Mögulega eru það bara fávitar sem segja yfirleitt já í stað nei. Reynslan hefur samt kennt undirritaðri það, og er hún nú ekki fædd í gær, og sannað að með því að segja já í stað nei verður lífið eitthvað svo miklu líflegra. Hitastigið hærra og himinninn blárri en nokkru sinni fyrr... eða eitthvað.
Þegar konur eru orðnar 38 ára gamlar eru þær nokkurn veginn búnar að átta sig á því fyrir hvað þær standa og hvað þær vilja fá út úr lífinu. Þess vegna þurfa þær ekkert að efast þegar gylliboðin detta af himnum ofan. Og ef gylliboðin detta ekki af himnum ofan kunna þær að pródúsera þétta skemmtipakka með fjöri og ferðavinningum.
Það er gert til þess að stuðstuðullinn fari ekki undir frostmark. Það versta sem gæti gerst í lífi svona kvenna er að þær lentu í þeirri hræðilegu stöðu að leiðast, sem gerði það að verkum að þær yrðu óhamingjusamari en nokkru sinni fyrr.
Það eru til margar leiðir til að keyra upp stemninguna. Númer eitt, tvö og þrjú er að vera umvafinn fólki sem liggur eitthvað á hjarta. Fólki sem hefur ástríðu fyrir lífinu og velur björtu hliðarnar – ekki myrkrið. Fyrir einhverja dugir að hella í sig nógu af langdrykkjum en við erum nú ekkert að mæla með því hér!
Þegar konur eru umvafðar uppátækjasömum vinkonum getur stuðið stundum farið yfir hættumörk.
Á dögunum vorum við vinkonurnar staddar á hverfisveitingastaðnum eins og svo oft áður. Á meðan undirrituð brá sér frá í augnablik til þess að ræða við kunningja sína á næsta borði voru hinar búnar að skipuleggja húsbílaferð. Svona eins og konur gera á korteri eitt bjart föstudagskvöld í lok maí.
Meðan þið liggið í makindum uppi í rúmi með Moggann og morgunkaffið verð ég líklega að vaska upp í pallíettufötum í húsbílnum sem heitir því fallega nafni Kollan (í höfuðið á eigandanum).
Þessar spariguggur voru nefnilega búnar að ákveða að þemað yrði Absolutely Fabulous og það kæmist enginn inn í húsbílinn nema vera í pallíettufötum. Ég sá það svo sem ekki sem hindrun því pallíettugleði síðustu ára kallar alveg á nokkur dress. Þetta er meira spurning um í hverju á að vera við. Pallíettur á pallíettum eru nefnilega alveg „last season“.
Á einhverjum tímapunkti voru þessar vinkonur mínar að reyna að útbúa heitan pott sem hægt væri að draga aftan úr Kollunni en sem betur fer tókst það ekki. Það hefði án efa endað illa ef ég þekki þessa geimflaugasmiði rétt.