c

Pistlar:

24. júní 2014 kl. 22:04

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Er ennþá heimild á kortinu?

Ást mín á alvöru „outlettum“ í útlöndum er takmarkalaus. Þá er ég ekki að tala um outlet sem selja staflana af fjöldaframleiddum gallabuxum eða eru með íþróttaföt uppi um alla veggi heldur outlet sem selja alvöru góss. Þegar ég segi „alvöru góss“ þá er ég að meina vörur frá flottustu tískuhúsum heims úr eðalefnum og með fáguðu sniði.

vallee-village 

Þannig er nefnilega mál með vexti að alvöru tískuhús gera alltaf ráð fyrir að selja mun meira en þau gera í raun og veru og því verður alltaf smá afgangur og honum þarf að koma í verð. Verðið á öllu fínerínu er því oft bara brot af upphaflega verðinu, sem réttlætir auðvitað öll þessi kjarakaup. Tók enginn kúrsa í Hagfræði 101 eða eitthvað?

Minn nördalegi áhugi á outlettum hefur dregið mig á marga skemmtilega staði í gegnum tíðina og oft hef ég lent í ævintýrum á þessum ferðum mínum sem hafa nú aldeilis kryddað tilveruna.

Áður en ég fór í fyrsta skipti til Ítalíu hitti ég góða vinkonu mína sem hafði búið í landinu í þó nokkurn tíma. Hennar fyrsta verk var að kynna mig fyrir The Mall, sem er við gamla þjóðveginn sem liggur í gegnum Toskana á Ítalíu. (Heimilisfangið er: Via Europa 8, 50060 Leccio, Reggello, fyrir þá sem verða að komast þangað strax á morgun).

Í þessu outletti hef ég keypt alls konar fínerí í gegnum tíðina frá Prada, Gucci og Marni. En þar er að finna góss frá öllum helstu tískuhúsum þessa hluta Evrópu, eins og YSL, Pucci, Roberto Cavalli og Fendi. Það sem ég hef keypt í þessum ferðum mínum hefur verið notað upp til agna og gott betur. Eina eftirsjáin er eftir því sem ekki var keypt... en það er allt önnur saga.

Þegar ég gekk með frumburð minn árið 2006 fór ég með vinkonu minni í húsmæðraorlof til Ítalíu (eins og allar virðulegar litlar frúr gera). Á einhverju augnabliki ferðarinnar áttaði ég mig á því að ökuskírteinið hafði orðið eftir heima, sem setti allt í uppnám hjá ungliðahreyfingunni. Um stund leit út fyrir að litlu frúrnar kæmust ekki í The Mall vegna bílleysis. Þær dóu þó ekki ráðalausar, heldur hringdu heim í þáverandi eiginmann undirritaðrar, sem áttaði sig á vandamálinu á núlleinni og sendi ökuskirteinið með hraðpósti... eins og allir alvöru gæjar myndu gera.

Í ákveðinni kreðsu sem ég tilheyri er töluvert rætt um „alvöru góss“. Þegar ég sagði vinkonu minni að ég væri á leið í litla Parísarferð tók hún andköf og sagði: „Þið verðið að fara í La Vallée Village. Þetta er bara 40 mínútur fyrir utan París.“

Á núlleinni var ég búin að finna út hvaða góss væri fáanlegt á La Vallée Village og hvernig væri best að komast þangað. Þegar La Vallée Village-dagurinn rann upp blés ég hárið, klæddi mig í kjól og setti á mig varalit.

Guggur í teygðum kvennahlaupsbolum og með lendatöskur fá nefnilega ekki afgreiðslu í þessum verslunum sem selja svo fína kjóla að þeir eru læstir við slárnar. Það borgar sig því að skarta sínu fínasta og treysta svo bara á að það sé ennþá heimild á kortinu þegar kemur að því að borga...