Við vinkonurnar áttum gott spjall um daginn og meðal annarra skemmtilegra málefna töluðum við um kynlöngun og breytingar á henni eftir að ákveðnum aldri er náð eða þeim aldri að vera "hundleiðinlegar sextugar gerandameðvirkar kerlingar" eins og við erum stundum kallaðar af yngri kynsystrum okkar í dag.
Í samræðum okkar vinkvennanna rifjuðum við upp sögur af þeim konum sem við ólumst upp með og ég man eftir samræðum á milli þeirra kvenna sem í mínu lífi voru þar sem rætt var um það hversu dásamlegt það yrði að geta farið að neita eiginmönnunum um kynlíf eftir að fimmtugsaldrinum væri náð og þær þá orðnar lausar við þessa "skyldu" sem þær dæstu mikið yfir. Þarna var ég ung kona að byrja lífið og fannst þær nú ekki beint smart þar sem kynlífið var mjög stór partur af minni tilveru á þeim tíma og ég átti nú ekki von á því að breyting yrði þar á frekar en aðrar ungar konur halda.
En er það virkilega þannig að við konur og kannski karlar líka verðum hálf dauð hvað varðar kynlöngun eftir ákveðinn aldur og ef svo er, hvers vegna þá?
Ég varð forvitin eftir þessar samræður okkar vinkvennanna og fór að kynna mér hvort eitthvað væri til í því að við værum frekar til í súkkulaði og Netflix en gott og gefandi kynlíf þegar vissum virðulegum aldri væri náð og viti menn, það eru ýmsar hormónatengdar ástæður fyrir því að súkkulaðið verður kynþokkafyllra en fallegur gullfallegur maður með sixpack þegar ákveðnum aldri er náð.
Það sem ég komst að við grúskið mitt fer hér á eftir og vonandi verður það til þess að meiri sátt myndist hjá þeim sem finna fyrir doða í þessum málum og þeim sem þurfa að hafa fyrir því að koma sér í gírinn annað slagið til að halda mökunum góðum.
Á ákveðnum aldri verða all miklar hormónabreytingar hjá okkur sem hafa mikil áhrif á kynlöngun og kynlífið en fram að þessum tíma sá náttúran sjálf um að halda okkur við efnið eða þar til við erum nánast að verða óhæf til að fjölga mannkyninu.
Þegar slaknar á okkur hvað kynlöngunina varðar þá fara aðrir hlutir að skipa okkur meira máli. Hlutir eins og góður matur, góður félagsskapur, áhugamál, friður og ró taka meira og meira rými í lífi okkar þó að við seem betur fer gjóum nú stundum ennþá daðrandi augum á hitt kynið.
En að ástæðunum:
Ef ég byrja á körlunum þá fara þeir svo sannarlega á sitt breytingaskeið og karlhormónarnir sem sjá um ris hjá körlum fer lækkandi. Ekki er þó vitað hversu mikið magn af karlhormónum þurfi að vera til staðar til að viðhalda eðlilegu risi og það veldur sérfræðingum svolitlum vandkvæðum að vita það ekki. Sumir karlar með lítið magn af testosterone karlhormónum eru í fullu fjöri á meðan aðrir með mikið af þeim eiga í erfiðleikum með að ná fullri reisn en þar geta komið til ýmsar ástæður eins og líkamlegt og andlegt ástand viðkomandi.
Í kringum fimmtugt eru líklega flest börn farin að heiman og menn og konur kannski aldrei fjörugri þar sem vitað er að lítil hætta er á þungun (ef konurnar eru komnar á breytingaskeiðið og blæðingar hættar) En á sama tíma eru kvenhormónarnir að minnka í líkamanum hjá konum sem aftur hefur áhrif á kynlöngunina og allskonar vandamál geta komið upp. Þurrkur í leggöngum, svitaköst, kvíði, aukin þyngd og svefnvandamál eru ekki líkleg til að auka á kynlöngunina og þó að andinn sé viljugur þá er líkaminn það kannski ekki þegar líðanin er ekki góð.
Samkvæmt John Hopkins stofnuninni tilkynna ca þriðjungur kvenna á breytingaskeiðinu um vandkvæði í kynlífinu. Kvartanirnar eru allt frá því að þær hafi bara ekki áhuga á kynlífi yfir í að þær fái ekki lengur fullnægingar. Að auki geta bæst við hinir ýmsu líkamlegu kvillar og veikindi sem fólk á þessum aldri finnur fyrir sem geta einnig dregið úr kynlönguninni.
