c

Pistlar:

29. apríl 2020 kl. 22:14

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Að vaxa til ástar

Góður vinur minn í London sagði við mig um daginn þegar við vorum að tala um lífsins málefni "Why dont we rise in love instead of falling in love" eða í lauslegri þýðingu: "hvers vegna vöxum við ekki upp til ástar í stað þess að falla fyrir henni" og mér fannst þessi setning mjög áhugaverð og hún fékk mig til að hugsa dýpra um okkar skilgreiningar á samböndum.

Já hvernig stendur á því að þau orð sem við notum varðandi ástina eru frelsisskerðandi í stað þess að innihalda vöxt?

Við tölum svo oft um að verða ástfangin og um það að falla fyrir einhverjum, en ef við skoðum þau hugtök nánar þá eru þau full af vanmætti og undirgefni. Að falla er að fara niður í hálfgerðan vanmátt og kannski að bugta sig og beygja til að falla hinum aðilanum í geð með einhverjum hætti og veikja sig. Að verða ástfanginn er einnig í raun neikvæð merking eða það að vera fangaður sem er allt annað en fallegt þar sem það tekur frá manni frelsið. Þó má kannski sjá eitthvað gott við þetta eins og allt, t.d það að í þessu ástandi eins og við skilgreinum það förum að taka meira tillit til annarrar manneskju en okkar sjálfra og ekki held ég að það veiti af því svosem, en samt ekki gott að fara í vanmátt og að gefa eftir of mikið eftir af sínu eigin frelsi .

En ef við skoðum þetta svo enn betur þá hljótum við að sjá að mörg ástarsambönd dagsins í dag uppfylla þetta frelsisleysi eða föngun og eins undirgefnina og meðvirknina sem felst í því að gefa sjálfan sig eftir og verða að þeirri manneskju sem hinn aðilinn vill að þú sért í stað þess að standa í þínum eigin mætti og að mæta hinum aðilanum á jafningjagrunni sem ég tel að þurfi til að byggja sterkan grunn.

Rómantískar ástarsögur sem fylla huga okkar á unglingsárunum fjalla einmitt oft um fjarlæga fráhrindandi karlmenn sem ná að fanga ástir góðhjartaðrar ungrar konu sem þó stundum gerir uppreisn gegn afskiptaleysi mannsins og þá fjarlægir hann sig. Kemur síðan til baka tvíefldur vegna þess að gyðjan náði að fanga hann aftur til sín með góðmennsku sinni og því að hann gat ekki gleymt henni. Ég er alveg viss um að nú hlæja nokkrir aðdáendur Rauðu ástarsagnanna. :) 

Hvernig myndast annars sambönd dagsins í dag svona venjulega og er það eitthvað sem fellur okkur í geð svona í raun?

Er það ekki svolítið þannig að við förum á Tinder eða næsta bar, sjáum þar álitlegt viðhengi og hendum svo þessum sem lúkka ekki nægjanlega vel, förum kannski á eitt kaffideit eða happy hour og ákveðum á einni klukkustund hvort að aðilinn henti okkur eða ekki?

Við erum instant kynslóð sem viljum að allt gangi upp einn tveir og þrír og þar á meðal ástarsamböndin okkar sem eiga að ganga snurðulaust og vera bara smart. Enginn tími fyrir að kynnast vel eða að leyfa sér að vaxa með annarri mannveru þar til að kviknað hefur á kærleikstilfinningunni sem tekur síðan sambandið frá þeim stað í átt til vaxtar og grósku.

Það er þó það sem ég tel heillavænlegast til árangurs, eða það að huga að kynnum með sama hætti og ef við værum að koma litlum blómaafleggjara til lífs. Þegar búið er að velja afleggjara sem er vænlegur þá þarf að sýna þolinmæði og leyfa honum að spíra í rólegheitunum. Þegar það ferli hefur svo átt sér stað er þessum litla græðlingi komið fyrir í nælingaríkri moldu og síðan er vökvað reglulega. Ef vel tekst til þá verður þessi litli afleggjari að stærðarinnar plöntu sem mun gleðja hjarta okkar en allt tekur þetta þó sinn tíma.

Þessi blómauppskrift held ég að sé vænleg til eftirbreytni þegar við erum í makaleitinni. Að leyfa sér að vaxa til ástar með því að sjá fyrst hvort að þetta samband sé vænlegt til velsældar og hvort að virðingin og vináttan haldist í hendur ásamt dassi af nánd og sameiginlegum lífsviðhorfum er byrjunin.  Næsta skref væri síðan að hlúa vel að hvort öðru, lyfta upp og hvetja og sjá hvort að ástin fari ekki að skjóta föstum rótum í þeim jarðvegi. Afraksturinn fer svo eftir því hversu dugleg við erum að næra og vökva sambandið þar til við erum orðin að þéttum runna, rótvöxnum og sterkum. 

Mín uppskrift að þeirri næringu sem ég tel að þurfi til að byggja upp traust og blómlegt samband er traust, vinátta, tryggð, skuldbinding, virðing, hvatning, gleði og húmor, sameiginleg lífsgildi og auðvitað fullt af nánd og tilfinningum sem fá að vaxa í skjóli og umhyggju. 

Gefum okkur tíma og notum innsæið okkar þegar kemur að ástinni og hættum kannski að verða fangin nú eða að falla fyrir henni.

Vöxum frekar upp til ástar og nærum ástina í þolinmæði og í þeirri fullvissu að það sem á að verða mun verða, og ef að grunnurinn er réttur þá er allt mögulegt og kraftaverkin geta gerst.

Munum bara að kærleikurinn þarfnast tíma og alúðar.

Þar til næst elskurnar, heilsa, friður og ást til ykkar - og ef þið þurfið á mér að halda þá er ég eins og ætíð aðeins einni tímapöntun í burtu.

xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Markþjálfi/Samskiptaráðgjafi/TRM 1 og 2.

linda@manngildi.s

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira