c

Pistlar:

27. janúar 2025 kl. 11:42

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Finndu regnbogann og rammaðu hann inn

Þetta er setning frá konu sem ekki er lengur á meðal okkar, en þetta eru orð sem við ættum svo sannarlega að hafa í huga ef við viljum auka á hamingjustundir okkar í lífinu.

Hamingjan kemur eins og regnboginn í fögrum augnablikum en ekki í löngum tímabilum þó að okkur finnist það stundum, en ef við pælum í því þá vitum við að það er augnablikið sem skapar tilfinninguna um  hamingjuna en á sama tíma ýtti undir vellíðan okkar í framhaldinu ef við römmum hana inn. 

Augnablikin sem gefa okkur hamingjuna eru eins og regnboginn að því leiti að þau gefa okkur sömu tilfinningu og þegar við sjáum fallegan regnboga, við fyllumst tilfinningu fegurðarinnar, reynum jafnvel að komast undir regnbogann til að óska okkur hamingjuríkrar framtíðar og svo römmum við minninguna inn í minningabankann okkar.   

Núna í byrjun ársins erum við mörg að taka okkur í gegn andlega og líkamlega og ætlum okkur að ná af okkur jólasukk kílóunum, losa okkur við vonlausa makann og byrja nýtt tímabil heilsu og hamingju.

Að sjálfsögðu er nýr dagur og nýtt ár alltaf gjöf okkar og tækifæri á því að byrja á því sem við viljum breyta en hvað svo með framhaldið?

Erum við að búa til nýjan lífsstíl og nýtt líf eða er þetta bara fljótfærnisleg lausn sem á að kippa öllu í lag og veita okkur hina fullkomnu varanlegu hamingju og fullkomna líf?

Að mínu viti þurfum við að vera tilbúin til að finna úthugsaðar varanlegar lausnir í öllum tilfellum ef við viljum sjá breytingu á lífinu og þær lausnir taka tíma og fyrirhöfn. 

Það tekur 21 til 60 daga fyrir heilann okkar að mynda nýja venju, og svo þurfum við að halda henni reglulega við, þannig að kúrar og kúrsar eru ekki málið ef við viljum varanlega breytingu á einhverju sviði lífsins.

Breyting tekur tíma og að læra að hugsa á annan hátt tekur tíma, og spurningin er hver og hvernig vilt þú vera- og ná svo í það.

Erum við stundum að fórna td makanum í janúar án þess að huga að framhaldinu og þeim lífsstíl sem þeir sem einhleypu lifa, og ætlum við að ná af okkur aukakílóunum í hvelli og sukka síðan aftur?

Sælan sem við leitum að fæst ekki alltaf með því að taka kúrsa eða losa sig við makann heldur fæst hún með því að við breytum okkur sjálfum innan frá og út.

Sumir segja að það sé ekki hægt að kenna gömlum hundi að sitja (mynda nýjar venjur) en ég segi klárlega að þessi gamli hundur getur svo sannarlega breytt sér ef hann vill það og sýnir sjálfum sér þolinmæði á leiðinni að breytingunni. 

Ef þú ert ekki í sátt við þig í dag eins og þú ert á einhvern hátt þá þarftu að gera samkomulag við þig um að ná að verða sú eða sá sem þú vilt verða sama hvaða vinnu þú þarf að leggja á þig til þess að láta það verða að veruleika í stað þess að leita að enn einni skyndilausninni.

Við vitum flest að hugsunin er til alls fyrst þegar kemur að því að breyta venjum,framkomu, meðvirkni,samböndum, samskiptum, árangri og öllu öðru sem þarfnast breytinga og því þurfum við að virkja hana vel í breytingaferli okkar. 

Við virkum nefnilega þannig að hugsun okkar er til alls fyrst og hún kveikir á tilfinningum okkar sem svo verða að framkvæmdum okkar, og ef við ætlum okkur hlutina þá eru okkur engin takmörk sett ef við bara höfum fókus okkar og meðvitund á því að virkja hugsunina okkur til góðs.

Ég er stödd úti í Liverpool þegar ég skrifa þennan pistil og er að bjóða tíma í lífsþjálfun hjá verðlaunaðri líkamsræktarstöð sem heitir Limetless lifestyle wellness center. Mér finnst þessi stöð alveg frábær vegna þess að þar er talað um að það verði að finna út heildrænu ræturnar að vandamálunum áður en haldið er af stað í ræktinni sem mér finnst alveg brilliant hugmynd. því að það er þannig sem ég vil að þeir sem til mín koma í lífsmarkþjálfun vinni, eða út frá rótunum en ekki ástandi laufblaðsins. 

Ef við ætlum að finna okkar eigin regnboga og ramma hann inn þá er alveg á hreinu að það sem við ættum að keppa að er að finna okkar rætur og eigin innri frið ásamt því að finna styrk okkar og ást til okkar sjálfra.

En til þess að svo sé hægt ættum við að skoða vel hvað er ekki eins og við vildum helst hafa það og hvers vegna.

Við ættum að leita vel að skemmd á rótum þess sem við gerum og erum, eins og td. ef við erum meðvirk með einhverjum skoðum þá hvaðan það mynstur kemur.

Oft er rótin að því sú að við lærðum í æsku að halda frið, þóknast einhverjum í umhverfi okkar og við fengum hrós ef við vorum dugleg, kurteis og svo framvegis og það mótaði síðan framkvæmdir okkar.

Þannig að rótin að vanlíðan okkar liggur oft dýpra en við höldum og oft þurfum við að leita að samskiptamynstrum þeim sem við kynntumst í æsku til að finna hvar rætur okkar samskipta liggja.

Ef við gerum okkur grein fyrir rótum þess að okkur gengur ekki vel að ná jafnvægi á einhverjum hlutum lífsins þá er hálfur sigurinn unninn, og þegar við höfum fundið blessaðar ræturnar þá fyrst geta breytingar okkar orðið án allra takmarkana -  og það er það sem ég vil endilega að þið áttið ykkur á. 

Við getum tekið törn eftir törn í því að bæta okkur og líf okkar en farið svo í sama farið aftur, en það að halda stöðuglega áfram er það sem gefur okkur sigurinn að lokum því að þá höfum við byggt upp seigluna nauðsynlegu og styrkinn innra með okkur en það eru aðalefni árangurs á öllum sviðum lífsins.

Gleðilegt árangursár þó seint sé elskurnar, og þar til næst munið þá að ég er einungis einni tímapöntun í burtu. Saman getum við skoðað ræturnar þínar og fundið leiðina að því að ramma inn regnbogastundirnar í þínu lífi, og á síðunni minni manngildi á facebook má finna mörg frí verkefni sem geta komið þér af stað í áttina að breytingunni.

xoxo ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Lífsmarkþjáfi og samskiptaráðgjafi

linda@manngildi.is 

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira