Smáhesturinn á það til að vera dálítið barnalegur og hvatvís. Alveg sama hvað árin bætast við og hrukkurnar (tölum ekki um þær) þá hverfur hvatvísin aldrei. Smáhesturinn sem hér skrifar veit að þetta hefur nokkrum sinnum komið honum í vandræði. Mismikil og misdýr en oft skapað óþarflega mikið vesen.
Á dögunum var smáhesturinn staddur í útlöndum og þegar hann komst í outlet fór blóðþrýstingurinn upp úr öllu valdi. Um tíma var smáhesturinn orðinn eins og öskrandi sparigugga þegar verst lét. Rjóður í kinnum og allt.
Smáhesturinn gjörsamlega ryksugaði upp spjarirnar af slánum og þrykkti þeim inn í mátunarklefa. Það að finna bundna kjóla á afslætti getur framkallað allskonar jaðarhegðun sem ekki er gott að leika eftir – allavega ekki í fjölmenni og alls ekki fyrir framan börn.
Smáhesturinn getur nefnilega breyst í barnalegan smáborgara þegar hann hefur það á tilfinningunni að hann sé um það bil að ganga frá kaupum lífs síns. Þetta element sem á sér stað þegar hann finnur á sér að hann sé að græða er eitthvað sem hann ræður hreinlega ekki við.
Í þessari utanlandsferð náði hann þeim áfanga að fara fjórum sinnum á kassann í ónefndu outletti. Alltaf þegar hann var kominn að kassanum og búinn að borga kom hann auga á eitthvað annað sem hann varð að máta og því urðu ferðirnar á kassann þrjár eða fjórar.
Alltaf tóku skælbrosandi og næs starfsmenn á móti smáhestinum þar sem hann renndi Vísa-kortinu í gegn – svona líka alsæll með lífið og tilveruna.
Það versnaði þó í því þegar smáhesturinn kom heim og hóf sitt daglega líf á ný. Fór að éta sinn hafragraut og sína grænu sjeika og fara í sínar daglegu ferðir í miðbæ Reykjavíkur að morgni til. Eitt af daglegum störfum smáhestsins er nefnilega að drekka almennilegt kaffi (með almennilegum stóðhestum) og þegar hann sótti bolla af einu slíku og ætlaði að renna sínu glansandi fína og vandaða Vísa-korti í gegn þá kom bara SYNJUN.
Smáhesturinn skildi ekkert í þessu og kortinu var rennt aftur í gegn og aftur gerðist nákvæmlega það sama. SYNJUN. Sem betur fer var smáhesturinn með nokkra gullpeninga í veskinu og gat því borgað sig út úr þessum vandræðum.
Þegar smáhesturinn hringdi í sinn uppáhaldsþjónustufulltrúa sem starfar í Íslandsbanka við Kirkjusand vorum þau bæði alveg jafn hissa á þessum ósköpum. Þegar þjónustufulltrúinn góði renndi í gegnum kortafærslur kom í ljós að heimildin var miklu meira en búin því í verslunarleiðangrinum ógurlega hafði færsla upp á tæplega fjórar milljónir farið í gegn. Smáhesturinn fékk hland fyrir hjartað enda aldrei verið með slíka heimild á kortinu sínu.
Svo fékk smáhesturinn öran hjartslátt og fór að hugsa hvað hann þyrfti að fá sér margar aukavinnur til að borga þessar milljónir til baka.
Góður þjónustufulltrúi er klárlega betri en enginn og áður en langt um leið var þessi elskulega manneskja búin að hafa samband við Vísa og á nokkrum dögum var færslan afturkölluð. Um mannleg mistök var að ræða þarna í outlettinu. Smáhesturinn gat því haldið brokkinu áfram – sigldari en nokkru sinni fyrr og mögulega 57% varkárari. Fjögurra milljóna kjóllinn verður samt alltaf í sérstöku uppáhaldi. Annað væri vanvirðing við frú Furstenberg.