Það mun aldeilis draga til tíðinda í lok mars því þá kemst undirrituð loks í fullorðinna manna tölu. Eftir löng og ströng unglingsár mun 38 ára afmælisdagurinn renna upp bjartur, þurr og fagur. Eins skringilega og það kannski hljómar þá hefur undirritaðri alltaf fundist þeir sem eru 38 ára mjög fullorðnir eða mun fullorðnari en þeir sem eru 36 ára eða 37 ára.
Ég mun því að sjálfsögðu gera ráð fyrir að ég muni vakna upp hinn 23. mars sem algerlega fullmótuð fullorðin kona sem veit hvert hún er að fara og hvaðan hún er að koma. Þessi kona mun ekki efast um neitt – heldur keyra allt í botn á hraðbraut lífsins (algerlega óttalaus...með fæturna á jörðinni). Og svo mun hún skella á ef einhver hringir í hana og spyr hana hvort viðkomandi megi tala við pabba hennar.
Til þess að taka fagnandi á móti þessum virðulega aldri var einhvern veginn ekkert annað í stöðunni en að festa kaup á færslubók. Svona eldra fólk hefur náttúrlega mjög góða yfirsýn yfir fjármál sín og neyslu og því er unglingurinn að æfa sig í því að skrifa niður hverja einustu krónu sem fer út af reikningnum.
Undirrituð hefur fulla trú að allir geti orðið meistarar ef þeir nota fítonskraftinn sem býr innra með þeim og setja hann í forgrunn. Með færslubókina að vopni hefur undirrituð uppgötvað alveg nýja hlið á lífinu og það er hvað það er gott að leggjast á koddann á færslulausum dögum. Fyrir þá sem ekki þekkja færslulausa daga þá eru það þeir dagar sem enginn peningur fer út af kortinu...
Eini gallinn á færslubókargeðveikinni er að ég er skyndilega farin að sjá svolítið illa. Stundum þarf ég alveg að píra augun þegar ég skrifa niður 500 kall hér og 500 kall þar. Samt segja sérfræðingar að það séu alveg 2 ár í lesgleraugun eða jafnvel meira ef ég hef unnið í genalotteríinu.
Undirrituð er þó ekki farin að sjá það illa að hún komst að því að það væri ekki nóg að færslubóka bara yfir sig – hún þyrfti líka að setja smákraft í húðumhirðuna. Það eina sem vitað er í þessum heimi er að það strekkist víst ekki á andlitinu með aldrinum, allavega ekki af sjálfu sér!
Undirrituð er því farin að bera á sig húðnæringuna birtu, Lift & Glow, frá Sóley Organics, og setur 1-2 dropa samviskusamlega á allt andlitið og líka á hálsinn og nuddar vel. Í þessari húðnæringu, sem er íslensk og lífræn, er hafþyrnir, birki og vallhumall, sem ilmar líka svona ógurlega vel.
Þess á milli er andlitið djúphreinsað með Clarisonic-burstanum kvölds og morgna en hann gerir það að verkum að hann hreinlega burstar burt þreytu og ellimerki.
Ef ég færi einhvern tímann í ríkið myndi ég náttúrlega þrá það heitar en allt að vera spurð um skilríki, en lífið á snúrunni eyðileggur þetta náttúrlega allt fyrir mér...