c

Pistlar:

20. janúar 2017 kl. 16:28

Ásdís Ásgeirsdóttir (ljomandidisa.blog.is)

Miðlífskrísan nær hámarki

Miðlífskrísan mín er að ná hámarki þessa dagana. Enda líður senn að því að sá dagur rennur upp þar sem ég verð komin á sextugsaldurinn. Það ætti auðvitað að banna að kalla þetta sextugsaldur, en ég reyni að hugga mig við að „60 is the new 40“, þannig er þá ekki „50 the new 30“? Ég vona það. Ef ykkur finnst ég sjálfhverf í þessum pistlum þá er mér bara alveg sama. Ég er að reyna að sýna öðrum stuðning. Því það eru margir sem kannsast við miðlífskrísur, auka kíló hér og þar, hrukkur og grá hár,dapra sjón og ýmislegt fleira sem fylgir. Sumir díla við þetta með því að kaupa sér sportbíl eða fá sér yngri maka. Ég læt mér duga að tuða í ykkur. Og hamast eins og hamstur á hjóli í ræktinni, ét vítamín, bætiefni og grænt gras í bílförmum. Omega 3 fyrir heilann og veitir kannski ekki af. Allt til að halda í hratt dvínandi æskuljómann. Ég ætti kannski að sætta mig við þetta og fara að kaupa mér föt í Verðlistanum. Eða Lífstykkjabúð inni, en mér skilst reyndar að hún sé bara nokkuð smart. Ég heyrði það reyndar frá konu á mínum aldri. Nýlega fann ég nýja hrukku á efri vörinni. Hún leit út eins og djúp sprunga. Almannagjá jafnvel. En ég var jú að skoða hana í stækkunarspegli. Hver hannaði eiginlega þessa stækkunarspegla? Ég vil tala við þann mann! Það hlýtur að vera einhver masókismi hjá okkur konum að vera sífellt að skoða á okkur andlitið í þessum speglum. Eina vandamálið er að ef ég nota hann ekki til þess að mála mig, sé ég ekki neitt og myndi stinga maskaranum beint upp í augað á mér! Því það er auðvitað ellifjarsýnin sem er að hrjá mig líka.

Eftir að hafa verið rúma viku í sjálfskipuðu sykur- og hveitibindindi var ég mönuð á námskeið hjá næringarþerapistanum Þorbjörgu Hafsteins og beðin um að blogga um reynslu mína af þessu fjögurra vikna námskeiði. Mér fannst það nú ekki mikið mál og sá fyrir mér eitthvert lítið blogg neðst á Smartlandi sem líklega enginn myndi lesa nema miðaldra kellingar eins og ég. En nei, þar sem ég lá uppi í rúmi klukkan hálftíu eitt kvöldið, því auðvitað þarf kona á mínum aldri að fara snemma í rúmið,fékk ég skilaboð frá vinkonu: „Ekki vissi ég að þú værir á heilsunámskeiði, láttu mig vita hvernig gengur, ég þarf svo að missa 20 kíló.“ Ég skrollaði yfir á mbl.is og beint á Smartlandið og viti menn, þar blasti undirrituð við svo um munaði. Ég fékk hland fyrir hjartað. Andlitið á mér var þar smurt yfir forsíðuna, svo stórt að sást í svitaholur. Og yfirskriftin var: Langar að missa nokkur kíló fyrir fimmtugt.Jesús. Ekki nóg með að nokkrir miðaldra lesendur blaðsins, sem þennan pistil lesa, viti að ég sé að verða fimmtug og sé í krísu, nei, nú átti heldur betur að láta þjóðina vita! Takk Marta Smarta! Ég kemst aldrei á deit. Eigum við ekki bara að birta þetta í New York Times?

Ásdís Ásgeirsdóttir

Ásdís Ásgeirsdóttir

Ég er blaðamaður og ljósmyndari og skrifa í Sunnudagsblað Morgunblaðsins. 

Meira