Leiguverð hækkaði samkvæmt Þjóðskrá um rúmlega 2% á milli mánaða í Apríl á höfuðborgarsvæðinu. Þetta ætti ekki að koma á óvart. Ólíkt húsnæðisverði þá lækkaði leiguverð mánuðina eftir að Covid-19 skall á. Leiguvísitalan var til dæmis 204,5 í byrjun árs 2020 en aðeins 203,9 í júlí 2021.
Airbnb og þjónusta
Ástæðan er augljós; margar íbúðar sem áður voru á Airbnb skammtímaleigumarkaðinum fóru á almennan leigumarkað þegar að ferðamenn hættu að koma til landsins. Nú, þegar að ferðamenn eru aftur að koma í svipuðum takti og árin 2016-2017 þá fara margar leiguíbúðir aftur á Airbnb markaðinn og framboð fyrir venjulegt fólk á langtímaleigumarkaði fer aftur að minnka.
Auk þess fjölgar eftirspurn nú eftir leiguíbúðum því það þarf að þjónusta ferðamenn og þarf til þess erlent vinnuafl að einhverju leyti; fólk sem þarf sjálft á leiguíbúðum að halda.
Fyrirsjáanlegur raunveruleiki
Í nýlegri grein, Þú veist ekki hvaða húsnæði þú ferð í næst, kemur fram að óöryggi fólks á leigumarkaði hjaðnaði lítt við aukið framboð á leiguhúsnæði á Covid tímum. Flestir viðmælendur sem fjölluðu um málið sögðust vita að það væri skammgóður vermir. Slíkt er nú að koma á daginn. Þar sem að húsnæðisverð og leiguverð hefur almennt mikla samfylgni þá er líklegt að leiguverð hækki mikið næstu mánuðina.
MWM