Núna eru nýafstaðnar kosningar á okkar fallega landi elds og ísa og vonandi að ró fari að komast á í þjóðfélaginu svo að við getum notið aðventunnar og hátíðarinnar sem framundan er.
Í aðdraganda kosninganna spáum við og spekúlerum í stefnu flokkanna og hverju hver og einn stjórnmálamaður stendur fyrir, og sitt sýnist hverjum um ágæti hvers flokks fyrir sig.
Okkar eigin gildi eru í raun það sem við erum að kjósa og við viljum að þeir sem við gáfum atkvæði okkar starfi samkvæmt þeim.
En hvað með okkur sjálf, erum við það ánægð með stefnu okkar í lífinu að við værum tilbúin til að setja X við okkur sjálf og gefa okkur þannig atkvæði?
Skoðum aðeins hvað fylgir því að við ákveðum að kjósa okkur sjálf í lífinu.
Að kjósa sjálfan sig í lífinu kallar á dýpri sýn á val okkar og sjálfsvirðingu hverju sinni og að framkvæma samkvæmt þeirri sýn sem innra með okkur finnst.
Það er semsagt samtal við sjálfið, þar sem við krefjumst skýrleika um það hver við erum, hvað við viljum og hvaða stefnu við ætlum að taka í hverju málefni fyrir sig og í raun snýst það um rætur okkar, viðhorf og hvernig við skiljum okkur sjálf í samhengi við aðra og heiminn allan.
Að velja sig krefst meðvitundar um hvað það er sem hefur áhrif á ákvarðanir okkar.
Er ákvörðun okkar byggð á ótta við að valda vonbrigðum, eða á löngun okkar til að vaxa og þróast?
Þarfir okkar og langanir spretta oft upp úr ómeðvituðum mynstrum sem við höfum alið með okkur frá barnæsku, eins og td löngun til að fá samþykki frá öðrum eða hræðslu við höfnun (að vera ekki nóg).
Þegar við kjósum okkur sjálf þurfum við að stíga út úr þessum mynstrum, horfa í spegilinn og spyrja: Er þetta val mitt núna byggt á kærleika eða á ótta?
Að velja sig þýðir einnig að við tökum fulla ábyrgð á afleiðingunum sem kunna að verða af þeim ákvörðunum eða vali sem við tökum í lífinu.
Það getur verið ansi erfitt á köflum sérstaklega þegar við þurfum að horfast í augu við mistök eða áskoranir sem eru afleiðingar af vali okkar, en það að taka þessa ábyrgð styrkir þó sjálfsmynd okkar og gefur okkur sjálfstraust inn í framtíðina, því við lærum og þroskumst af þeim verkefnum sem við tökumst á við.
Við þurfum að átta okkur á því að aðrir bera ekki ábyrgð á nokkurn hátt á hamingju okkar því að við sjálf höfum lykilinn að því hvernig við mótum líf okkar hverju sinni og sjálfsástin gengur út úr aðstæðum sem eru henni skaðlegar og ræna hana gleði.
Sjálfsástin er undirstaða alls þess sem við veljum og hún er ekki bara tilfinning heldur birtist hún í athöfnum okkar og vali. Hún birtist í því hvernig við hugsum um okkur dags daglega og hvernig við setjum okkur mörk eða leyfum öðrum að koma fram við okkur.
Sjálfsástin hvílir sig þegar hún þarf á hvíld að halda og hún segir nei við verkefnum sem eru á skjön við hennar þarfir og getu hverju sinni. Hún veit einnig að hún er verðug ástar, virðingar og tíma sama hvað öðrum kann að finnast um það.
Til að fullkomna val okkar á okkur sjálfum er mikilvægt að fara inn á við og stunda hugleiðslu, dagbókarskrif eða að dvelja í kyrrð til að hlaða batteríin og til að hjálpa okkur við að hlusta á okkar innri rödd sem oft verður hljóðlát í ys og þys daglegs lífs.
Þessi rödd sem leiðir okkur alltaf nær kjarnanum ef við bara hlustum, þar sem við getum spurt okkur spurninga og fengið svör. Spurningar eins og ; Hver er ég án allra titla og væntinga? Og hvað kallar hjarta mitt á í raun og veru? Hvað er rétt fyrir mitt líf núna? Og svo framvegis.
Þegar við kjósum/veljum okkur sjálf verður það sjáanlegt í hegðun okkar og framkomu. Í samskiptum förum við að tala af meira öryggi, krefjumst virðingar og sýnum öðrum virðingu án þess að fórna okkur sjálfum.
Við hættum að líta á líkama okkar sem sjálfsagðan hlut en förum þess í stað að hlusta á hann sem okkar besta vin í gegnum lífið. Við sýnum honum virðingu okkar með því að veita honum góða næringu, hreyfingu og hvíld, og ekkert er of gott fyrir hann. Við verðum einnig meðvitaðri um það hvernig við stjórnum streitu og spennu daglegs amsturs.
Við veljum frið í stað átaka þegar þess er kostur og við sækjum í gleði lífsins og þakklæti fyrir það góða sem það gefur okkur.
Að kjósa sjálfan sig er ekki eitthvað sem við gerum einu sinni, við þurfum að velja okkur aftur og aftur, alla daga en ekki á fjögurra ára fresti eins og í kosningum þeim sem nú eru ný afstaðnar.
Við veljum á hverjum morgni að fara inn í daginn með sjálfsmildi, skilning og virðingu að leiðarljósi sama hvað gengur á, og því oftar sem við kjósum okkur sjálf því dýpri verður sjálfsást okkar og lífið fer að spegla hana í öllum þáttum þess.
Mundu að þú ert leiðtoginn eða skaparinn í eigin lífi og situr uppi með val þitt og afleiðingar þess alla daga svo mundu að kjósa rétt fyrir þig í smáu sem stóru, því þannig skrifar þú söguna sem þú vilt lifa.
Og eins og ætíð er ég bara einni tímapöntun í burtu frá þér ef þú þarft aðstoð við stefnumótun lífs þíns.
Þar til næst elskurnar
Xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Lífsmarkþjálfi/Samskiptaráðgjafi
linda@manngildi.is