c

Pistlar:

6. september 2015 kl. 10:54

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Gull fer ekki vel í maga

winston

Haustið er að skella á með öllum sínum flottheitum og spariguggurnar eru alveg að tryllast eins og lög gera ráð fyrir. Upp vakna náttúrlega mjög mikilvægar spurningar um hvernig þær eiga að taka á móti nýrri árstíð með glans? Bæði smáhestar og arabískir veðhlaupahestar þurfa að finna út hvernig þeir ætla að brokka þetta haustið.

Gullið hefur sjaldan verið meira áberandi. Spariguggurnar eru samt ekki farnar að éta gull í staðinn fyrir chia-fræ – það er 2015, ekki 2007. Nýjustu rannsóknir hafa heldur ekki leitt í ljós að gull sem fæða sé sérstaklega grennandi. Svo má ekki gleyma því í glundroða hversdagsins að hér varð hrun. Smáhestinum fannst mikilvægt að minnast á þetta því hann hafði á tilfinningunni að það væri örlítið búið að fenna yfir farinn veg. Sérstaklega þegar allir og amma þeirra, IceHot1 og allir vinir hans flykktust til Hollands til þess að horfa á karla sparka bolta sín á milli. Á meðan á þessum gjörningi stóð voru drukkin heilu höfin af bjór og þeir allra villtustu létu mála sig í framan. Smáhesturinn velti því fyrir sér þegar hann horfði á hvert Snapchatið á fætur öðru hvar þetta fólk hefði fengið peninga ... Eru bara allir farnir að hella í sig fyrir allan peninginn á yfirdrættinum? Varla keyrir 7% launahækkun upp þessa stemningu eða hvað?

icehot1Hvað varð um allt fólkið sem gekk sperrt um bæinn í lopapeysum og tók slátur?

Það vill náttúrlega engin sparigugga láta standa sig að því að vera eins og nýríkur smáborgari til fara og heldur ekki eins og uppgjafa rappari (eða starfsmaður listdansklúbbs sem starfar eftir miðnætti). Það er engin að fara að hlaða á sig gullkeðjum og setja hringi á hvern fingur og það er heldur engin að fara að skreyta bílinn sinn með álímdum gullröndum. Það mætti samt setja þessar gullrendur á einn vegg eða kannski tvo ef spariguggan er í miklu stuði ... mjög miklu stuði!

Það þarf að stíga svolítið varlega til jarðar því að skilin á milli vandaðs og óvandaðs eru óvenju óskýr þegar gullið er annars vegar. Það er auðvelt að falla í gryfju nýríka smáborgarans ef ekki er farið nógu gætilega.

Gullið kemur inn með örlítið nýjum hætti núna. Gullrennilásar á flíkum eins og leðurjökkum og á uppháum stígvélum mega lifa. Það er líka í lagi að kaupa sér tösku með gullfestingum og svo fara vegleg gullarmbönd náttúrlega ekki úr tísku. Gulli skreyttir fylgihlutir eins og símahulstur og sólgleraugu geta keyrt upp stemninguna svona áður en rútínan skellur á með öllum sínum hafragraut, heimalærdómi og drunga.

Spariguggan sem hér skrifar gekk skrefinu lengra um daginn og keypti gullhöldur á eldhúsinnréttinguna og svo tók hjartað aukaslag þegar hún rakst á gulllitaða blómapotta í Lundúnum sem hún varð að eignast. Nú eru þessir blómapottar fáanlegir á Íslandi og því ber að fagna. Þegar þessi sparigugga ætlaði að fara að kaupa sér gullveggfóður var hún stoppuð af. Arabíski veðhlaupahesturinn, vinkona hennar, sagði að gullveggfóðrið myndi breyta ásýnd heimilisins í ódýran næturklúbb í vafasömum hverfum stórborga. Þetta rugl yrði að stoppa og það strax. Spariguggan fór því tómhent heim og er ennþá að reyna að finna veggfóður sem passar hennar vandaða lífsstíl – eða þannig.