjög mikilvæg gjöf inn í sambandið.
Samskipti:
Þið talið mikið saman og þið varist það að tala harkalega eða vera með meiðandi athugasemdir og engin líkamleg átök eiga sér stað á milli ykkar.
Í óheilbrigðu sambandi snúast hlutirnir eiginlega við og þér finnst oft mjög óþægilegt að segja maka þínum hvernig þér líður í raun og veru.
Skoðanir þínar eru virtar að vettugi þegar skoðanaágreiningur á sér stað og þú óttast að setja þínar skoðanir fram vegna þess að það kostar leiðindi og fýlu.
Stundum verður ágreiningurinn að slagsmálum sem verður til þess að þú ferð að halda þínum skoðunum fyrir þig og leyfir einfaldlega makanum að leiða þig í þær áttir sem hann vill fara því að það er mun auðveldara og hættuminna.
Það er mikil afbrýðisemi og öfund í óheilbrigðum samböndum (án ástæðu)og mjög gjarnan endar það ástand með því að parið lifir í mikilli einangrun.
Hestamenn Gottmans eru mjög gjarnan notaðir til að stjórna hegðun makans og þú ert settur niður, hunsaður og þér sýnd vanvirðing ásamt því að hugmyndir þínar og tilfinningar eru virtar að vettugi, jafnvel gert grín af þeim.
Makinn ýtir þér út í aðstæður sem þér þykja mjög óþægilegar og ásakar þig um daður og bannar þér jafnvel alfarið að tala við hitt kynið.
Þú mátt ekki fara út með strákunum/stelpunum því að maki þinn sér það sem ógnun við samband ykkar.
Vona að þessi grein hafi komi einhverjum að góðum notum og ég held að það sé kominn tími til að við konur áttum okkur á því að við erum ekki bara fórnarlömb heldur einnig gerendur ofbeldis og ósæmilegrar framkomu við hitt kynið (ég geri stóran greinarmun á ósæmilegri hegðun og ofbeldi).
Einnig tel ég að við þurfum að gæta okkar verulega í umræðunni því að mér virðist stundum eins og við séum að snúa því karlaveldi sem við bjuggum við yfir í kvennaveldi en ekki jafnrétti og samstöðu. Eða eins og litli 12 ára ömmuguttinn minn sagði þegar hann sá konu fyrir framan okkur í röð í verslunarmiðstöð um daginn "Er ekki allt í lagi með konur amma" vilja þær okkur ekki? -og höfnunarsvipurinn á andliti hans leyndi sér ekki og ég fann hvernig ég pirraðist út í þessa kynsystur mína. En það sem vakti barnið til umhugsunar var að konan bar tösku á öxlinni með merkingunni "In the future only female" og eins og máltækið okkar ágæta segir "Bragð er að þá barnið finnur"
Tali hver fyrir sig, en jú ég vil svo sannarlega hafa karlkynið með í framtíðinni og ég óska þess að menn og konur geti bara borið virðingu fyrir hvort öðru og umfaðmað það sem er ólíkt með okkur í stað þess að lifa í fordæmingu gagnvart hvort karlkyninu og öllu því sem þeir standa fyrir eins og nú er háttað hjá okkur að mínu mati.
Ég vona einnig svo sannarlega að við getum kennt börnum okkar virðingaverða og ofbeldislausa framkomu gagnvart öllum, bæði konum og körlum.
Og trúið mér ég hef á mínum rúmlega 60 árum séð konur á kvennakvöldum og víðar hegða sér eins og svæsnustu karla þá sem talað er um í dag, og ég hef verið á tónleikum þar sem grúbbpíurnar væla fyrir framan hljómsveitastrákana eða henda í þá nærbuxunum (t.d á Tom Jones tónleikunum um árið) Og ég hef verið innan um drukkið kvenfólk sem er ekki síður með kynferðislegt áreiti á karlmenn en karlmenn í sama ástandi á konur.
Það er að mínu mati mál til komið að einhver nefni þetta því að við konur erum langt því frá að vera eins saklausar eins og við viljum sýna okkur þegar kemur að þessari ósæmilegu framkomu sem sumir vilja flokka sem ofbeldi, en ég kalla einfaldlega ósæmilegt þjóðfélagslegt uppeldi sem hefur fengið að viðgangast mann fram af manni, og tími er til kominn að kenna aðferðir sem eru okkur öllum sæmandi og kannski koma á í leiðinni viðeigandi fallegri deitmenningu landans með tilehyrandi kurteisi og virðingu.
Þjóðfélagið þarf allt að taka sig saman í andlitinu til að þessi ósæmilega hegðun verði úr sögunni og til að allt ofbeldi hvort sem það er andlegt, líkamlegt eða kynferðislegt hverfi úr þjóðfélagi okkar - og þegar því markmiði verður náð verður líklega ekki þörf á því að skrifa greinar sem þessa.
Koma svo krakkar og byrjum á okkur sjálfum í umgengni okkar við bæði kynin.
Ást og friður <3
Ykkar Linda
P.S Eins og alltaf er ég einungis einni tímapöntun í burtu frá ykkur :)
Linda Baldvinsdóttir
Lifecoach, samskiptaráðgjafi og TRM áfallafræði 1 og 2
linda@manngildi.is
Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is
Meira