c

Pistlar:

6. mars 2020 kl. 12:44

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Líður þér vel í samskiptum þínum við fólk eða er meðvirknin að ganga frá þér?

Enn og aftur langar mig að tala um meðvirkni þar sem þetta er landlægt og líklega útbreiddara en veiran sem við flest óttumst í dag.

Meðvirkni er sjúklegt ástand sem við þurfum svo sannarlega að huga að skoða og lagfæra ef það er fyrir hendi í lífi okkar og er að hafa áhrif til ills þar. 

Að virka vel með öðrum er nauðsynlegt í öllum almennum samskiptum og allt gott um það að segja að við séum góð og kærleiksrík við hvert annað og leitum lausna inn í samskiptum, en við þurfum að skoða hvort við erum að virka með fólki eða hvort við erum í meðvirkni með þeim og það er að ýmsu að hyggja þar.

Að virka með öðrum gefur okkur góða tilfinningar og vellíðan og er áreynslulaus tilfinning sem færir okkur yl, en meðvirknin gefur okkur togstreitu tilfinningu sem fær okkur til að tipla endalaust og botnlaust í og kringum aðra aðila,(stundum bara einn)og fær okkur á staði sem við erum ekki sátt við okkur á. 

Við þolum of mikið af slæmri eða illri framkomu, leyfum óréttmætar hafnanir og ummæli og stöndum ekki föst á okkar tilverurétti né okkar lífsgildum.

Hjá meðvirknisamtökum er talað um að meðvirknin skiptist í nokkra flokka og eru þeir td. Afneitun, lítið eða lélegt sjálfstraust, ákveðin fylgimynstur í lífinu, stjórnunarmynstur og forðunarmynstur.

  • Afneitunin getur meðal annars falist í því að meðvirkir eiga erfitt með að segja hvernig þeim líður og þeir gera lítið úr eða neita fyrir raunverulegar tilfinningar sínar. Þeir líta á sig sem kærleiksríkar verur sem eru helgaðar vellíðan annarra og þeir fela tilfinningar sínar á bak við leiðir eins og húmor, reiði, pirring eða með því að loka sig af. Gjarnan draga þeir að sér einstaklinga sem eru ekki tilfinningalega til staðar fyrir þá.
  • Lítið eða lélegt sjálfsöryggi getur birst í því að meðvirkir eiga erfitt með að taka ákvarðanir og dæma allt sem þeir segja og gera sem ekki nægjanlega gott. Eiga erfitt með að taka hrósi og telja að skoðanir og gildismat annarra sé rétthærra sínu eigin og eiga erfitt með að setja mörk. Þeir eiga það einnig til að leita að öryggi hjá öðrum og mynda með sér lært hjálparleysi.
  • Fylgimynstrin eru oft þau að þeir meðvirku eru sauðtryggir og hanga í skaðlegum aðstæðum allt of lengi og gera málamiðlanir gegn gildum sínum og líðan til að forðast höfnun og reiði. Þeir eru oft hræddir við að segja frá sínum skoðunum, trú og tilfinningum. Þeir gefa frá sér sannleikann sinn til að forðast breytingar á lífi sínu. Stundum geta þeir verið hvatvísir í ákvörðunum.
  • Stjórnunarmynstrin geta meðal annars birst í því að þeir verða ófærir um að bera ábyrgð á sér. Þeir verða pirraðir ef aðrir hugsa ekki eða líður á annan hátt en þeim þóknast að þeim líði. Þeir verða oft pirraðir þegar fólk hlýðir þeim ekki og þurfa að finna fyrir því að aðrir þarfnist þeirra til að geta verið í samskiptum við þá. Þeir nota ásökun og skömm til að ná sínum þörfum fram og refsa þeim sem mæta þeim ekki. Nota kærleiksríka frasa til að ná stjórn á öðrum og beita refsingum og reiði til að stjórna útkomum. Eins eiga þeir til að ausa gjöfum til þeirra sem þeir vilja hafa áhrif á og neita yfirleitt samvinnu, málamiðlunum og samningum.
  • Forðunarmynstrin birtast oft í því að hinir meðvirku forðast tilfinningalega, líkamlega og kynferðislega nánd til að halda fjarlægð og halda sig þar með frá nánd í samböndum. Þeir nota óbein samskipti til að rugga nú ekki bátnum og þeir bæla niður tilfinningar sínar til að forðast berskjöldun. Þeir halda að með því að sýna tilfinningar sínar séu þeir að sýna veikleika og leyfa gjarnan fíknum að fjarlægja sig frá nánd í samskiptum. 

Þetta eru nokkur af þeim mynstrum og atriðum sem meðvirkir upplifa og ég hvet þig til að skoða lesandi góður hvort að eitthvað af þessum atriðum eigi við þig og gera þá það sem þarf að gera til að leiðrétta þig og skapa heilbrigðara líf fyrir þig í framhaldinu, það svoleiðis marg borgar sig.

Og eins og ætíð er ég bara einni tímapöntun í burtu ef þú telur að ég geti aðstoðað þig við þín lífsins verkefni.

xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Markþjálfi/samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði

linda@manngildi.is

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira