Nú er jólahátíðin rétt handan við hornið og mesti höfuðverkur minn fyrir öll jól núorðið er að vita hvað ég á að gefa hverjum og einum í jólagjöf þar sem mér finnst allir eiga allt.
Þegar ég er sjálf spurð um óskir mínar get sagt með sanni að í dag þrái ég mest að fá í jólagjöf samveru með mínum nánustu ásamt ást þeirra og umhyggju, og það væri meira en nægjanlegt- en er samt þakklát fyrir gjafmildi þeirra og umhugsun sem bíður mín í formi fallegra innpakkaðra pakka undir skreyttu jólatré.
Ég er spyr iðulega mína nánustu um óskir þeirra fyrir jólin og eins hlusta ég allt árið eftir merkjum um hvað það er sem þeim vantar, og stundum næ ég að slá í gegn með því sem í pökkunum frá mér leynist.
Allt árið er ég þó að gefa þeim það sem ég held að mestu máli skipti fyrir þau en það er að segja þeim hversu mikið ég elska þau og auðvitað að knúsa þau í hvert skipti sem við hittumst (unga fólkinu líklega til mikils ama),en það eru þær gjafir sem ég held að muni lifa lengst í minni þeirra.
En flestir eiga líklega í fórum sér óskalista fyrir jólin sem fullur er af allskonar glingri og skemmtun, draumum, vonum og jafnvel hlutum sem við teljum að gætu gert okkur hamingjusöm, - en er hægt er að pakka inn því sem við raunverulega þráum að fá í jólagjöf svona ef við leitum lengst inn í hjarta okkar?
Eru það raunverulega nýjustu tækin, flottustu fötin og húsgögnin sem við viljum, eða óskum við okkur einhvers sem engin leið er að pakka inn í skrautlegan jólapappír?
Við setjum kannski efnislega hluti á listann okkar þegar við erum spurð hvers við óskum að fá í jólagjöf, en ef við erum hreinskilin við okkur sjálf þá held ég að óskir okkar séu aðeins andlegri en það sem finna má í hillum verslana.
Kannski viljum við heldur fá tengingu við fjölskyldu og vini en fallega innpakkaða hluti í jólagjöf og kannski viljum við fá tíma til að njóta lífsins, eiga góða heilsu og eiga frið í hjarta okkar frekar en að fá fallegan vasa eða nýjan síma.
Ég tel að verðmætustu gjafirnar séu fólgnar í því að fá tíma og óskipta athygli einhvers sem við elskum, samtöl án truflana og augnablik þar sem nærumst saman í gleði.
Í aðdraganda jólanna er ein gjöf sem við ættum helst að gefa en hún er sú að taka frá tíma til að fyrirgefa, hvort sem það er að fyrirgefa öðrum eða okkur sjálfum- því að fyrirgefningin hefur töframátt fyrir huga okkar, sál og hjarta og hún sameinar fjölskyldur, vini og gefur okkur frið.
Tenging er okkur einnig mikilvæg og hefur sterk áhrif á hamingjustig okkar, ekki síst á hátíðum, og því væri það dásamlegt ef við gætum styrkt sambönd okkar við aðra, ræktað kærleikann og gefið umhyggju okkar án þess að ætlast til að fá eitthvað í staðinn.
Eins þurfum við að gefa okkur sjálfum leyfi til að hvílast, njóta og finna gleðina sem fæst með þakklæti og með því að meta einfaldari hliðar tilverunnar eins og fallegu jólabirtunnar og gleði í augum barna.
En hvernig sem óskir okkar eru vona ég svo sannarlega í það minnsta að listinn okkar þetta árið sé fylltur löngun til að gefa og taka á móti þeim gjöfum sem gera lífið innihaldsríkara, gjöfum eins og brosum, knúsum, kossum, samkennd og kærleika því að það eru gjafir sem verulegu máli skipta fyrir gæði lífs okkar.
Nýtum tímann og hugsum út fyrir rammann því að við getum gert svo margt gott á þessum árstíma.
Við getum td stutt við góðgerðarsamtök í nafni einhvers sem við elskum.
Við getum boðið upp á tíma og hjálp til þeirra sem þurfa á aðstoð að halda og við getum búið til handgerðar gjafir sem sýna að okkur er annt um þann sem þær fær.
Við getum einnig gefið loforð um að eiga gæðastundir saman með þeim sem einmana eru og tekið með þeim göngutúra, splæst í kaffi eða bara eiga stutt samtal við þá.
Við getum sett í umslag falleg orð til þeirra sem þættu vænt um að fá slíkt og við getum styrkt sambönd okkar og kíkt oftar á þá sem við elskum.
Hvað sem við gefum og gerum, höfum í huga það sem við vitum öll innst inni að skiptir öllu máli, en það er að láta engan vera einan á jólahátíðinni – því það á enginn að borða einn.
Og að lokum,
Hvernig væri að við spyrðum okkar nánustu að því hvers þeir þörfnuðust mest frá okkur sem ekki væri hægt að setja í umbúðir með slaufu á, og reyndum síðan af fremsta megni að verða við þeim óskum?
Því þegar allt kemur til alls er stærsta og mesta gjöfin sem við getum gefið og þegið kærleikur, fyrirgefning, hlýja og einlæg tenging við okkur sjálf og aðra.
Elskum í orðum og gjörðum og látum þessa hátíð ljóss og friðar lifa í kærleiksríku hjarta okkar og framkomu við náungann elskulegustu mín.
Sendi ykkur öllum mínar fallegustu óskir um Gleðilega jólahátíð og mikla farsæld og óteljandi blessanir á komandi ári.
Xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Lífsmarkþjálfi og samskiptaráðgjafi
linda@manngildi.is