c

Pistlar:

31. mars 2025 kl. 11:43

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Er sambandið þitt í hættu?

Í dag virðist mér það hafa aukist mikið að pör fari út að skemmta sér í sitt hvoru lagi og meira að segja ferðist sjaldan saman, heldur geri þetta allt saman með vinum og vinkonum og ég spyr mig hvers vegna hefur þetta breytst svona? Hver er ástæðan?

Er verið að leita eftir  saklausu frelsi eða er ástæðan sú að það er verið að skapa ómeðvitaða fjarlægð hvort frá öðru eða kannski tékka á því hvort eitthvað bitastæðara sé þarna úti?

„Ég ætla bara að fara út með stelpunum um helgina“ eða „ég ætla að fara á strákakvöld“ og það er ekkert mál eða?

Í fyrstu hljómar þetta allt svo eðlilega og auðvitað eigum við að geta haft okkar eigið líf og notið þess að gera hluti með vinum okkar – líka þegar við erum í sambandi. Fótboltaferðir, golfferðir, stelpuferðir allt er þetta í fínu lagi og eins að hittast í happy hour eða saumaklúbbnum, bókaklúbbnum eða hvað sem er svo sem.

En um djammið gildir svolítið annað lögmál og það eru ákveðnar hættur sem við þurfum að sjá skýrt hvað það varðar sérstaklega ef við viljum skapa djúpt og traust samband sem endist. Því að okkar dásamlega mannlega eðli og  ósýnilegu veiðitilburðirnir eru til staðar hvað sem við höldum annars fram um það.

Það er hluti af mannlegu eðli að leita eftir tengingu, samþykki, kynferðislegri spennu og viðurkenningu jafnvel þó við séum í föstu sambandi.

Við sjáum það í augnasambandi sem og líkamsstöðu sem við notum, eins hvernig við klæðum okkur og hvað við segjum (og segjum ekki) í félagslegum aðstæðum. Þegar við förum út á rólegu kvöldi með vinum þá er alls ekki óalgengt að einhver í hópnum sé að leita eftir spennu og því að fá áhuga frá hinu kyninu hvort sem það er meðvitað eða ekki.

Þegar við erum ein án makans þá opnast smá gluggi sem hægt er að nota til að daðra og kannski gera eitthvað meira sem var kannski alls ekki ætlunin í byrjun kvöldsins. Það gerist ekkert endilega vegna þess að við séum óheiðarleg eða tilbúin til að svíkja maka okkar heldur vegna þess að við erum mannleg.

Þegar ástin er fersk þá er það nú yfirleitt þannig að við viljum bara vera saman í flestu sem við gerum. Og flest okkar þegar við erum í  nýju í ástarsambandi eða þegar tengingin er sterk viljum vera með makanum helst öllum stundum og skapa minningar með honum. Við viljum hlæja saman, dansa saman, ferðast saman og prófa allskonar hluti saman og skapa þannig minningar sem bara við eigum saman.

En ef það fer að verða normið að gera nánast allt í sitt hvoru lagi hvað segir það þá um tenginguna og viljann til að byggja upp gott samband?

Er það raunverulegt frelsi sem við erum að leita eftir þegar við hittum vinina eða erum við að halda hvoru öðru í fjarlægð til að leita að nýjum fiskimiðum?

Það sem við gleymum stundum er að sambandið okkar er val okkar á hverjum degi og er alls ekki sjálfsagt að það sé til staðar til lengdar ef það er í síðustu sætum okkar og ef við snúum okkur ítrekað frá því  í stað þess að nálgast það meira og meira  þá óhjákvæmilega slokknar neistinn hægt og rólega.

Við verðum móttækileg fyrir áhrifum frá spennandi einstaklingum líka þegar við ætlum okkur það ekki ef við erum ekki í einhverjum af fyrstu sætum makans.

Fallegt augnatillit eða hrós frá ókunnugum getur hrært í okkur, sérstaklega ef við erum ekki að fá næga tengingu, nánd eða viðurkenningu heima fyrir. Við verðum ekki ónæm fyrir veiðitilburðum annarra bara af því að við erum í sambandi.  

Svo ég spyr, ertu að hætta sambandinu þínu með og er það orðið nánast aðeins á góðum vinanótum? Eruð þið að fjarlægjast hægt og rólega og er spennan farin? Deitin nánast horfin? Eruð þið hætt að senda eitthvað fallegt til hvers annars? Hvað með gjafir?

Ég hef því miður of oft séð annars ágæt sambönd fara í vaskinn vegna þess að traustið er brotið á djamminu og endað er uppi í rúmi með einhverjum sem alls ekki var ætlunin að enda með í byrjun kvöldsins, og ég veit að td jólaglögg í fyrirtækjum landsins var góður vettvangur fyrir það að fá athyglina sem okkur skorti heima og að endingu sáu fyrirtækin sig knúin til að hætta með þessi jólaboð því að hætta var á því að skilnaður yrði fyrir hátíðirnar vegna hegðunar fólks í makalausu glögginu.

Ástin þarf bæði rými og næringu. Hún þolir alveg að fólk geri hluti í sitt hvoru lagi annað slagið ef tengingin er sterk, sambandið traust og ræktað dags daglega en þegar það er orðið þannig að flest er gert með vinunum en ekki makanum þá er eitthvað þar sem þarf að skoðast vel.

En ef við látum frelsisþránna verða að undankomu frá nánd, trausti og samskiptum – þá erum við ekki að byggja upp samband sem byggt er á kletti (trausti) heldur erum við að byggja það á sandi og fyrsta aldan sem á því sambandshúsi brotnar mun verða til þess að sambandið endar á einhvern hátt sem ekki endilega var ætlunin að gerðist að djamminu loknu.

 

Þar til næst elskurnar,

XOXO

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdottir

Lífsmarkþjálfi og samskiptaráðgjafi

linda@manngildi.is

 

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira