Ég er búin að rekast á þó nokkra pistla að undanförnu þar sem farið er yfir gamla árið og margir eru þeir sem ætla sér að framkvæma eitthvað mun meira og merkilegra á þessu nýbyrjaða ári en því síðasta.
Það sem mér finnst þó stundum vanta í umræðuna um áramótaheitin er hinsvegar hver er ég? og hver ætla ég að vera sem manneskja á þessu ári? Ætla ég að vaxa og verða betri í því að vera ég eins og ég raunverulega er?
Flest okkar velta þessu lítið fyrir sér og margir hrista örugglega hausinn núna yfir þessari spurningu. Er ég ekki bara nóg eins og ég er hugsa þeir og get ég verið eitthvað annað en ég er - er það ekki verið að segja okkur stöðugt að við séum nóg eins og við erum?
Jú auðvitað erum við nóg eins og við erum, en erum við að vera það sannasta sem við erum í kjarna okkar?
Mér finnst stundum vanta töluvert uppá að við vitum hver við erum, og eins hvað við erum að gera okkur. Hvað er það sem fær okkur til að tikka?. Pælum við í því hvað við þurfum að opna fyrir til að lifa til full sem við sjálf? Gerum við okkur grein fyrir því þegar við yfirgefum okkur sjálf til að þóknast og falla inn í hópinn?
Og svo að ég spyrji okkur öll nokkurra samviskuspurninga sem gætu vakið okkur til betri vitundar;
1. Er sjálfstraustið að skína af þér þannig að enginn kemst hjá því að taka eftir þér? eða ferðu út í horn eða læðist með veggjum og lætur lítið á þér bera?
Ég tel að við eigum öll skilið að fá að skína og leyfa okkur að vera eins og við viljum vera og það að fara út í horn segir mér að þér finnist þú ekki vera jafningi hinna sem á svæðinu eru á einhvern hátt - og þá vantar uppá sjálfsmyndina og það hvet ég þig til að laga.
2. Veistu hvað þú vilt fá út úr lífinu? Alveg viss?
Margir halda að það sem þjóðfélagið segir okkur að vera sé málið, menntun, maki, hús og bíll sé toppurinn á tilverunni, og ferðirnar til Tene sé bónusinn. Auðvitað eru margir sem kjósa sér einmitt þetta en svo eru aðrir sem hugsa á annan hátt. Þeir þurfa oft að hafa mikið fyrir því að fá samþykki til að vera þeir sjálfir og gera það sem hjarta þeirra segir þeim (margir frumkvöðlar þekkja þetta vel) Ég hvet þó alla til að fara út úr þjóðfélagsboxinu ef þeir hafa þörf á því og bara missa heyrnina þegar gagnrýnisraddirnar hljóma allt um kring.
3. Veistu hversu mögnuð manneskja þú ert og megnug í raun ?
Veistu að enginn er með sama fingrafar og þú eða lithimnu augans og á þessu tvennu má þekkja hvern einasta einstakling í heiminum þrátt fyrir að við séum orðin 8 milljarðar. Það hlýtur að segja okkur að allir hafi sinn eigin tilgang hér á jörðu og hafi persónuleika sem á að leyfa sér að skína þrátt fyrir þessa leiðinda tilhneigingu okkar til hjarðhegðunarinnar. "Það sem gerir mig öðruvísi er það sem gerir mig að mér" (Grísli).
4. Nærðu í það sem þú ætlar þér að fá í lífinu eða leyfirðu lífinu bara að gefa þér brauðmolana sem falla af borðum annarra?
Þetta er allt of algengt að mínu mati og mér fannst alveg frábær setning frá Jóga birni eða" Ef þú veist ekki hvert þú ert að fara þá endar þú bara einhverstaðar". Það er allt of algengt að við nýtum okkur ekki að vera við sjálf og fara okkar eigin leiðir sem eru þó alltaf þær leiðir sem skila okkur mestu og færa okkur þá innri gleði sem við leitum flest ef ekki öll eftir.
5. Ertu það viss um hver þú ert og hvað það er sem þú hefur uppá að bjóða til að geta þolað nokkur nei áður en þú færð já?
Það þekkja það flestir sem hafa stigið út fyrir rammann sinn eða eru að sækja það sem þeir vilja að það eru nokkur nei á leiðinni að árangrinum. Það þekktu nokkrir frægir aðilar vel. Aðilar eins og Oprah, Katy Perry, Jim Carry, J.K.Rowling, Steven King,Bill Gates svo einhverjir séu nefndir fengu nokkra skelli og við vitum flest að þessir aðilar náðu fyrir rest því sem þeir ætluðu sér, og flestir þekkja þessi nöfn vel hvar sem er í heiminum. Svo ekki gefast upp á leið þinni og láttu ekkert taka frá þér ástríðuna sem þú hafðir í byrjun leiðarinnar. Draumar geta svo vel ræst.
6. Vita þeir sem umgangast þig nákvæmlega hver þú ert vegna þess að þú kemur til dyranna eins og þú ert klædd/ur hverju sinni?
Ertu traustur vinur og segirðu það sem í brjósti þér býr með virðingu þó fyrir tilfinningum annarra, og ertu alltaf þú sama hvort þú ert í kringum aðra en þá sem eru í innsta hring þínum? Ef ekki skoðaðu þá hvers vegna svo er. Við ákveðum á nokkrum sekúndum hvernig okkur líkar við fólk þegar við hittum það og við finnum hvort fólk er einlægt eða er að þykjast vera einhver annar en það er svo það borgar sig að skoða þessar spurningar vel.
7 Leyfirðu þér að vera kynvera?
Ef að þú ert kona sem þetta lest leyfir þú þér að vera í þeim kvenleika sem þig virkilega langar til að vera í, og leyfir þú þér að vera sexý þegar þig langar til þess? Tekurðu frumkvæði í kynlífinu þegar þig langar í það?
Já við þurfum einnig að skoða kynlíf okkar!
Við konur höfum í gegnum tíðina verið feimnar við að viðurkenna kyneðli okkar og ræða um það en það er þó að breytast sem betur fer. Við vorum bara góðu stelpurnar sem dreymdu um þennan fullkomna mann úr rauðu ástarsögunum, allt þar til fimmtíu gráir skuggar voru gefnir út og við opinberuðum áhuga okkar á kynlífi með því að kaupa þá bók í milljóna tali. Ég held líka að bæði kynin hafi meiri áhuga á aðilum sem vita hvað þeir vilja og þora að láta það í ljós.
8. Lifirðu samkvæmt gildum þínum eða sveiflast þú fram og aftur þar einungis til að þóknast öðrum og til þess að falla betur í hópinn?
Skoðaðu gildin þín vel því að þau segja þér hver kjarni þinn er og sýna þér þá heimsmynd sem þú hefur í huga þér. Til að nefna nokkur algeng gildi þá geta þau verið eitt af eftirtöldu; Þegar þú ætlar ekki að drekka í flotta drykkjupartýinu í vinnunni vegna þess að það hentar ekki þínum persónugildum, eða þegar þú vilt vera vegan vegna þess að þú elskar dýr. Þegar þú tekur svari þeirra sem minna mega sín eins og í einelti vegna þess að gildi þitt er að koma fram við náungann eins og sjálfan þig og svo framvegis.
9 Leyfir þú þeim sem þú umgengst að vera þeir sjálfir eða vilt þú stjórna lífi þeirra og framkvæmdum?
Algengt er að þeir sem líta ekki inn á við eða starfa í meðvirknigírnum reyni að stjórna og breyta öðrum en sjálfum sér þannig að ef þú finnur þörf á því að breyta heiminum í kringum þig en ekki þér sjálfri/sjálfum þá farðu inn á við og skoðaðu hvað þú ert ekki að horfast í augu við þar.
10 Ertu að umgangast fólk sem er hollt fyrir þig eða ertu með aðila í kringum þig sem draga úr lífsgæðum þínum með einhverjum hætti?
Öll mikilmenni heimssögunnar hafa haft vit á því að velja sér vini og samstarfsmenn vel því að þeir vita að á því byggist velgengni þeirra. Sumir segja að þú getir dæmt manneskjur eftir þeim 5 aðilum sem þeir umgangast mest og kannski er það bara rétt. Af þessu er mikilvægt að spyrja sig um gæði þeirra sem við erum í mikilli umgengni við ef við viljum hafa líf okkar eðal og fullt af glimmeri.
11. Tekurðu fulla ábyrgð á orðum þínum og gjörðum, alltaf?
Eitt af því sem gerir okkur að heilum manneskjum er það að við tökum ábyrgð á orðum okkar og gjörðum ásamt því að við erum manneskjur til þess að biðjast afsökunar á því sem miður fer. Algengt er að við förum að réttlæta hegðun okkar og orð en með því að gera það sleppum við lærdómnum sem fæst með því að horfast í augu við okkur sjálf og galla okkar. Við notum stundum gaslýsingar og passiva agressiva vörn eins og þá að segja að hlutirnir séu öðruvísi en hinn aðilinn veit að þeir raunverulega eru, og eins að hann hafi heyrt eða séð eitthvað vitlaust sem hann veit að er ekki rétt. Með því að nota slíka tækni erum við bæði virðingalaus gagnvart þeim sem fyrir okkur verða og eins lokum við á eins og fyrr sagði á lærdóminn sem felst í því að skoða sig á djúpan hátt.
12. Ertu hreinskiptinn og segir þitt?
Eða finnst þér betra að hvísla úti í horni um náungann eins og okkur flestum er allt of tamt að gera. Við höfum margt að segja t.d um stjórnmálamenn og menn í valdastöðum en fá okkar þora að segja það sem þeir meina í návist þeirra þó að hinsvegar sé afar auðvelt að setja ummæli við fréttir á samfélagsmiðlum. Þeir sem eru vissir um réttmæti sitt til tjáningar og hafa sjálfstraustið í lagi hika ekki við að segja sitt augliti til auglitis og fólk veit hvar það hefur þá aðila.
13. Kemurðu fram við aðra eins og þú vilt að komið sé fram við þig?
Gefurðu hlustun, sýnir virðingu og fegurð í framkomu þinni allri og vandar líf þitt á flestan hátt eða þann hátt sem þér finnst sæma þínum gildum? Er gildi þitt kærleikurinn og vinsemd? Tekurðu þátt í umræðum um annað fólk og hefur gaman af því eða gengur þú í burtu frá því vegna þess að það gerir þér ekki gott að tala um aðra? Allt eru þetta gildi sem eiga heima hjá okkur ef við viljum eiga líf sem bætir heiminn, svo hugsaðu vel um svörin þín þarna. Allar breytingar heimsins byrja hjá okkur sjálfum.
14. Leyfir þú þér að fara á dýptina í samræðum eða lokar þú á það vegna þess að það er of erfitt að horfast í augu við raunverulega tilfinningu þína eða skoðanir?
Sumir eiga mjög erfitt með að opna sig og finnst þeir jafnvel ekki nógu skarpir til að orð þeirra og skoðanir séu einhvers virði. En það eins og svo margt annað byggist á góðri sjálfsmynd eða í þessu tilfelli lélegri sjálfsmynd og jafnvel skort á trausti til náungans. Ekki að við eigum svosem að vera að opna okkur upp á gátt við hvern sem er, en að opna sig við þá sem eiga skilið að þekkja okkur á nánum grunni er nauðsynlegt ef við viljum verða gjörþekkt og elskuð eins og við raunverulega erum.
15. Stendur þú með þér eða ferðu út í horn þegar þú verður fyrir ásökunum eða öðrum leiðindum?
Sá meðvirki fer út í horn og lætur allt yfir sig ganga á meðan þeir sem vita virði sitt standa með sér og vita að þeir eru þess virði að fá virðingu í orðum og framkomu. Sá meðvirki vill ekki rugga bátnum eða vill halda hinum góðum á sinn eigin kostnað sem er grátlegt hreinlega. Þannig að ég segi eins og slagorðið hér um árið "stattu með þér stelpa" og bæti við það orðinu "strákar" Því að ef að þú stendur ekki með þér þá gerir það enginn annar.
16. Gefurðu þér klapp á öxlina þegar þú stendur þig vel og máttu gera mistök án þess að þú rakkir þig niður fyrir þau?
Hérna held ég að margir renni aðeins á rassinn því að enginn er eins dómharður við okkur og við sjálf. Við skömmum okkur fyrir minnstu mistök í stað þess að gefa okkur klapp á öxlina og fullvissum okkur að þetta gangi bara betur næst. Eins finnst okkur það vera mont að vera ánægð með verk okkar sem ég tel nú bara vera sjálfsmynd sem er í lagi. Mont er annað en að vita hvers við erum megnug og hvað við erum að gera gott, svo gerum greinarmun á þessu tvennu.
17. Kanntu að segja nei?
Ef þú ert sífellt að segja já við einhverju sem þú finnur innra með þér að ætti að vera stórt NEI þá ertu ekki þú í þeim tilfellum. Með þessu er ég ekki að segja að við gerum ekki eitthvað fyrir náunga okkar þegar eitthvað mikilvægt er í gangi og þegar okkur langar að gera einhverjum greiða þrátt fyrir að við nennum því ekki svo mikið á þeirri stundu. Þegar við hinsvegar segjum já og erum í pirringi yfir því, jafnvel sýnum þeim pirringinn sem við erum að gera greiðann þá erum við ekki í góðum málum. Segðu já þegar þú meinar já og finnur engan pirring yfir því og nei þegar þú meinar nei. Það bætir held ég öll samskipti eins og alltaf þegar þú ert bara þú og kemur frá hjarta þínu.
18. Skiptir það þig máli hvað öðrum finnst um þig og framkvæmdir þínar,útlit, eigur og fjölskyldu?
Þetta er eitthvað sem við sjáum um allt þjóðfélagið. Munið þið eftir því þegar allir þurftu fótanuddtækið eða Ittala glösin? Núna er það Airfryer og leirstellið sem ég man ekki hvað heitir, og þannig erum við. Hjarðdýr sem vilja lúkka vel og viljum sýna að við séum nú bara ansi góð þegar á allt er litið. Samfélagsmiðlarnir sýna glanslífið okkar en ekki brotnu fjölskyldurnar, hjónaböndin sem eru í maski, erfiðu börnin okkar eða gardínubyttuna í fjölskyldunni því að það lítur ekki nógu vel út á miðlunum. Þetta er líklega til komið vegna þess að álit annarra skiptir okkur meira máli en það að við séum við, og því þurfum við að breyta elskurnar ef við viljum vera það sem við raunverulega erum innst inn við hjartaræturnar.
Hvet okkur öll til að svara þessum spurningum af heiðarleika svo að við getum bætt okkur sjálf og lífið í heild.
Gleðilegt ár elskurnar mínar allar og takk fyrir það gamla, mætti það nýja færa okkur allt það besta og þar með bestu útgáfuna af okkur sjálfum. Og ef þig vantar aðstoð við leitina að þér þá er ég bara einni tímapöntun í burtu.
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Lifecoach og samskiptaráðgjafi
linda@manngildi.is