Mér finnst alltaf jafngaman að fara í almennileg tískupartí og fílaði mig því í botn innan um alla tískuelítuna sem mætti í 60 ára afmæli Lindex í Gautaborg. Hátískuhönnuðurinn Jean Paul Gaultier var stjarna partísins en með honum í för var fyrirsætan Karen Elson. Elson hefur setið fyrir hjá þekktustu tískuhúsum heims eins og Roberto Cavalli og Lanvin og verið andlit Opium frá YSL svo eitthvað sé nefnt. Þegar þau mættu saman í partíið eftir tískusýninguna, sem fram fór fyrr um kvöldið, hópuðust partígestir að þeim. Þó ekki til að ná af þeim tali heldur til að dúndra í eins og eina góða „selfie“ af sér og þeim.
Í allri fótósjoppmenningunni finnst mér alltaf áhugavert að hitta fólkið í glanstímaritunum augliti til auglitis. Að sjá andlitið án þess að einhver fótósjopp-frændi sé búinn að afmá öll persónuleg einkenni er gaman. Stundum eru það vonbrigði að sjá glanstímaritafólkið augliti til auglitis og átta sig á því að þetta fólk er bara eins og ég og þú. Það voru hins vegar engin vonbrigði að sjá Elson – hún var jafnvel ennþá fegurri augliti til auglitis en á mynd. Það skal tekið fram að hún var reyndar ekki ómáluð en fegurðin og heilbrigðið leyndi sér ekki.
Ég fékk svipaða tilfinningu þegar ég hitti Marc Jacobs í partíi í Lundúnum. Það kom mér á óvart hvað hann var með heilbrigða og fallega húð. Eftir að hafa ýmsa fjöruna sopið veit ég að það er bara eitt sem getur framkallað ljómandi húð og það er gott mataræði (með fullri virðingu fyrir öllum heimsins bestu snyrtivörum). Þá er ég ekki að tala um að lifa á próteindufti og gervisætu heldur borða hreinan mat, sleppa sykri, mjólkurvörum, hveiti og drekka nánast aldrei. Með þessu næst að framkalla allt sem fótósjopp getur ekki gert – búið til útgeislun og kemistrí...
Í svona partíum hef ég unun af því að skoða klæðaburð partígesta. Og ég skal alveg játa að mér finnst áhugavert að sjá hverjir snobba fyrir hverju. Eftir að hafa grandskoðað klæðaburð skandinavísku tískupæjanna kom það mér töluvert á óvart hvað það voru margar í Valentino-gaddaskónum. Mér finnst þessir gaddaskór mjög flottir en held ég myndi aldrei tíma að kaupa mér þá. Þegar ég kaupi mér eitthvert fínerí hef ég það sem óskráða reglu að góssið þurfi að endast út ævina og ég geti mætt í því á Hrafnistu. Með það fyrir augum væri aldrei hægt að taka umræðuna um Valentino-skóna.
Það er hins vegar allt annað upp á teningnum þegar Chanel-töskur eru annars vegar enda fengu nokkrar slíkar að fara með í 60 ára afmælið. Það er töluvert rætt um Chanel-töskur heima hjá mér og vondu fréttirnar eru að það er alltaf sama manneskjan sem hefur máls á umræðuefninu. Fyrirlesturinn „bættu smá Chanel í líf þitt“ er orðinn álíka þreyttur og frasinn „þetta er nú svolítið 2007“ en hann gengur út á nauðsyn þess að slíkur gripur verði keyptur inn á heimilið. Fyrir þessu er skilningur upp að vissu marki en málshefjandinn hefur þó nokkrum sinnum þurft að svara nokkrum óþægilegum spurningum sem tengjast fyrrnefndu veski. Sá sem ekki á Chanel-tösku getur nefnilega ekki svarað því hversu mikið hamingjan myndi aukast ef gripurinn yrði keyptur. Og málshefjandinn hefur líka þurft að rökstyðja það að Chanel-taskan sé ekki leið til að fylla upp í tómarúm í hjartanu. Að
þurfa að útskýra það hvers vegna undirrituð þarf nauðsynlega að eignast franskt veski er ekki hægt að rökstyðja með útreikningi í exel-skjali því þetta er tilfinningamál...