Febrúar er búinn að vera einn stór brandari með allskonar óvæntum uppákomum. Hverjar eru líkurnar á því að kona á fertugsaldri býtti við vinkonu sína á Diane von Furstenberg-kjól og tveimur bandarískum lúxusklósettum? Maður hefði mögulega haldið að líkurnar væru engar en annað átti eftir að koma á daginn. Grunaði alls ekki ég yrði týpan sem stæði uppi með lúxusklósettin og einum Furstenberg fátækari.
Þetta byrjaði allt þegar ég gerðist meðlimur á hinni stórskemmtilegu síðu Merkjavara föt, skór & aukahlutir eins og ég sagði frá á dögunum. Áður en ég vissi af var ég farin að horfa allt öðrum augum á fataskápinn og sá að líklega væru bara 30% af því sem til er í skápnum í notkun. Húsmæðrahagfræði 101 segir að maður eigi að losa sig við það sem maður ekki notar svo maður geti keypt sér eitthvað annað í staðinn (án þess að það fari af matarpeningunum).
Ég prófaði mig áfram, tíndi til flíkur, myndaði þær og setti inn á síðuna og viðbrögðin fóru fram úr björtustu vonum. Fyrir utan hvað þetta er skemmtilegt þá gefur það augaleið að þessi neysluhegðun er ákaflega umhverfisvæn. Ég var reyndar spurð að því af ónefndri þingkonu hvort ég væri hætt að ganga í fötum en það er önnur saga. Ég hvet þær sem eru í sömu sporum til að brjóta odd af oflæti sínu og prófa – ekki setja sig á háan hest. Það er engin kona of fín fyrir húsmæðrahagfræðina. Það er ágætt að láta verðmæti ferðast um með þessum hætti og muna eftir því að allar komum við í heiminn á sama hátt og flestar óvart.
Það versnaði þó í því þegar vinkona mín hringdi í mig og tók „hárblásarann“ á mig fyrir að hafa sett kjól frá Diane von Furstenberg inn á síðuna. Hún lét mig heyra að við svona góss losaði maður sig ekki. „Þú veist að mig er búið að dreyma um Furstenberg-kjól mjög lengi,“ sagði hún af miklum ákafa. Ég benti henni á að Furstenberg-safnið væri orðið þokkalegt og þessi hefði af einhverjum ástæðum lítið sem ekkert verið notaður og ég hefði bara alls ekki áttað mig á því að þetta væri eitthvað sem hún þráði. „Ég kaupi hann af þér,“ sagði hún og ég varð eitthvað hálfgáttuð hinum megin á línunni.
Eins gaman og það er að selja það sem maður notar ekki sjálfur er hálfskrýtið að rukka sína bestu vinkonu fyrir kjól sem maður er hvort sem er ekki að nota, en ég komst ekkert áfram með þetta – kjólinn vildi hún fá sama hvað það kostaði.
Eins og gerist stundum þegar tvær konur tala saman í síma vorum við skyndilega farnar að tala um baðherbergi og þá sagði hún:
„Þú veist að ég á 14 klósett á lager sem brjálæðingurinn eiginmaður minn flutti til landsins í gámi. Þú færð náttúrlega þessi tvö klósett sem þig vantar. Þú gerir það fyrir pabba að taka þessi klósett, ég er að gera út af við hann með því að láta hann geyma þau fyrir mig í bílskúrnum,“ sagði hún og mér leið um stund eins og ég væri að gera góðverk með að þiggja klósettin og láta hana hafa kjólinn í staðinn.
Svona er maður nú rausnarlegur við vini sína og grand á því alla daga! Amen.