Annað sem oft gerist á þessu aldursskeiði er að samlífið verður ekki eins ánægjulegt og það var áður vegna þessara vandamála eins og t.d. þurrks í leggöngum hjá konum og ristruflunum hjá körlum og þetta skilar sér líklega í þeim tölum sem sýna að 50 prósent kvenna á sextugsaldrinum stundar enn kynmök en á sjötugsaldrinum eru það aðeins um 27 prósent sem enn eru til í tuskið.
Ég á nú bágt með að trúa þessum tölum þar sem ég þekki nú nokkuð margar á þessum aldri sem enn eru í fullu fjöri, en kannski eru íslensku valkyrjurnar bara bestar í heimi í þessu eins og öllu öðru.
Eða leitum við kannski frekar leiða til að gera kynlífið ánægjulegra á þessu aldursskeiði en konur í öðrum löndum? Eða eigum kannski meiri nánd með mökum okkar, kaupum okkur kynlífstæki, Viagra og sleipiefni og nýtum allt það sem nútímatæknin býður uppá?
Hvað veit ég, en hitt veit ég að í flestum tilfellum má finna leiðir til að gera kynlíf ánægjulegt og þá er sama á hvaða aldri þú ert.
Sumum pörum finnst svo bara allt í lagi að þau séu ekki jafn fjörug og áður eftir fimmtugt, en njóta þess í stað betur að vera saman, hlæja saman og kúra uppi í sófa með kertaljós og músík á fóninum eða kjósa að taka góða göngutúra úti í náttúrunni fram yfir það að eiga mök. Og það má.
Svo eru það pörin sem vilja eiga gott og gjöfult kynlíf allt sitt líf og vita að það þarf að finna nýjar leiðir til að það geti orðið eftir ákveðinn aldur.
Þau gera sér grein fyrir að með aldrinum breytast hormónakerfin þannig að það verður erfiðara að ná fullnægingu þar sem blóðflæðið hefur breyst og nær ekki jafn auðveldlega til örvunarsvæðanna. Þannig að þau vita að það þarf lengri forleik og örvun á þau svæði þar sem dregið hefur úr blóðflæðinu til að fullnæging geti átt sér stað.
Að hafa góða orku, eiga góðan svefn, hreyfa sig og borða vel er lykillinn að góðu kynlífi eftir breytingaskeið beggja kynja þannig að við þessar hundleiðinlegu sextugu gerendameðvirku konur (og líklega jafn hundleiðinlegir karlar) höfum fullt af lausnum sem geta fært okkur gott kynlíf og ekki síður gott líf þegar tekið er tillit til þess að við höfum náð ákveðnum þroska og lítum lífið kannski öðrum augum en við gerðum fyrir einhverjum áratugum síðan.
En líklega höfðu þessar konur sem ég hlustaði á sem ung kona haft fullkomlega gildar ástæður fyrir því að hlakka til að setjast í helgan stein og losna undan þurrum leggöngum með tilheyrandi sársauka við samfarirnar. Það var kannski engin furða að karlinn væri litinn illu augnaráði ef hann vogaði sér að hrófla við þeim því að ekki voru miklar upplýsingar um málefnið á netinu á þeim tíma og líklega lítið um sleipiefni og kynlífstæki.
þannig að þær undu sér bara vel við sjónvarpið og súkkulaðið og hleyptu engum að sér nema þá í nokkurra metra fjarlægð og misstu þar með af því sem hefði getað orðið ánægjulegra kynlíf en þegar þær voru ungar með húsið fullt af börnum.
Að lokum langar mig að segja við okkur öll, njótum bara lífsins dag hvern og sættum okkur við að breyting í lífinu er líklega það eina sem er öruggt að muni eiga sér stað og já í þessum málum eins og mörgum öðrum, og við þurfum bara að læra að dansa nýja dansa eftir því hvernig takturinn í músíkinni breytist.
Þar til næst elskurnar mínar þá er ég bara einni tímapöntun í burtu ef þið þarfnist aðstoðar minnar við ykkar lífsins málefni.
Xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Lifecoach og samskiptaráðgjafi
linda@manngildi