Frú Katrín var klædd í ljósbláan kjól með kremhvítum doppum þegar hún fór með frumburð sinn heim. Hnésíði blái kjóllinn var tekinn saman undir brjóstum og við kjólinn var hún í ljósum sandölum með fylltum hæl. Hárið var blásið á fullkominn hátt með örlitlum krullum í endana eins og er svo ógurlega móðins núna. Þegar rýnt er í myndirnar sést að frú Katrín var svolítið þreytt – þreytt en alsæl.
Ég þekki þetta vel, enda vann ég sjálf töluvert með bláa og hvíta litapallettu þegar ég fór heim með son minn úr Hreiðrinu í júlí 2009. Röndótt blá og hvít peysa úr sænska móðurskipinu H&M gerði góða hluti þegar við yfirgáfum spítalann en því miður man ég alls ekki í hverju ég var að neðan því það sést ekki á myndinni.
Í stað þess að blása hárið var því smellt í tagl og vegna sólbrúnku var móðirin algerlega ómáluð þegar hún yfirgaf spítalann.
Auðvitað brosti móðirin hringinn þrátt fyrir að hafa lítið sem ekkert sofið nóttina eftir fæðinguna. Það var ekki vegna þess að drengurinn hafi verið svo óvær heldur vegna þess að móðirin var svo hátt uppi eftir fæðinguna. Það að eignast barn á náttúrulegan hátt – án þess að láta mænudeyfa sig, anda að sér glaðlofti eða nálastinga sig er magnaðasta tilfinning sem hægt er að upplifa ... allavega þangað annað kemur í ljós.
Ekki er vitað hvernig fæðing Georgs Alexanders Loðvíks gekk, en eitt er þó víst að móðirin glóði eins og demantur eftir fæðinguna og síðan þá hefur erlenda pressan logað. Blaðamönnum úti í hinum stóra heimi þykir merkilegt að frú Katrín hafi sýnt hvað hún var ennþá „magamikil“ daginn eftir fæðinguna. Hún átti náttúrlega að troða vömbinni í aðhaldsbuxur og fela magann með „réttum klæðaburði“ til að misbjóða ekki heimsbyggðinni ... eins og kóngafólk gerir.
Á augnablikum sem þessum rifjast það upp fyrir mér hvað ég er heppin að vera kona þrátt fyrir launamun kynjanna og allt það. Heppin að hafa fengið að upplifa það kraftaverk að koma börnum í heiminn. Þótt karlpeningurinn skilji það ekki, og muni líklega aldrei gera, er mun erfiðara að koma krakka í heiminn en að búa hann til. Það þýðir ekkert að þræta um þetta – ég tala af reynslu ...