Síðustu ár hefur umræðan verið að opnast og í dag ræðir fólk allskonar hluti opinberlega sem það hefði aldrei gert fyrir áratug eða svo. Í hverri viku heyrum við sögur af hugrökku fólki sem hefur ýmsa fjöruna sopið og skammast sín ekki fyrir það.
Þrátt fyrir þessa opnun þar sem heiðarleikinn er hafður að leiðarljósi er merkilegt að upplifa það að við erum alls ekki komin á þann stað sem þjóð að ræða opinskátt um peninga. Flestir eru staddir á þeim stað að vanta eða þurfa meiri peninga og þeir allra djörfustu kvarta yfir því – en fæstir ræða um sín persónulegu fjármál.
Smáhesturinn á nokkrar góðar vinkonur og játar það hér að hann hefur betri yfirsýn yfir fjölda elskhuga vinkvenna sinna en hvað þær eru með í laun og hvernig þær fara að því að draga andann. Smáhesturinn hefur ekki hugmynd um það hvort hinar spariguggurnar leggja reglulega fyrir, hvað þær eyða miklu í mat á mánuði og í hvað þær nota peningana sína.
Það kom því á óvart fyrir mörgum mánuðum þegar smáhesturinn var kynntur fyrir sparnaðarleið sem hafði virkað svona líka vel fyrir vinkonuna og fjölskyldu hennar. Fólk á venjulegum launum með meðalstórt heimili á í mesta basli með að ná endum saman en þessi gáfaða vinkona fann leið. Með því að reyna að eyða ekki meira en 4.000 krónum á dag í mat fyrir fjögurra manna fjölskyldu tókst henni að borga niður námslánin og er á góðri leið með að vera búin að borga niður bílalánið og sitthvað fleira.
Smáhesturinn varð svo glaður í hjartanu að geta talað um peninga á eðlilegan og jákvæðan hátt. Vinkonan setti þetta nefnilega upp á svo spennandi hátt að smáhesturinn hreinlega iðaði í skinninu að prófa líka og sjá hvort hann gæti ekki orðið meistari á þessu sviði. Svona smáhestar, sem eru svolítið fyrir að hafa fallegt í kringum sig og eiga þokkalegar spjarir, þurfa að fara extra vel með eigið fé ef það á ekki bara að mokast út um gluggann í eitthvert rugl.
Hugljómun smáhestsins varð þannig að hann hefur síðan í ársbyrjun reynt að lifa á 4.000 króna reglunni. Með því að setja viðmið verða öll matarinnkaup auðveldari og þetta minnkar matarsóun um mörg prósent. Fólk sem hugsar meira með hægra heilahvelinu líkt og smáhesturinn getur svo auðveldlega keypt allskonar rugl þegar það fer að versla ef fókusinn er ekki skýr. Þess vegna hefur þessi 4.000 króna regla einfaldað lífið ósköp mikið. Í dag á smáhesturinn ekki lager af matvöru sem gæti verið gott að eiga í skápunum heldur er bara það allra nauðsynlegasta keypt. Og það er ekki hægt að segja að smáhesturinn sé kominn með næringarskort eða svo mikinn andlegan leiða á lífinu að hann langi bara að slaufa því – þvert á móti.
Með því að eyða ekki alltaf öllum mánaðarlaununum í mat sem skemmist er hægt að gera eitthvað annað fyrir peninginn sem skapar minningar og gerir lífið innihaldsríkara.
Í vikunni birti Smartland Mörtu Maríu viðtal við konu sem prófaði að kaupa sér engin föt í 90 daga. Upplifun hennar hitti smáhestinn í hjartastað. Hún hafði ekki bara miklu meiri tíma til að gera eitthvað skemmtilegt heldur varð líf hennar innihaldsríkara og betra á því að vera ekki alltaf í búðum. Ef einhver er að leita að hamingjunni með Visa-kortið á lofti þá mæli ég með því að lesa þessa grein og prófa. Það gerist víst ekki neitt nema við prófum!