Ég byrjaði árið svipað og í fyrra, með því að taka fyrstu vikurnar sykur- og hveitilausar. Nú hef ég tekið verkefnið upp á næsta stig og er komin á námskeiðið Ljómandi 13 hjá Þorbjörgu Hafsteins og ætla að reyna að massa þetta. Leyfi ykkur að fylgjast með hér!
Mætti galvösk og stundvíslega á fyrsta fyrirlestur á miðvikudaginn var og settist á fremsta bekk með penna og blokk í hendi. (Hef breyst í kennarasleikju á efri árum, annað en á unglingsárum þegar maður settist helst aftast!) Í salnum voru í kringum 30 konur og einn karlmaður. Greinilegt að konur eru duglegri að taka sig í gegn en námskeiðið snýst um að huga að hollu mataræði og er það auðvitað hið besta mál. Allir í salnum áttu að kynna sig lauslega og nefndu margar að það væri sykurpúkinn sem væri að gera þeim lífið leitt. En það virðist jú vera sykur í nánast öllu þessa dagana og nauðsynlegt að lesa vel innihaldslýsingar. Það leynist sykur í alls kyns vörum sem maður hélt alltaf svo hreinar!
Í hléi var ég auðvitað glorhungruð (enda kvöldmatartími) og fórum við niður í Yogafood á Oddsson þar sem námskeiðið er haldið. Þar valdi ég mér heilsusamloku sem var svo holl að það hálfa væri nóg. Brauðið var gróft (hveiti- og glútenlaust, ég veit ekkert hvað var í því!)og nánast svart og út úr þessu stóðu baunaspírur sem ég held að voru enn að vaxa. Mér fannst fyrsti bitinn ekkert góður en það undarlega var að þegar ég var kominn aðeins innar í samlokuna fór mér að finnast hún bara nokkuð góð! Vont en það venst eins og maður segir. En ég myndi svona að öllu gríni slepptu alveg borða hana aftur! Ég var södd og sæl eftir hana.
En alla vega, þá var fyrsta verkefni að taka út sykur, hveiti og allt glúten, rúg, hafra og allar mjólkurvörur, nema smjör og rjóma! Alvöru kúr! Ég hafði smá áhyggjur af kaffileysi en það var ekki eins slæmt og ég hélt. Þorbjörg sagði okkur að drekka smjörkaffi á morgnana en þá hitar maður kaffi og blandar við það í blandara, eina matskeið af smjöri og eina af kókósolíu (mæli með bragðlausri, annars er svo mikið kókósbragð af kaffinu). Nú, eftir 3 daga er ég farin að fíla þetta kaffi en þar sem Þorbjörg leyfir aðeins 1-2 bolla þá valdi ég auðvitað lang stærsta bollann sem ég á!
Það er alveg mesta furða hvað hægt er að velja góðan mat þrátt fyrir að sleppa mörgu sem maður er vanur. Um helgina til dæmis steikti ég nautakjöt og hafði með brokkóli og fékk mér smá slettu af bernaise sósu með. Það er jú bara smjör og egg í bernaise og það má! Svo er avókadó alltaf gott og svo saðsamt en mér finnst nóg að skera það í tvennt, kreista sítrónu yfir og salta. Þetta er lostæti og ekki verra að hafa linsoðin egg með og þarna er kominn góður hádegismatur.
Ég fór svo og keypti vítamín og alls kyns bætiefni sem voru á listanum. Keypti ekki allt en allt sem Þorbjörg sagði alveg nauðsynlegt. Nú gleypi ég fullt af töflum og drekk með því grænan ógeðisdrykk sem á víst að uppfylla grænmetisþörf dagsins. En þetta er ekki svo slæmt að maður komi honum ekki niður og mér skilst það sé hægt að blanda honum út í boost. Ég á eftir að prófa það.
Í gærkvöldi langaði mig ægilega í eitthvað sætt og fékk mér 3 litla bita af dökku súkkulaði sem ég keypti í heilsuverslun og er það sykurlaust en sættað með stevíu. Á eftir að spyrja foringjann hvort það sé leyfilegt. En ég afrekaði að fara í bío og sleppa poppinu! Sonur minn bað mig um að halda á pokanum sínum og ég var næstum búin að fá mér "bara eitt" en hætti við því eins og allir vita er ekkert hægt að fá sér bara eitt popp!
Mér skilst að eftir næsta fund verður matseðillinn aðallega í fljótandi formi! Það verður fróðlegt að prófa það! Mér líður a.m.k. ljómandi vel af þessu enn sem komið er. Þetta er áskorun og þá er bara að standast hana. Þetta eru jú bara fjórar vikur sem ég hlýt að lifa af! Og vonandi rennur eitthvað af manni í leiðinni þó það sé kannski ekki aðalatriðið. Mér finnst frekar aðalatriði að læra um hvaða matur gerir manni gott..... og reyna svo að tileinka sér það smátt og smátt.
Þá er bara að fara í afmæli í dag og horfa á hina gæða sér á sykruðum kökum!