c

Pistlar:

11. september 2020 kl. 19:51

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Hin eina sanna ást, hvernig er hún?

Sambönd koma og fara og við verðum ástfangin en ástin endist ekki, en þegar við  höfum fundið þá persónu sem er hin eina sanna ást þá trúðu mér - þú munt vita það í hjarta þínu og skynja það í sálu þinni.

Það verður til þessi sérstaka tenging eða eining á milli ykkar sem segir ykkur að þið séuð ætluð hvort öðru og þið vitið það eiginlega frá upphafi (Ekki samt rugla þessu samt saman við meðvirka tengingu).

Báðir aðilar í þannig sambandi munu vita og upplifa þessa einstöku tengingu og þeir munu gera sér grein fyrir að það sé fátt sem getur komið upp á milli ást þeirra.

Það eru þó nokkur atriði sem einkenna hina einu sönnu ást að mati þeirra sérfræðinga sem ég hef kynnt mér og ber flestum þeirra saman um að eftirfarand atriði séu merki sem mark er á takandi þannig að ég ætla að koma með nokkur þeirra hér í þessum pistli.

!. Upplifir þú frið, ró og innri hamingju þegar þú ert í nálægð við þína einu sönnu ást? Ef svo er þá eru það sterk merki um að þú hafir fundið hana.

2. Rannsókn sem var gerð í Háskólanum Stony Brook í New York sýnir að raunveruleg ást og einlæg tenging breyti boðefnastarfsemi heilans og að það verði meiri framleiðsla á uppbyggilegum vellíðunarboðefnum - ekki svo slæmar aukaverkanir af ástinni semsagt!

3. Það er einlægni og skuldbinding sem á sér stað í samböndum þar sem þið hafið fundið hina einu sönnu ást og í rannsókn frá Háskólanum í Austin í Texas virðist það vera þannig að meiri tilhneiging sé til þess að nota orðið "við" í stað "ég" í sambandinu við hinn eina sanna/sönnu. Aðilar sem telja sig hafa fundið hina einu sönnu ást eru einnig tilbúnir til að gera allt það sem gera þarf til að sambandið geti gengið vel og snurðulaust fyrir sig.

 
4. Egóið virðist hverfa í návist hinnar einu sönnu ást og aðilarnir finna að þeir elska aðra manneskju meira en sjálfa sig og þeir fara að huga að þörfum og löngunum hins aðilans framar sínum eigin. Mikið væri nú gaman að sjá það gerast víðar en í ástartengingu eða í almennum samskiptum okkar mannanna.
 
5. Þegar tengingin hefur myndast vilja aðilarnir helst sýna öllum hversu heitt þeir elska og þeir vilja að öllum líki við ástina sína. Helst vilja ástföngnu aðilarnir standa uppi á fjallsbrún og kalla hátt hversu heitt þessi aðili sé elskaður og helst svo hátt að bergmálið af orðunum berist um allan heim!. 
 
6. Hin eina sanna ást vill hag ástar sinnar og velgengni sem mesta og vill styðja við á hvern þann hátt sem til þarf á leiðinni að vellíðan. Ef aðilarnir vinna svo einnig saman að því að skapa eitthvað sameiginlegt eins og það að stofna fyrirtæki eða að eiga sameiginlegt markmið inn í framtíðina, þá hefur sambandið sterkari tengingu og möguleika á langlífi samkvæmt niðurstöðum úr rannsókn frá Gottman stofnuninni.
 
7. Virðing er algjört möst í öllum samskiptum og bara gerist af sjálfu sér í samböndum þar sem egóið hverfur og ástin hefur völdin, og þar munu aðilarnir upplifa að sterk tenging er til staðar og að þeir séu séðir, heyrðir, metnir og umvafðir umhyggju - svo það fer ekkert á milli mála hjá þeim hvort virðingin sé til staðar eða ekki.  
 
8. Að eiga gott kynlíf er auðvitað nauðsynlegt og ætti að byggjast upp þar til að báðum aðilum finnist þörfum þeirra mætt þar, og auðvitað á að gefa sér tíma í erli dagsins til að eiga þessar stundir algjörrar nándar tveggja aðila. Nándin í sambandi við hina einu sönnu ást er svo miklu meira en bara kynlíf. Það er þessi tenging við líkama, sál og anda sem þar verður til og þeir sem kynnast sinni einu sönnu ást munu vita muninn á casual kynlífi og kynlífi þar sem sterk tenging og nánd er ríkjandi. 
 
9. Hin eina sanna ást mun alltaf finna lausnir á ágreiningi og hlusta. Hún mun einnig vita að báðir aðilar eru að spila í sama liði í stað þess að vera eins og andstæðingar á vellinum (Liverpool/Man.United). Liðsheildin mun alltaf skipta þá mestu máli og þeir munu gera eins og allir góðir leikmenn gera. Þeir munu viðurkenna mistök sín þegar þau gerast og læra síðan af þeim og gera svo bara betur næst.
 
10. Samband af þessari einstöku gerð byggist á trausti, umhyggju, skuldbindingu og ást.
 
11. Báðir aðilar geta alltaf verið þeir sjálfir í sambandinu og þeim finnst eins og að þeir hafi alltaf þekktst ásamt því að þeim finnst sambandið ólíkt öllum öðrum samböndum sem þeir hafa átt.
 
12. Þeir eiga sameiginleg gildi og sýn fyrir framtíðina og vilja fyrst og fremst sjá hinn aðilann hamingjusaman öllum stundum!
 
Er það ekki dásamlegt þegar egóið hverfur svona gjörsamlega og velferð annars aðila verður  dýrmætari en allt annað?
 
 
Að mínu mati er það fátt sem er eins yndislegt og það að finna stað þar sem þú fellur inn eins og síðasta púslið sem fullkomnar myndina í heimsmyndinni þinni og njóta þess svo að horfa á fegurð þeirrar myndar. 
 
 
Þar til næst elskurnar,
xoxo
ykkar Linda
 
ps. 
Eins og alltaf er ég á mínum stað sem er einungis einni tímapöntun í burtu frá þér ef þú þarft á mér að halda.
 
 
Linda Baldvinsdóttir
Lifecoach, samskiptaráðgjafi og TRM ráðgjafi.
linda@manngildi.is
 
 
 
 
 
 
 
Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira