c

Pistlar:

20. apríl 2015 kl. 15:44

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Að skilja tilfinningarnar eftir heima

"Djöfull átti ég ömurlegan dag,“ sagði vinkona mín mæðulega þegar hún hringdi í mig á dögunum og svo byrjaði hún að telja upp allt sem fór úrskeiðis þann daginn og hvernig hún hefði siglt á milli skers og báru í lífsins ólgu sjó og rétt náð að sigla í höfn án stórslysa.

„Og svo þurfti ég aðeins að stelast til að reykja til að ná mér niður eftir daginn,“ sagði hún og bætti við: „Sálfræðingurinn minn segir að ég ráði bara alls ekki við það að sleppa þessari einu sígarettu á dag á meðan líf mitt er statt á þessum stað.“

Ég skildi hana fullkomlega og var eiginlega mest hissa á því að hún hefði ekki tekið hárblásarann mörgum sinnum á alla þessa fávita sem urðu á vegi hennar þann daginn. Það er nefnilega svo ótrúlega auðvelt að öskra og æpa þegar manni mislíkar eitthvað, henda sér í gólfið eins og fimm ára krakki, og láta bara öllum illum látum. Svo miklu auðveldara en að anda inn og anda út, telja upp á tíu og segja ekkert óviðeigandi. Að vera vandaður er stundum alveg full vinna.

Ég er samt ekki að mæla með því að konur láti vaða yfir sig en það er gott að hafa það bak við eyrað að það er hægt að fá sínu framgengt á ótal vegu og yfirleitt er mun vænlegra að nota mjúku leiðina (sparibrosið).

Svo er ýmislegt sem ber að varast.

Fyrir nokkrum árum vann ég með manni sem kenndi mér besta trixið í bókinni og það er að skrifa aldrei neitt í tölvupósti sem ekki má fara í útvarpið. Maðurinn þekkti þetta út og inn enda búinn að vera í pólitík og reka fjölmiðla og hafði augljóslega brennt sig. Í pólitíkinni er engum treystandi.

Ég bý ennþá að því að hafa horft á gömlu Dalls-þættina frá byrjun, seríu fyrir seríu. Í þeim þáttum var JR Ewing upp á sitt besta og hugsa ég oft til hans þegar ég er við það að kasta mér í gólfið í óhemjugangi út af óréttlæti heimsins. Ef ég staldra við og hugsa hvað hann frændi minn á Southfork hefði gert þá kemur svarið til mín.

Hann fékk alltaf sínu framgengt og plottaði grimmt. Það síðasta sem hann hefði boðið upp á var að láta „bösta“ sig þegar hann slysaðist til að gera eitthvað sem hann átti ekki að gera. Það er ákveðin list og á sama tíma áhugavert consept – eitthvað sem konur eru svo allt of lélegar í. Karlar kunna að plotta. Tilfinningar okkar eru svo allt of oft að þvælast fyrir okkur og koma okkur í vandræði. Þess vegna er ágætt að skilja tilfinningarnar eftir heima þegar við mætum í vinnuna og hugsa eins og stórlax.

Þegar fyrrnefnd vinkona mín hringdi spannst samtalið út í hvað hún gæti gert sem væri valdeflandi fyrir hana og myndi koma í veg fyrir að hún væri alltaf alveg að fara fram af brúninni. Auðvitað er engin ein leið rétt en hver og ein þarf að finna sér eitthvert tákn sem minnir hana á að hún hafi valdið. Því þegar við höfum valdið þá gengur okkur mikið betur að synda í land án þess að láta smámuni koma okkur í uppnám.

Nú svo má alltaf nota frasann sem hann fimm ára sonur minn kenndi mér á dögunum (hann lærði hann í Svínasúpunni á youtube.com) og það er að hvísla blíðlega í eyra: „Skíttu í þig helvítis bröggull.“