Þegar ég steig af hjólinu og fór að horfa í kringum mig áttaði ég mig á því að ég var alls ekki klædd í samræmi við ráðandi tískustrauma hjá heitustu New York-skvísunum. Ef ég hefði átt að vera alveg „all in“ í New York-tískunni hefði ég auðvitað verið með hatt á höfðinu, stór sólgleraugu, einhverja súperflotta merkjavörutösku með gullbandi sem ég hefði slengt utan um mig. Svo hefði ég klæðst dragt og verið jafnvel í stórri kápu yfir eða loðvesti úr gerviefni. Við herlegheitin hefði ég auðvitað verið í flatbotna „hestastígvélum“ með gullsylgju á.
Auðvitað hefði ég masterað þetta allt ef ég hefði ekki verið á hjólinu ... Það að vera á reiðhjóli kallar á allt annan klæðaburð. Það er til dæmis alveg glatað að hjóla í háhæluðum skóm, þó ég hafi auðvitað prófað það, og svo er alveg vitavonlaust að hjóla með hatt ...
Fyrir svona spariguggu eins og mig, sem notar einkabílinn sinn tæknilega séð sem úlpu og myndi aldrei geta lifað daginn af í Reykjavík án hans, er þetta dálítið ný upplifun. Að þurfa að klæða sig eftir veðri og vindum er heilmikil áskorun.
Það er lítið mál að rata um stræti New York borgar á reiðhjóli en það getur versnað í því þegar komið er inn í önnur hverfi. Einn daginn í stórborginni ákvað ég að hjóla til vinkonu minnar sem býr í Brooklyn. Hún sendi mér leiðbeiningar og lagði ég af stað full sjálfstrausts og komst á leiðarenda eins og alvöru New York gugga. Var meira að segja á undan áætlun sem kom vinkonu minni stórlega á óvart.
Það versnaði þó í því á heimleiðinni. Ég hélt að það væri lítið mál að fara bara sömu leið til baka en eitthvað klikkaði á leiðinni og þegar ég var ekki búin að skila mér heim á hótel á réttum tíma var farið að undrast um mig. Þá var ég komin hálfa leið út á JFK, hafði beygt í vitlausa átt, eins og einhver brjálæðingur var ég því hjálmlaus á hjóli í myrkrinu. Sem betur fer á ég góða að og var leiðbeint í gegnum símann.
Þegar heim var komið blasti við mér frétt um að sænska fyrirsætan Anna Maria Moström, sem tók þátt í Americas Top Model 2005, hefði látist í reiðhjólaslysi í New York í síðustu viku. Hún var keyrð niður af strætó þar sem hún hjólaði um hjálmlaus.
Eins gaman og það er að hjóla um stræti stórborgar þá er það á sama tíma hættulegt. Og eins og svona konum eins og mér finnst leiðinlegt að vera með einhvern búnað á hausnum sem klessir niður á manni hárinu þá verður maður að horfast í augu við það að stundum þarf stællinn að víkja fyrir almennu öryggi. Saga Önnu Mariu ætti að gera það ...