c

Pistlar:

11. febrúar 2013 kl. 11:12

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Arabíski veðhlaupahesturinn viðrar pónýhestinn

nike_tiska.jpgRétt eftir áramótin endurheimti ég vinkonu mína eftir nokkurra ára Bandaríkjaútlegð. Þó að það sé auðvelt að vera í sambandi við fólk úti um allan heim með nútímatækni jafnast ekkert á við að sitja augliti til auglitis. Okkar fyrsta verk eftir heimkomuna var að halda aðalfund þar sem farið var yfir málefni líðandi stundar og í leiðinni var farið yfir gömul skjöl og kveikt í þeim. Á aðalfundinum var minning J.R. Ewing heiðruð og af því tilefni var boðið upp á hressandi drykki til að létta fundarstörfin. Jákvæðnin og gleðin var við völd sem gerði það að verkum að þegar New York-gellan vinkona mín stakk upp á því að við tvær myndum stofna skokkklúbb fékk hún að sjálfsögðu jákvætt svar.

Daginn eftir vaknaði ég til að fara í vinnuna, svolítið lúin eins og getur gerst þegar taktar J.R. Ewing eru leiknir eftir í miðri viku. Seinni partinn hringdi síminn og ég var spurð að því hvort ég væri komin í hlaupafötin því fyrsti fundur skokkklúbbsins væri framundan. Ég svitnaði bara við tilhugsunina því nú kemur játning: ég fór nánast óhreyfð í gegnum 2012 ef pappakassaburður í 10 cm hælum, hlaup á eftir óhlýðnum 3 og 6 ára drengjum og stöku túrar með ryksugu yfir 230 fm flöt eru frátaldir.

Það að vinkona mín skyldi velja mig með sér í skokkklúbb sýnir dálítið hvar hún er stödd í lífinu því það að draga mig með sér kemur frekar vel út fyrir hana. Hún er eins og arabískur veðhlaupahestur á meðan ég er svona meira eins og lítill bleikur pónýhestur. Á fundum skokkklúbbsins dregur arabíski hesturinn pónýhestinn á eftir sér og þarf sá síðarnefndi að hafa sig allan við ef hann á ekki að dragast aftur úr. Fljótlega komst ég að því að staðalbúnaður tveggja barna móðurinnar í 108 fyrir útihlaup var alls ekki í takt við hlaupabúning hinnar nýheimfluttu New York-drottningar. Meðan hún skartar samstæðum íþróttafötum og er alltaf í nýju dressi í hvert skipti er ég svona meira eins og Ingjaldsfíflið með lopahúfu og í allt of litlum hlaupajakka (hann passaði einu sinni!!!).

Ég veit vel að þið lesendur trúið þessu náttúrlega ekki, en svona getur raunveruleikinn verið súr. Ég ætla samt að bæta úr þessu því það er betra að vera í réttum búnaði því maður hægir svo ógurlega á sér þegar maður er alltaf að laga sig, toga bolinn niður fyrir rass og svona, á hlaupum.

Hlaup eru ekki tískusýning en það skiptir máli að manni líði vel á þeim og þá kemur réttur búnaður eins og himnasending. Hlaup hreinsa hugann og styrkja hjartað. Ef markmiðið er að verða einhvern tímann 100 ára og halda uppi stuðinu á Hrafnistu-barnum þá þýðir ekkert að sitja bara í sófanum...