c

Pistlar:

1. júní 2014 kl. 13:51

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Lífið á snúrunni

Kvenpeningurinn er upp til hópa mjög upptekinn af því að líta vel út og í mörgum tilfellum skiptir engu máli hvað það kostar. Það að vera svolítið upptekinn af útlitinu hefur ekkert með stétt eða stöðu að gera þótt tískustraumar hins eftirsótta útlits séu mismunandi. Það fer nefnilega alveg eftir kreðsum fyrir hverju snobbað er (útlitslega). Í sumum hópum þykir brúnka eftirsóknarverð á meðan aðrar kreðsur snobba fyrir rándýrum kremum og vinna þannig með förðunarvörur að það sjáist ekki að viðkomandi sé farðaður heldur líti út fyrir að fá alltaf átta tíma svefn. Svo eru enn aðrar sem gera ekkert annað en að býsnast yfir útlitinu og hvað það sé í miklu hakkabuffi en gera ekkert í því að reyna að bæta það. Reglulega sér maður svo konur sem hafa bara gefist upp... og þá er ekkert annað til ráða en að fylla bara vel á tankinn í sjoppunni og fá sér stærri flíspeysu.

Það sem er merkilegt þegar neyslumunstur kvenna í heiminum er skoðað er að kvenpeningurinn er til í að eyða miklu meiri peningum í að líta vel út en vera heilsuhraustur.

Það sem kemur samt alltaf jafnmikið á óvart er hvað konur fara oft illa með sig án þess kannski að gera sér fyllilega grein fyrir því. Okkur hættir til að sofa ekki nóg, borða allt of mikið af sætindum, hreyfa okkur of lítið, eiga í vondum samskiptum við aðra og svo má ekki gleyma því að við drekkum oft og tíðum allt of mikið af víni. Auðvitað koma reglulega einhverjar rannsóknir (sem eru líklega kostaðar af vínframleiðendum) sem „sanna“ það að eitt rauðvínsglas á dag geri okkur ekkert nema gott. Það má samt alveg velta hollustu áfengisdrykkju fyrir sér sér. Ef við drekkum til dæmis eitt vínglas á dag nær líkaminn aldrei að hreinsa sig – lifrin fær aldrei hvíld. Varla getur það talist gott fyrir okkur!

Milli tvítugs og þrítugs skiptir áfengisneysla kannski ekki öllu máli. Fólk staupar sig um helgar og það þykir ekkert tiltökumál. Þessi markhópur getur jafnvel tekið tvistinn eða þristinn án þess að viðkomandi beri þess merki. Eftir þrítugt fara hins vegar áhrifin að sjást mun betur og eftir fertugt er hægt að sjá það langar leiðir hvaða konur drekka of mikið og hverjar ekki.

Vikuleg áfengisneysla framkallar þrota í andliti og ljóminn í augunum minnkar (þetta á við um bæði kynin). Þá er alveg sama hversu mikið við setjum af „frískandi“ augndropum í augun á okkur og hvað við berum á okkur fín krem. Áfengisneyslan skín alltaf í gegn. Þær sem eru hins vegar á vodkakúrnum taka náttúrlega ekki eftir neinu – þokan er svo mikil að þær sjá ekki heildarmyndina.

Nú halda örugglega einhverjir að ég hafi verið að koma úr meðferð og sé frelsuð. Ég get glatt ykkur á því að svo er ekki. Ég hef hins vegar oft prófað að taka þurrkatímabil þar sem ég drekk nánast ekki neitt í marga mánuði og svo koma ógæfutímabil inn á milli þar sem lífið kallar á aðeins meira vodka. Í öllum tilfellum líður mér miklu betur og lít skár út þegar tappinn er í flöskunni. Þegar tappinn er í flöskunni er aldrei mánudagur.

Lærdómurinn af þessu öllu er að lífið verður bara svo miklu innihaldsríkara og betra þegar lífsblómið er vökvað með sódavatni – ekki vodka. En af því áfengisdrykkja er svo mikil stemningshegðun hef ég lært að tala helst ekki um það þegar ég er á snúrunni. Flestir eru nefnilega svo uppteknir af sjálfum sér að þeir taka ekki eftir umhverfinu og alls ekki hvað hinir í kringum þá eru að drekka. Skál!