c

Pistlar:

27. maí 2015 kl. 11:07

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Lífið er of stutt til að vera meðvitundarlaus

heilsufer_alag.jpgFyrir níu vikum hófst heilsuferðalag Smartlands Mörtu Maríu og Hreyfingar. Fimm stelpur voru valdar úr stórum hópi fólks til þess að takast á við þá áskorun að breyta lífi sínu til góðs með hreyfingu og heilbrigðu mataræði. Öfgarnar voru skildar eftir heima og daglegri hreyfingu komið inn í dagskrána. Svona fyrst þær voru byrjaðar skoraði ég á þær að vera sykurlausar í 10 vikur. Ég veit nefnilega af eigin raun hvað sykurleysi getur gert mikið fyrir mann.

Stelpurnar fimm hafa aldeilis sýnt það og sannað að kraftaverkin geta gerst ef viljinn er fyrir hendi.

Við þekkjum það örugglega allar hvað það er hryllilega auðvelt í glundroða tilverunnar að hreyfa sig ekki, borða „óvart“ eitthvert jukk á hlaupum og deyja svo rétt eftir kvöldmat í sófanum yfir sjónvarpinu – algerlega búnar á því. Það er allt í lagi að velta því fyrir sér, þegar glundroðinn nær yfirhöndinni, hvort það sé þess virði að draga andann ef maður ætlar að lifa lífi sínu algerlega meðvitundarlaus.

Þegar við völdum í heilsuferðalagið fannst mér skipta máli að velja konur sem væru dæmigerðar íslenskar ofurkonur. Svona ofurkonur sem hugsa alltaf fyrst um aðra og láta sig sjálfar sitja á hakanum. Konur í fullri vinnu með börn og heimili. Þótt ég segi ofurkonur verð ég að játa að allt svona ofurkonutal fer í taugarnar á mér. Ég veit nefnilega ekki betur en íslenskar konur hafi alltaf unnið allan sólarhringinn, tekið ábyrgð á öllum og öllu og verið hamhleypur til verka. Það að ætla að pikka út og flokka einhverjar sérstakar konur sem ofurkonur finnst mér alveg vera „last season“. Ég þekki nefnilega fáar konur sem eru ekki alltaf að sigra heiminn á hverjum degi – hver á sinn hátt. Því miður eru þær ekki allar á forstjóralaunum þótt þær ættu þau svo sannarlega skilið. Svo má ekki gleyma því að sumar eru betri í því en aðrar að koma sér á framfæri en það breytir því ekki að fæstum fellur nokkurn tímann verk úr hendi.

Það að gefa sér tíma til að hreyfa sig ætti að vera jafnsjálfsagt og að tannbursta sig. Við hættum því ekki þótt við höfum engan tíma eða okkur finnist það drepleiðinlegt. Þegar ég tala um að konur eigi að hreyfa sig er ég ekki að tala um að allar konur eigi að vera eins og vanskapaðar Barbie-dúkkur í laginu heldur það hraustar og sterkar að þær geti hlaupið skammlaust á eftir strætó og flutt veraldlegar eigur sínar á milli húsa án þess að andast. Það að fá hjartað til að slá hraðar daglega gerir okkur gott.

Allar fáum við verkefni sem virðast stundum vera óyfirstíganleg og þá er nú betra að hafa úthald og styrk til þess að geta tekist á við þau. Þótt það sé stundum freistandi að leggjast bara í gólfið og grenja þegar lífið er ekki alveg nógu hagstætt þá skilar það ósköp litlu – allavega ekki þegar til lengri tíma er litið.

Dagleg hreyfing eykur líkurnar á því að við séum í essinu okkar og ef ég á að vera alveg hreinskilin þá er lífið bara allt of stutt til þess að vera það ekki alla daga – alltaf.