Ekki grunaði mig að Beyoncé Knowles sjálf myndi mæta til Íslands rétt fyrir jól til þess að halda upp á afmæli eiginmannsins, tónlistarmannsins Jay Z. Og af því maður þarf náttúrlega alltaf að tengja allt við sjálfan sig þá fannst mér þetta táknrænt. Að hún væri bara mætt á hjara veraldar, á sama tíma og ég hef lagt allt undir (...eða svona næstum því) til að verða jafngóður dansari og hún. Nánast allt 2014 hef ég dansað vikulega við tónlist Beyoncé þar sem Beyoncé-kennarinn, Sigríður Ásgeirsdóttir, hefur lagt mikinn metnað í að reyna að kenna okkur húsmæðrum landsins að tvörka og hrista lærin eins og enginn væri morgundagurinn. Hefur þessi kennsla farið fram fyrir luktum dyrum Kramhússins þar sem konur sameinast í dansi og gleði og hleypa kynverunni út.
Mín fyrstu viðbrögð voru náttúrlega að Beyoncé hefði frétt af dansæði íslenskra húsmæðra og væri hingað komin til að líta dýrðina augum. Mögulega væri nýr frami í uppsiglingu. Beyoncé hefði án efa orðið svo yfirnáttúrlega hrifin þegar hún hefði séð danstakta húsmæðranna að hún hefði ráðið danshópinn eins og hann leggur sig í vinnu sem dansara. Íslensku húsmæðurnar hefðu í framhaldinu lagt allt sitt til hliðar til að geta ferðast með Beyoncé og hennar krúi heimsálfa á milli í einkaþotum...eða kannski bara hljómsveitarrútum (við hefðum alveg sætt okkur við það). Og íslensku húsmæðurnar myndu slá svo rækilega í gegn að um þær yrðu gerðar heimildamyndir og ég veit ekki hvað. Á einhverjum tímapunkti hefðum við þurft að gera það upp við okkur hvort þetta væri raunverulega það sem við þráðum heitast, að vera fjarri heimahögum til að sýna heimsbyggðinni danshæfileikana í sokkabuxum og sundbol.
Svo kom bara í ljós að hún hafði engan áhuga á að hitta okkur, trylltu húsmæðurnar, heldur vildi frekar vera í friði í heilsárshúsi Jóa í Múlakaffi við Úthlíð.
Við sem höfðum lagt þetta allt á okkur og ekki bara mætt samviskusamlega til að læra sporin heldur klætt okkur upp.
Já, já, maður er nú aldeilis búinn að leggja sitt af mörkum. Búin að fjárfesta í sokkabuxum til að klæðast undir dansbolinn, sem keyptur var samviskusamlega til að lúkka nú örugglega nægilega vel á meðan á danskennslunni stæði. Svo voru gömlu dansskórnir, sem ég notaði í samkvæmisdansa 12 ára gömul, dregnir fram og var álagið svo mikið á skóna að það þurfti að fara með þá til skósmiðs á dögunum til að gera þá upp fyrir næstu vertíð.
Þó svo að Beyoncé hafi ekki haft neinn áhuga á að hitta okkur þá skiptir það engu máli því það sem ég lærði á þessum danstímum er hvað það er mikilvægt að eiga áhugamál. Gera eitthvað einu sinni í viku sem er ekki í líkingu við neitt í lífinu. Það að mæta í dansinn vikulega hefur bara eitt markmið og það er að hafa gaman.
Þegar mikið gengur á í tilverunni er svo gott að eiga skjól þar sem öll heimsins vandamál eru skilin eftir heima og þegar danstíminn er búinn flæða gleðihormónin um líkamann.
Það eru eflaust einhverjar að hugsa um komandi áramótaheit og við þær konur vil ég bara segja, prófið eitthvað nýtt og gerið eitthvað sem þið mynduð aldrei þora að gera undir venjulegum kringumstæðum...