c

Pistlar:

9. apríl 2015 kl. 18:58

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Ertu að ala upp litla karlrembu?

kolbeinn_ari.jpgMetnaðarfyllsta verkefni hvers foreldris er líklega að reyna að koma afkvæmum sínum nokkuð ósködduðum til manns. Að ala börnin okkar þannig upp að þau verði ekki óþolandi hrokafullar og leiðinlegar manneskjur á fullorðinsárum er mögulega stærsta verkefni lífsins. Og að þau verði heldur ekki mestu sóðar sem fyrirfinnast á plánetunni jörð.

Sem drengjamóðir finnst mér líka mjög mikilvægt að reyna að ala þennan lífeyrissjóð minn upp þannig að þeir verði ekki með karlrembu í efsta stigi. Verði ekki hundfúlir og húðlatir inni á heimili og að framtíðarmakar þeirra muni ekki eyða sínum dýrmæta tíma í að þræta við þá um heimilisstörf og hver eigi að sinna þeim.

Ég er kannski með jaðargreind en ég trúi því í alvörunni að það sé hægt að ala upp heimilislega menn sem taka þátt og hafa jafnvel bara svolítið gaman af því að fara út með ruslið og setja í þvottavél. Eftir að hafa fengið reglulegar spurningar hvers vegna ekki væri búið að þvo þessa hettupeysuna eða hina útskýrði ég fyrir drengjunum mínum að ég hefði einfaldlega ekki haft tíma. Ég hefði vaknað með þeim um morguninn, smurt nesti, gefið þeim morgunmat, krullað á mér hárið, keyrt þá í skólann, farið í vinnuna, á fund og í leikfimi, sótt þá í skólann, eldað kvöldmat og sofnað á sama tíma og þeir um kvöldið. Ég hefði bara ekki átt eina mínútu auka til að setja í þvottavél. Ég veit ekki hvort þessi ræða hafi skilað einhverju en ákvað að setja meiri metnað í að ala þessa ungu menn upp.

Leikurinn „paraðu saman sokkana“ getur verið jafn æsispennandi og besti raunveruleikaþáttur. Sérstaklega þegar þrír sameinast um að reyna að finna samstæður. Það mætti jafnvel koma upp hvatakerfi með vinningum fyrir þann sem parar saman flest pör eða eitthvað ...

Mér finnst nauðsynlegt að hver karl geti pakkað sómasamlega niður í ferðatösku án þess að fá hjálp frá mæðrum sínum eða ástkonum. Þess vegna voru drengirnir látnir pakka sjálfir niður í ferðatösku fyrir páskafríið.

Í þessum gjörningi áttaði móðirin sig á því að tæplega níu ára sonur hennar kunni ekki að brjóta saman föt. Það fór því fram kennslustund í því. Og svo kom spurningavagninn á fleygiferð ... „Hvað þurfum við marga sokka, nærbuxur og buxur ... og má ég taka búningana mína með,“ spurði sá yngri.

Ef fimm ára gamlan son minn langar til að klæðast búningum í páskafríinu þá má hann það og ég gerði heldur ekki athugasemd við það fyrr í vikunni þegar hann var kominn í „handrukkarajoggingbuxur“ við frekar fína, óstraujaða skyrtu og gúmmístígvél. Það þarf nefnilega bæði að ala upp og sleppa tökunum. Hafa ákveðinn ramma en gæta þess að skapandi hugsun barna sé ekki tortímt í smartheitum foreldranna. Og ég er líka alveg hætt að skammast mín fyrir útganginn á þeim því börn eru ekki fylgihlutir.

Þetta með ferðatöskuna og að pakka sjálfir er nú bara gert til að minnka líkurnar á því að þeir lendi í því sama og ættingi minn gerði fyrir 40 árum eða svo. Þá hafði þessi kvænti maður farið í vinnuferð til útlanda og þegar eiginkonan opnaði ferðatöskurnar hans blöstu við best straujuðu föt sem hún hafði nokkru sinni séð og ekki nóg með það heldur var þetta svo vandlega saman brotið að hann hefði aldrei getað gert þetta sjálfur þótt líf hans lægi við. Það var því bara eitt í stöðunni og það var að þrykkja töskunni út úr íbúðinni og karlinum á eftir ... Góða ferð!